Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 23. febrúar 2024

Heil og sæl, 

Hér kemur hið vikulega yfirlit yfir líf og störf í sendiskrifstofum okkar Íslendinga um víða veröld.

Þessi föstudagur er hlýr og fagur að sjá þegar setið er innandyra en kaldur og hvass við nánari athugun utandyra. Við þekkjum þetta vel, eigum meira að segja hið ágæta hugtak: gluggaveður, yfir ástandið, sem þekkist ekki í öðrum tungumálum.

Öryggis- og varnarmál voru það sem bar hæst í liðinni viku, eins og stundum áður um þessar mundir. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ferðaðist til München þar sem hann tók þátt í árlegri ráðstefnu um öryggismál.

Á ráðstefnunni tók ráðherra þátt í þremur hringborðsumræðum; um þær áskoranir sem frelsi í heiminum stafar af öfgahyggju og einræðisríkjum, um orkuöryggi og síðast en ekki síst öryggismál á norðurslóðum. 

„Öll umræða og samtöl hér undirstrika versnandi öryggishorfur og vaxandi spennu í alþjóðasamskiptum. Lýðræðisríki þurfa að standa saman og vera reiðubúin að verja grunngildi og alþjóðalög í orði og verki,“ sagði Bjarni. 

Þá nýtti ráðherra tækifærið og átti fjölda tvíhliðafunda við ráðherra sem einnig voru á svæðinu. 

Dauði rússneska lýðræðissinnans Alexei Navalny um síðastliðna helgi vakti óhug víða. Forstöðumaður sendiráðs Rússlands í Reykjavík var kallaður í utanríkisráðuneytið á miðvikudag þar sem honum var gerð grein fyrir afstöðu Íslands. Ísland fordæmir fangelsun og illa meðferð þeirra sem berjast fyrir mannréttindum og frelsi.

En það skiptast sannarlega á skin og skúrir í alþjóðamálum og verkefnum utanríkisþjónustunnar því í vikunni undirritaði ráðherra líka nýjan samning um stuðning við skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) en samið var um að árlegt framlag Íslands til stofnunarinnar verði meira en tvöfaldað. Samningurinn er til fimm ára sem er til marks um staðfastan stuðning Íslands við starfsemi Sameinuðu þjóðanna fyrir mannréttindum í heiminum. 

Þriggja manna sendinefnd utanríkisráðuneytisins heldur áfram störfum í Egyptalandi til að greiða fyrir för dvalarleyfishafa með fjölskyldusameiningu frá Gaza. Ekki liggur fyrir hvernig endanleg tímalína málsins verður en áfram verða veittar upplýsingar um framvinduna á vef ráðuneytisins.

Sendiráð Íslands í Berlín tók auðvitað vel á móti ráðherra og sendinefnd í tengslum við fyrrnefnda öryggisráðstefnu í München.

 

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra var ekki eini íslenski ráðherrann sem sótti ráðstefnuna heldur tók sendiráðið einnig á móti fyrrum utanríkisráðherra og núverandi fjármálaráðherra Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem tók meðal annars tók þátt í hringborðsumræðum um framtíð alþjóðasamskipta.

Um síðustu helgi fóru fram í Felleshus árlegir norrænir kvikmyndatónlistardagar með fjölbreyttri dagskrá. Hápunktur dagskrárinnar var afhending Hörpu-verðlaunanna, Harpa Film Music Composers Award. Í ár hlaut Eðvarð Egilsson verðlaunin fyrir tónlist sína í myndinni „Smoke Sauna Sisterhood“ sem Anna Hints leikstýrði. Myndin er samstarfsverkefni Eistlands, Frakklands og Íslands og fengið hefur nokkur alþjóðleg verðlaun. Verðlaunagripurinn er íslensk smíði og fer nú aftur til Íslands með verðlaunahafanum. Sendiráðið bauð til móttöku þar sem fram fór listamannsspjall Signýjar Leifsdóttur fulltrúa Tónlistarmiðstöðvar við Eðvarð Egilsson.

Í síðustu viku tók María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Berlín á móti fulltrúum stjórnar samtakanna FidAr, en samtökin mæla fyrir meiri hlutdeild kvenna í stjórnum fyrirtækja. Stjórnina skipa þær Prof. Dr. Anja Seng og Elisabeth Kern og fengu þær fræðslu um sögu og áherslur Íslands í jafnréttismálum.

Á morgun verða tvö ár liðin frá því að Rússland réðist inn í Úkraínu. Þessa dimma dags verður minnst víða með ýmsum hætti. Á vettvangi ráðherranefndar Evrópuráðsins ítrekuðu fastafulltrúar stuðning við Úkraínu í tilefni af tímamótunum. 

Í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York flutti utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytri Kuleba, ræðu af sama tilefni og lýsti Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands andrúmslofti stuðnings og einingar í salnum. 

Aðalræðismaður Íslands í Þórshöfn í Færeyjum, Ágústa Gísladóttir, tók á móti góðum gestum í vikunni. Annars vegar Nönnu Hermannson, formanni vinafélags Svíþjóðar og Færeyja

og hinsvegar starfsmönnum skrifstofu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslu sem komu færandi hendi.

GRÓ þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu rekur fjóra skóla sem allir miða að uppbyggingu og færni þekkingar í þróunarlöndunum. Áherslusvið skólanna eru landgræðsla, jarðhiti, sjávarútvegur og jafnrétti. Í vikunni fór fram vel heppnaður viðburður útskrifaðra nemenda úr skólunum í Úganda sem greint var frá á samfélagsmiðlum sendiráðs Íslands í Úganda.

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn minnir á kvikmyndahátíðina Nordatlantiske Filmdage sem fer fram um næstu helgi. Dagskráin er vegleg að vanda og framlag Íslands ekki af verri endanum.

Í sendiráði Íslands í Malaví var vel tekið á móti Jóni Geir Péturssyni, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands sem heimsótti sveitir landsins og fræddist um sjálfbæra þróun í umhverfismálum þar á bæ. Þessi tengsl og þekkingarskipti eru ómetanlegur auður í samvinnu Íslands við önnur ríki í allri vinnu tengdri loftslagsvánni sem við stöndum jú öll fyrir í sameiningu.

Þýskaland var ekki eini staðurinn þar sem öryggismál voru rædd og ígrundið heldur fór fram í Nýju-Delí öryggisráðstefnan Raisina Dialogue. Martin Eyjólfsson ráðuneytissjóri tók þátt í ráðstefnunni fyrir Íslands hönd. 

Norræn sendiráð gerðu víðreist um Saskatchewan hérað í Kanada til að styrkja tengsl svæðisins við Norðurlöndin.

Í framhaldi af heimsókninni til höfuðborgar Saskatchewan héraðs, Regina fór Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Ottawa til Winnipeg, Manitoba þar sem þau heimsóttu nokkra fulltrúa fylkis og borgar, skoðuðu kanadíska mannréttindasafnið og ræddu ýmis málefni meðal annars loftslagsbreytingar, mannréttindi, efnahagsmál í norðri og öryggismál á norðurslóðum. 

Í ferðinni fengu sendiherrarnir tækifæri til að heimsækja kanadíska mannréttindasafnið. 

Þá heimsóttu sendiherrarnir norrænu, ásamt aðalræðismanni Íslands í Winnipeg Vilhjálmi Wiium, höfuðstöðvar kanadíska flughersins þar sem enn frekar var rætt um sameiginlegar varnir og öryggi norðuslóða.

Á dögunum fór fram viðburði á vegum Mennta-, vísinda og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) þar sem sendiherra Íslands í París, Unni Orradóttur Ramette, gafst tækifæri til að deila reynslu Íslands í jafnréttismálum, einkum hvað varðar konur í stjórnun og leiðtogastöðum.

Þá var Unnur einnig fulltrúi Íslands á viðburði Alþjóðaorkumálastofnunarinnar sem haldinn var í vikunni. 

Auk viðburðar á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) 

Sendiráð Íslands í París deildi litlu myndskeiði af Jóni Kalmann Stefánssyni þar sem hann gerir heiðarlega tilraun til að lýsa inntaki bókarinnar Gulur kafbátur í stuttu máli í tilefni af því að nú fæst hún í franskri þýðingu í öllum betri bókabúðum þar í landi. 

Hjá sendiráði Íslands í Stokkhólmi voru bókmenntir líka í hávegum í vikunni. Meðal sagt frá tilnefningum til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs en íslensku höfundarnir Kristín Eiríksdóttir og Anna María Borgadóttir hlutu tilnefningu þetta árið fyrir bækur sínar Tól og Jarðsetning. 

Þá var fylgjendum einnig bent á að hægt er að hlusta á bókina Open Sea eftir Einar Kárason í þýðingu John Swedenmark í sænska ríkisútvarpinu.

Nordic Talks halda áfram í Japan með stuðningi sendiráðs Íslands í Tókýó. Þann 6. mars næstkomandi verður umræðuefnið konur í vísindum.

Sendiherra Íslands í Japan, Stefán Haukur Jóhannesson veitti Tanito Suisan verðlaun fyrir vinnslu sjávarafurða frá Íslandi á verðlaunaathöfn samtaka fiskvinnslu án útgerðar. 

Í sendiráði Íslands í Póllandi var tekið á móti fulltrúum frá Skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar sem fengu þar tækifæri til að hitta pólska kollega.

Og starfsfólk sendiráðs okkar í Póllandi deildi einnig upplýsingum um listsýningu Hjörleifs Halldórssonar sem nú stendur yfir í Poznań í Póllandi undir yfirskriftinni "Glöggt er gests augað". 

Þann 22. mars næstkomandi verða hundrað ár liðin frá stofnun viðskiptatengsla milli Íslands og Póllands. Af þessu tilefni efnir sendiráðið til kynningar á íslenskum fyrirtækjum sem starfa á pólskum markaði. Þau sem vilja vera hluti af viðburðinum er hvött til að hafa samband við sendiráð Íslands í Póllandi.

Þórir Ibsen sendiherra Íslands í Kína átti fund með YU Benlin, skrifstofustjóra alþjóðlegra viðskipta og efnahagsmála í viðskiptaráðuneyti Kína til að ræða hvernig best væri staðið að því að fylgja eftir sammæli Martins Eyjólfssonar ráðuneytisstjóra og Ling Ji vara viðskiptaráðherra um að hefja könnun á uppfærslu fríverslunarsamnings ríkjanna.

Fyrsti fundur Icelandic Business Forum á ári Drekans fór fram í vikunni, en sendiráðið stendur fyrir reglubundnu samráði við íslensk fyrirtæki með starfsemi í Kína. Að vanda báru fyrirtækin saman bækur sínar um viðskiptin á liðnu ári og horfur á því komandi. Sendiráðið kynnti viðskiptaáætlun þess fyrir 2024, og því var sérstaklega fagnað að fulltrúi Íslandsstofu tók þátt í fundinum. Þá voru ræddar fyrstu hugmyndir um sameiginlega málstofu sendiráðsins og IBF um framkvæmd og mögulega þróun fríverslunarsamningsins í tilefni af 10 ára afmæli hans

Loks tók sendiherra ásamt fjölskyldu þátt í hátíðarhöldum í tilefni af „ljóskersdeginum“ (Lantern day) sem skipulagður var af utanríkisráðuneyti Kína, en sá dagur markar lok kínversku áramótanna og vorhátíðarinnar.

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra Íslands í Washington var stödd á Íslandi í vikunni og hitti þar bandaríska sendiherrann hér á landi, Carrin Patman. Þær ræddu um tenslin milli Íslands og Bandaríkjanna. 

Endum þennan föstudagspóst á unga fólkinu og framtíðinni.

Model UN hefur um árabil gegnt því göfuga hlutverki að kynna fyrir ungmennum starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Davíð Logi Sigurðsson og Ragnhildur Arnórsdóttir í sendiráði Íslands í Washington tóku á móti 35 nemendum sem taka þátt í 61. Model United Nations í Norður Ameríku. Nemendurnir komu í sendiráðið til að fræðast um Ísland og starfsemi íslensku utanríkisþjónustunnar því þau koma til með að vera íslenska sendinefndin á þinginu.

Ísland var innblástur nemenda sem tóku þátt í keppninni um framtíðarborgir. Davíð Logi Sigurðsson heimsótti nemendurna og skoðaði verkefnin. 

Fleira var það ekki að sinni. 

Njótið helgarinnar!

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta