Stuðlað að eflingu samráðs við fatlað fólk við stefnumótun og áætlanagerð
Þjónustusvæðum fatlaðs fólks bjóðast nú styrkir til að koma á fót sérstökun notendaráðum fyrir fatlað fólk sem verði ráðgefandi um stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks á viðkomandi svæði.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur í samráði við Samband Íslenskra sveitarfélaga staðið fyrir því að styðja við bakið á þjónustusvæðum fatlaðs fólks í því skyni að gera fötluðu fólki betur kleift að hafa áhrif á og taka þátt í skipulagi og framkvæmd þjónustunnar sem og öðrum hagsmunamálum á því svæði þar sem það býr.
Verkefnið er unnið í samræmi við framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks um áhrif og þátttöku notenda. Gert er ráð fyrir að á þjónustusvæðum fatlaðs fólks, sem eru 15 talsins, verði notendaráðum komið á fót. Notendaráðin verði ráðgefandi um stefnumótun í málaflokknum á svæðinu.
Árið 2015 reyndust tvö þjónustusvæði hafa komið notendaráði á laggirnar og var þeim veittur styrkur, samtals að upphæð 1,2 m.kr. sem ætlað er að standa straum af kostnaði við aðstoðarmenn notenda í ráðunum.
Í nóvember var sent bréf til allra þjónustusvæða fatlaðs fólks þar sem þeim var boðinn samsvarandi styrkur auk þess sem það kemur til greina að styrkja þátttöku áheyrnarfulltrúa notenda í málaflokki fatlaðs fólks, meðal annars til að sitja fundi félagsmála-/velferðarráðs þegar málefni fatlaðs fólks eru til umfjöllunar. Í þeirri viðleitni að styðja þjónustusvæðin enn frekar við verkefnið var kynnt að þau þjónustusvæði sem þegar hafi reynslu af starfi notendaráða séu reiðubúin til að deila þekkingu sinni og reynslu áfram.
Með þessu er vonast til að sá stuðningur, sem boðið er upp á, verði fleiri þjónustusvæðum hvatning til að efla samráð, samstarf og þátttöku í þjónustu við fatlað fólk.