Ráðherra tekur á móti rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna
Rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna, HSÞ, Dr. David Malone átti í gær fund með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra, en Malone er á Íslandi til að kynna sér starfsemi skóla HSÞ á Íslandi. Hér á landi starfa fjórir skólar undir hatti HSÞ, Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn. Markmið Háskóla SÞ er m.a. að tengja vísindamenn víðs vegar að úr heiminum og að efla rannsóknir á málefnum sem eru ofarlega á baugi hjá SÞ; umhverfismálum og sjálfbærri þróun; friði og góðum stjórnunarháttum.
Á dagskrá fundarins í gær var m.a. fyrirkomulag skólanna fjögurra hér á landi, úttekt á starfi þeirra sem gerð verður á næstu mánuðum og umræður um stefnumótun og fyrirkomulag háskóla SÞ.
Háskóli Sameinuðu þjóðanna er einn mikilvægasti samstarfsaðiliÍslands í alþjóðlegri
þróunarsamvinnu en innan skólanna hafa Íslendingar getað deilt þekkingu sinni á sviði jarðhita, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttismála. Háskóli SÞ hóf störf árið 1975 til að styrkja alþjóðlegt samstarf á milli SÞ, háskóla og annarra sem stunda vísindarannsóknir, með sérstaka áherslu á þróunarríkin. Í heimsókn sinni fær rektor tækifæri til að heimsækja þær íslensku stofnanir sem hýsa skóla HSÞ hér á landi auk þess sem hann heimsækir meðal annars Hellisheiðarvirkjun og Gunnarsholt.