Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 8/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 4. febrúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 8/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19090059

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. september 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. september 2019, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.Kærandi krefst þess í fyrsta lagi að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hennar til meðferðar að nýju. Í öðru lagi gerir kærandi kröfu um leyfi til áframhaldandi dvalar- og atvinnuleyfi á meðan umsókn hennar er til meðferðar, sbr. 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Verði niðurstaða kærunefndar sú að staðfesta hina kærðu ákvörðun krefst kærandi þess að henni verði veittur sanngjarn frestur til að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi á nýjum grundvelli og leyfi til áframhaldandi dvalar hér á á landi á meðan sú umsókn yrði til meðferðar.Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara þann 13. júní 2018 með gildistíma til 12. júní 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. mars 2019, var fyrrgreint dvalarleyfi afturkallað. Var kæranda veitt heimild til dvalar á landinu á meðan dvalarleyfisumsókn hennar frá 1. febrúar 2019 var til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. september 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 9. september sl. og kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 24. september sl. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 1. október sl. féllst kærunefndin á þá beiðni. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 8. október sl. ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni vísaði Útlendingastofnun til og reifaði ákvæði b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, ásamt lögskýringargögnum með ákvæðinu. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins virtist það vera ótvírætt skilyrði að hjúskap eða sambúð hafi verið slitið og að hvorki umrætt ákvæði né önnur ákvæði laga um útlendinga mæltu fyrir um undantekningar frá því skilyrði. Samkvæmt bréfi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. júní 2019, hafi skilnaðarmáli kæranda og maka hennar verið vísað frá og skilnaður að borði og sæng ekki veittur. Væri það jafnframt mat stofnunarinnar að samvistarslit félli ekki undir viðmiðið um að hjúskap teldist hafa verið slitið. Að framangreindu virtu væri stofnuninni ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn hennar því synjað. Var kæranda gert að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunarinnar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni vísar kærandi til þess að ástæður þess að hún og fyrrverandi maki hennar hafi ekki slitið hjúskap megi rekja til þess að fyrrum maki hennar hafi hætt að mæta á fundi til sýslumanns og hafi skilnaðarmál þeirra því verið fellt niður. Þrátt fyrir að sambandi þeirra sé löngu lokið haldi hann kæranda fastri í hjúskap, gegn hennar vilja. Vegna þess hafi kærandi neyðst til að ráða sér lögmann til að höfða fyrir sína hönd skilnaðarmál fyrir dómstólum. Hafi hún þegar sótt um gjafsókn en tilraunir lögmanns hennar til að birta stefnu fyrir fyrrum maka hennar hafi aftur á móti enn ekki tekist.

Kærandi byggir á því að sú staðreynd að hún hafi sannanlega gert tilraun til að ná fram skilnaði eigi að leiða til þess að Útlendingastofnun beri að líta svo á að skilyrði b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé fullnægt. Beri að túlka framangreint ákvæði rúmt í aðstæðum sem þessum, sbr. þau sjónarmið sem búi að baki ákvæðinu og lögskýringargögn með ákvæðinu. Komi til þess að kærunefnd staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar geri kærandi kröfu um að hún fái áfram heimild til að dvelja og starfa hérlendis, sbr. 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga, á meðan hún sæki um dvalarleyfi á nýjum grundvelli og sú umsókn sé til meðferðar. Vísar hún til þess að líf hennar og öryggi sé hérlendis en hér hafi hún sína atvinnu, heimili og sitt nánasta fólk. Væri því ósanngjarnt að gera henni að flytjast fyrirvaralaust af landi brott. Fallist kærunefnd ekki á framangreint geri kærandi kröfu um að henni verði veittur sanngjarn frestur til að sækja um dvalarleyfi á nýjum grundvelli.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga segir m.a. að útlendingur sem hefur haft dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu geti, ef sérstaklega stendur á og ríkar sanngirnisástæður mæla með því, fengið dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 78. gr. sé skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. fullnægt og að hann fullnægi einum af stafliðum ákvæðisins. Í b-lið er mælt fyrir um veitingu dvalarleyfis þegar hjúskap eða sambúð hefur verið slitið vegna þess að útlendingur eða barn hans hefur sætt misnotkun eða öðru ofbeldi af hálfu maka og það hefur verið tilkynnt lögreglu eða barnaverndaryfirvöldum eða önnur gögn benda til þess. Beri að líta til tengsla útlendings við landið og í undantekningartilvikum sé heimilt að víkja frá ákvæðum 1. og 2. mgr. 55. gr. við útgáfu dvalarleyfis ef framfærsla er ótrygg um skamma hríð.

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að samkvæmt orðalagi b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé það ótvírætt skilyrði að hjúskap eða sambúð hafi verið slitið til að ákvæðið eigi við og að hvorki umrætt ákvæði né önnur ákvæði laganna mæli fyrir um undantekningar þar að lútandi.

Í athugasemdum við 9. mgr. 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a.:

Í öðru lagi er heimilt að veita dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu ef fjölskyldumeðlimur, þ.e. maki, hefur beitt umsækjanda eða barn hans ofbeldi eða misnotkun í hjúskap eða sambúð. Það sjónarmið, sem býr að baki þessu ákvæði, er að ekki skuli skapa aðstæður þar sem útlendingur telur sig knúinn til að vera áfram í hjúskap eða sambúð svo að hann haldi dvalarleyfi sínu ef viðkomandi einstaklingur eða börn hans sæta misnotkun eða ofbeldi af hálfu maka.

Af orðalagi ákvæðis b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga og framangreindum lögskýringargögnum er ljóst að meginmarkmið ákvæðisins er það að útlendingur sem hefur dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar finni sig ekki tilneyddan til þess að halda áfram í ofbeldisfullu sambandi til þess eins að halda dvalarleyfi sínu.

Í úrskurðarframkvæmd hefur kærunefnd vísað til þess að það leiði af eðli dvalarleyfa á grundvelli hjúskapar og athugasemdum við 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga að samvistarslit geti ekki talist sérstakar tímabundnar ástæður sem heimili að vikið sé frá því skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis að hjón hafi fasta búsetu á sama stað. Sé um samvistarslit að ræða er Útlendingastofnun því heimilt að afturkalla dvalarleyfi útlendings skv. 59. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi tilgangs og markmiðs b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga um að útlendingur finni sig ekki knúinn til að vera í ofbeldissambandi til þess að halda dvalarleyfi sínu, sem og þeirri úrskurðarframkvæmd kærunefndar að heimilt sé að afturkalla dvalarleyfi útlendings á grundvelli hjúskapar, sé um samvistarslit að ræða, er það mat kærunefndar að túlka beri síðastnefnd ákvæði rúmt þannig að ekki sé fortakslaust skilyrði að útlendingur og maki hafi formlega fengið lögskilnað til þess að hjúskap teljist vera slitið í skilningi ákvæðisins. Að mati kærunefndar myndi slík fortakslaus túlkun ákvæðisins ganga þvert gegn markmiði þess, enda myndi það leiða til þess að útlendingur glataði dvalarleyfi sínu þrátt fyrir að aðstæður væru þær sem vísað er til í b. lið 9. mgr. 70. gr. vegna óviðráðanlegra tafa við að fá fram lögskilnað. Við slíkar aðstæður myndi útlendingur því hvorki uppfylla skilyrði til áframhaldandi dvalar á grundvelli hjúskapar samkvæmt 7. mgr. 70. gr. né skilyrði b-liðar 9. mgr. sama lagaákvæðis og væri síðastnefnt ákvæði við slíkar aðstæður því í raun óvirkt og myndi ekki veita þolendum ofbeldis eða misnotkunar þá vernd sem því sé ætlað.

Með hliðsjón af framangreindu kemur skilyrði b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga um að hjúskap hafi verið slitið því ekki í veg fyrir að kæranda sé veitt dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.  

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Áslaug Magnúsdóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta