Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 18/2010

Fimmtudaginn 13. janúar 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 18/2010:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 23. nóvember 2010, skaut A, til úrskurðarnefndar synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 26. október 2010 um styrk að fjárhæð 40.000 kr. vegna stuðningsvinnu.

Kærandi sótti um sérstaka aðstoð til greiðslu fyrir stuðningsvinnu, þ.e. til þess að sækja meðvirkninámskeið, að fjárhæð 40.000 kr., þann 25. ágúst 2010. Henni var synjað með bréfi B, dags. 30. ágúst 2010, þar sem umsóknin var ekki talin samræmast reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi kærði þá ákvörðun til velferðarráðs Reykjavíkurborgar með bréfi, dags. 21. september 2010, en velferðarráð synjaði beiðninni þann 26. október 2010.

  

I. Málavextir.

Kærandi glímir við ýmsan vanda, bæði geðræna erfiðleika og afleiðingar erfiðrar bernsku og áfalla í æsku, en í gögnum málsins kemur fram að hún er alin upp við mikla drykkju og veikindi. Kærandi á barn sem fætt er árið 2000. Hún hefur notið margs konar félagslegrar aðstoðar, meðal annars notið sérfræðiviðtala, fengið „Stuðninginn heim“, haft til afnota félagslegt húsnæði, tekið þátt í Kvennasmiðju og fengið listmeðferð fyrir barn sitt. Fram kemur að kærandi hafi einnig nýtt sér stuðning AA-samtakanna, Stígamóta, mætt á Coda-fundi, verið á Hvítabandinu og í Kvennasmiðju og sótt viðtöl hjá félagsráðgjafa. Á árunum 2005 til 2008 samþykkti þjónustumiðstöð að greiða 20 tíma í sérfræðiviðtöl fyrir kæranda og árið 2009 hafi einnig verið samþykkt að greiða fyrir hana 10 viðtöl til viðbótar. Kærandi er nú í viðtölum hjá B og varðar mál það sem hér er til meðferðar umsókn kæranda um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu að fjárhæð 40.000 kr. til að sækja meðvirkninámskeið hjá nefndum B. Kærandi lauk Kvennasmiðju í júní 2010 og er nú í kennsluréttindanámi í Listaháskólanum. Eftir að kærandi lauk Kvennasmiðjunni hefur ekki verið virk vinnsla í máli hennar hjá þjónustumiðstöð.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi kveðst vera á námslánum og fái 175.000 kr. á mánuði. Hún þurfi að gæta vel að hverri krónu til að ná endum saman og hafi hún ekki efni á að borga neitt umfram allra helstu nauðsynjar. Hún hafi því ekki efni á námskeiði í meðvirkni, jafnvel þótt hún viti að það muni hjálpa henni og veita henni þann stuðning sem hún þarfnist núna. Kærandi kveðst vera dugleg, heiðarleg og samviskusöm og sé hún að gera sitt besta í að halda heimili og ala upp 10 ára gamla dóttur. Hún þarfnist nú hjálpar og stuðnings til þess að huga að sjálfri sér og þætti henni vænt um ef henni yrði veittur umræddur styrkur.

  

III. Sjónarmið velferðarráðs.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar vísar til reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem tóku gildi 1. janúar 2004.

Af hálfu Velferðarsviðsins kemur fram að samkvæmt 29. gr. tilvitnaðra reglna sé heimilt að veita sérstakra aðstoð í málum þar sem verið sé að veita markvissan stuðning. Ákvæðið sé heimildarákvæði sem nota beri í undantekningartilfellum. Þau viðmið hafi mótast varðandi 29. gr. reglnanna að aðstoð skuli veita þegar verið sé að vinna markvissa stuðningsvinnu með einstaklingi. Í þeim tilfellum beri að líta til þeirrar vinnu sem verið hafi í málum umsækjanda undanfarin ár og sé tilgangur aðstoðarinnar að koma fólki úr bráðum vanda og koma í veg fyrir að sá árangur, sem náðst hafi í vinnu með málefni umsækjanda glatist.

Kærandi hafi notið margháttaðrar aðstoðar í gegnum tíðina hjá þjónustumiðstöð. Hún hafi lokið þátttöku í Kvennasmiðju í júní 2010. Frá þeim tíma hafi ekki verið virk vinnsla á máli kæranda hjá þjónustumiðstöð. Ekki verði því séð að nú sé verið að vinna markvissa stuðningsvinnu í máli kæranda. Auk þess verði að telja að meðvirkninámskeið falli ekki undir tilgang aðstoðar skv. 29. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Velferðarráð Reykjavíkurborgar hafi af þessum ástæðum ekki talið unnt að veita sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu og hafi því staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um styrk að fjárhæð 40.000 kr.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda styrk að fjárhæð 40.000 kr. til greiðslu fyrir meðvirkninámskeið hjá B.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í málinu hefur verið byggt á því að einungis megi veita sérstaka aðstoð skv. 29. gr. reglna Reykjavíkurborgar í málum þeirra einstaklinga þar sem verið sé að veita markvissan stuðning. Hefur í málinu verið vísað til þess að þau viðmið hafi mótast við beitingu 29. gr. að aðstoð skuli veitt þegar verið sé að vinna markvissa stuðningsvinnu með einstaklingi. Rökin fyrir því séu þau að tilgangur aðstoðarinnar sé að koma fólki úr bráðum vanda og að koma í veg fyrir að áunninn árangur glatist.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að þótt slíkt námskeið kunni að gagnast einstaklingi sem er í markvissu ferli skv. 29. gr. reglnanna er fallist á niðurstöður velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, til samræmis við þau sjónarmið sem áður hafa verið rakin um sjálfsstjórn sveitarfélaga, enda sé samræmis og jafnræðis gætt við afgreiðslu sambærilegra mála. Með þessum athugasemdum er hin kærða ákvörðun staðfest, enda verður ekki talið að málefni kæranda hafi talist vera í markvissu ferli þegar kærandi sótti um styrkinn samkvæmt framansögðu.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

 Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkur frá 26. október 2010, í máli A, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta