Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 21/2010

Þriðjudaginn 22. febrúar 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 21/2010:

A

gegn

félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 20. desember 2010, skaut A en með aðsetur að B, til úrskurðarnefndar synjun félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar frá 7. desember 2010 um greiðslu fjárhagsaðstoðar að fjárhæð 405.000 kr. til að greiða fyrir þátttöku í C í þrjá mánuði. Kærandi óskar að ákvörðun þessi verði endurskoðuð.

  

I. Málavextir

Kærandi er einhleypur og ókvæntur 29 ára gamall maður. Hann fór í áfengis- og vímuefnameðferð í mars og apríl 2010. Hann er skráður með lögheimili að D, en býr sem stendur í B og tók þátt í atvinnutengdri endurhæfingu hjá C, sem sinnir slíkri endurhæfingu, mánuðina frá 1. september til og með 19. nóvember 2010. Hann fékk styrk hjá félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar fyrir þennan tíma að fjárhæð 100.000 kr. á mánuði, samtals 300.000 kr. Jafnframt gerði Vinnumálastofnun samning við kæranda um starfstengda endurhæfingu í 13 vikur og fékk hann því á þessum tíma greiddar atvinnuleysisbætur fram til 19. nóvember 2010. Eftir þetta fór kærandi á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins, en skilyrði fyrir slíku er að kærandi sé í endurhæfingu.

Í bréfi C, dags. 20. desember 2010, er staðfest að kærandi hafi hafið þátttöku í C atvinnutengdri endurhæfingu þann 1. september 2010 og hafi frá þeim tíma tekið þátt í starfi samkvæmt stundaskrá, mætt vel og stundvíslega og verið áhugasamur.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi sótti þann 30. nóvember 2010 um styrk til Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar annars vegar um áframhaldandi veru í C atvinnutengdri endurhæfingu að fjárhæð 405.000 kr. og hins vegar styrk til að greiða fyrir skólagjöld vorannar og fyrir bókakostnaði en hann hafi hugsað sér að taka hlutanám sem lið í endurhæfingunni ef hann fengi skólavist í E þar sem hann hyggist leggja stund á vélstjórnarnám í framtíðinni. Umsóknunum hafi verið synjað. Hann hafi verið með greiðslur frá Vinnumálastofnun eftir að hann byrjaði í C þar sem hann hafi fengið atvinnuendurhæfingarsamning í 13 vikur. Hann hafi nú sótt um endurhæfingarlífeyri og fengið frá 19. nóvember 2010. Kærandi kveðst sjá fram á að ef hann geti ekki haldið áfram í endurhæfingunni þurfi hann að sækja um framfærslu hjá sveitarfélaginu, því ef hann hætti í C þá missi hann endurhæfingarlífeyrinn og eigi ekki kost á áframhaldandi endurhæfingu sem hann þurfi. Hann kveðst því eingöngu kæra synjun á greiðslu dvalargjaldsins í C.

 

III. Málsástæður félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar

Í greinargerð félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi fengið styrk hjá félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar fyrir þennan tíma að fjárhæð 100.000 kr. á mánuði. Jafnframt gerði Vinnumálastofnun samning við kæranda um starfstengda endurhæfingu í 13 vikur og hann fékk á þessum tíma greiddar atvinnuleysisbætur fram til 19. nóvember 2010. Auk þess hafi kærandi skráð lögheimili að D, en fleiri einstaklingar haldi þar lögheimili, utan kæranda, sem eru honum venslalausir. Þá hafi komið fram í bréfi ráðgjafa C að kærandi búi einn í leiguíbúð að X, auk þess sem hann hafi upplýst í umsókn sinni, dags. 2. desember 2010, að hann stefndi á áframhaldandi búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim sökum hafi hann getað nýtt sér þá þjónustu sem boðið er upp á í lögheimilissveitarfélagi hans, Ísafjarðarbæ.

Fram kemur af hálfu félagsmálanefndar að í 22. gr. reglna Ísafjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð sé kveðið á um styrk eftir áfengis- og/eða vímuefnameðferð í allt að 12 vikur eða lengur ef forsendur þykja til þess. Af hálfu félagsmálanefndar kemur fram að nefndin álíti að kærandi geti sótt áframhaldandi endurhæfingu innan sveitarfélagsins en nefndin kjósi að styðja íbúa sveitarfélagsins til atvinnutengdrar endurhæfingar í sínu nærumhverfi þegar þess sé kostur. Á Ísafirði sé starfrækt Starfsendurhæfing Vestfjarða og veiti þátttaka í starfsendurhæfingunni rétt til endurhæfingarlífeyris. Starfsendurhæfing Vestfjarða eigi í samstarfi við menntastofnanir sveitarfélagsins. Kærandi hafi sérstaklega verið inntur eftir því hvort lögheimili hans væri rétt skráð og taldi hann svo vera. Í lögheimilissveitarfélagi hans sé boðið upp á ýmsa þjónustu. Á Ísafirði sé starfrækt Starfsendurhæfing Vestfjarða og veitir þátttaka í starfsendurhæfingunni rétt til endurhæfingarlífeyris, auk þess sem hún sé í samstarfi við menntastofnanir sveitarfélagsins. Þar sé einnig starfandi ráðgjafi frá starfsendurhæfingarsjóðnum VIRK sem veitir einstaklingum ráðgjöf sem miði að því að undurbúa þá fyrir endurkomu á vinnumarkað, auk þess sem þar er starfsemi á vegum AA samtakanna. Kærandi hafi lýst því yfir að hann stefni á að leggja stund á vélstjóranám, en það sé einnig kennt við Menntaskólann á Ísafirði.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Ísafjarðarbæ.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar beri að greiða kæranda fjárhagsaðstoð að fjárhæð 405.000 kr. til að greiða fyrir þátttöku hans í C.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Ísafjarðarbær hefur sett sér reglur um fjárhagsaðstoð frá 4. október 2007. Samkvæmt 4. gr. reglnanna á að leggja fram umsókn um fjárhagsaðstoð í lögheimilissveitarfélagi. Lögheimili teljist sá staður þar sem umsækjandi hefur fasta búsetu, en föst búseta er þar sem maður hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990.

Kærandi býr í Reykjavík, en hefur haldið lögheimili á Ísafirði. Hann hefur sótt þjónustu í Reykjavík. Umsóknir hans eru enn fremur vegna þjónustu sem veitt er í Reykjavík, en af hálfu kærða hefur því verið haldið fram að kærandi gæti nýtt sér sambærileg úrræði sem honum bjóðast í lögheimilissveitarfélagi hans.

Í skjölum málsins kemur einnig fram að kærandi hefur mætt vel og staðið sig með prýði í því námskeiði sem hann sótti hjá C og sem hann fékk styrk til að sækja. Hefur hann nú kært þá ákvörðum félagsþjónustu Ísafjarðarbæjar að hafna beiðni hans um áframhaldandi styrkveitingu. Í 22. gr. fyrrgreindra reglna Ísafjarðarbæjar þar sem mælt er fyrir um sérstaka styrki kemur fram að heimilt sé að meta tiltekin útgjöld til framfærslukostnaðar að hluta eða öllu leyti, þar með talinn dvalarkostnað á áfangaheimili í allt að 12 vikur eftir áfengis- og/eða vímuefnameðferð, sem og í lok fangavistar. Þá kemur fram að félagsmálanefnd geti ákveðið að styðja fólk til lengri dvalar á áfangaheimili ef forsendur þykja vera til þess. Í 22. gr. kemur einnig fram að uppfylli umsækjandi ekki fyrrgreind skilyrði, en starfsmenn Skóla- og fjölskylduskrifstofu meti aðstæður hans svo að brýnt sé að veita honum og fjölskyldu hans úrlausn, sé félagsmálanefnd heimilt að veita honum tímabundna aðstoð skv. nánari skilyrðum hverju sinni.

Í málinu hefur komið fram að kærandi hefur þegar fengið styrk vegna 12 vikna námskeiðs hjá C. Hefur hann krafist greiðslu styrks vegna áframhaldandi dvalar á C. Það er hins vegar álit úrskurðarnefndar að hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð og að mat félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið málefnalegt. Er þá litið til þess að kæranda standa til boða ýmisleg úrræði í því sveitarfélagi sem hann á lögheimili. Að auki hefur ekkert komið fram um að aðstæður kæranda sé svo brýnar í skilningi fyrrgreindrar 22. gr. að rétt sé að víkja frá fyrrgreindum reglum.

Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

 Ákvörðun félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar frá 1. desember 2010, í máli A, er staðfest.

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                               Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta