Hoppa yfir valmynd
14. október 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Álit, að því er tekur til hvernig standa skuli að kjöri/vali foreldrafulltrúa í skólaráð.

Vísað er til erindis til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem lýtur m.a. að því hvernig standa skuli að kjöri/vali foreldrafulltrúa í skólaráð.


Í erindinu kemur m.a. fram að félagið hafi sett sér lög, m.a. um starfsreglur þess, þar sem kosið er í stjórn foreldrafélagsins. Er stjórninni  ætlað að skipta með sér verkum, þ.á m. taki tveir stjórnarmeðlimir að sér hlutverk fulltrúa í skólaráði. Þannig ætti að tryggja að fulltrúar foreldra í skólaráði væru í nánum samskiptum við baklandið og hafi þetta verið ákveðið á auka-aðalfundi foreldrafélagsins og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Fram kemur í sama tölvupósti sú afstaða að xx og skólayfirvöld hafi unnið gegn starfi foreldrafélaga leik- og grunnskóla í xx og virkjaðir hafi verið einstaklingar í skólaráðunum sem hafi tekið ákvarðanir án alls samráðs við baklandið og foreldrafélögin, eins og segir í umræddum pósti.  Í máli þessu liggur fyrir beiðni málshefjanda um að ráðuneytið hlutist til um að foreldrasamfélaginu verði tryggð aðkoma að umræðum og ákvarðanatöku í skólaráði. Jafnframt er þess óskað að ráðuneytið hlutist til um að tryggja foreldrasamfélaginu aðkomu að því samráði sem fram fer um útfærslur tillagna um skólaumhverfi xx, en foreldrasamfélaginu hafi verið, og sé enn, haldið frá öllum umræðum og ákvarðanatökum um framtíð skólans. Í fyrirspurn skólastjóra xx til ráðuneytisins í tengslum við þetta mál kemur fram að þar til ráðuneytið hafi látið í ljós álit sitt á því hvernig standa skuli að kjöri/vali foreldrafulltrúa í skólaráð telji skólastjóri eðlilegt að núverandi fulltrúar foreldra í skólaráði sitji skólaráðsfundi þar sem kjörtímabili þeirra sé ekki lokið. 

Í 8. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, er mælt fyrir um það að við grunnskóla skuli starfa skólaráð, sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Í greininni er nánar mælt fyrir um hlutverk skólaráðs og skipan þess, en þar skulu m.a. sitja tveir fulltrúar foreldra. Með stoð í 3. mgr. 8. gr. laga um grunnskóla hefur verið sett reglugerð nr. 1157/2008, um skólaráð í grunnskóla, til nánari útfærslu á starfsemi skólaráða m.a.  í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands og Heimili og skóla. Í 9. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, er mælt fyrir um það að við grunnskóla skuli starfa foreldrafélag. Skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Hlutverk foreldrafélags er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla.
 
Í tilefni af máli þessu vill ráðuneytið vekja athygli á því að samkvæmt áður tilvitnuðum lagaákvæðum er stofnun og starfsemi foreldafélaga nú lögbundin. Þannig er mælt fyrir um að það skuli vera starfandi foreldrafélag við grunnskóla, sem hefur það lögbundna hlutverk að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Eins og fram kemur í umfjöllun um 9. gr. laganna í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 91/2008, þá þótti rétt að lögbinda foreldrafélög við alla grunnskóla, m.a. til þess að vera bakhjarl fulltrúa foreldra í skólaráði og einnig til að leggja áherslu á mikilvægi samstarfs heimilis og skóla og að foreldrar styðji við skólastarfið. Af umfjöllun í athugasemdum við 9. gr. laganna má vera ljóst að löggjafinn ætlaðist til þess að fulltrúar foreldra í skólaráði hefðu traust bakland í foreldrafélaginu. Eins og mælt er fyrir um í 8. gr. laganna skal skólaráð m.a. vera skipað tveimur fulltrúum foreldra og þegar 8. og 9. gr. eru skoðaðar í samhengi að þessu leyti verður ekki litið öðruvísi á en svo að þeim fulltrúum sé ætlað að koma fram fyrir hönd foreldra í skólaráði og eiga þannig aðkomu að lögbundnum verkefnum þess, í samráði og samvinnu við foreldrafélag skólans. Því skal tekið undir þau sjónarmið stjórnar foreldrafélags xx að mikilvægt sé að sátt og gagnkvæmt traust ríki milli foreldrafélags og fulltrúa foreldra í skólaráði.

Í 2. mgr. 9. gr. laga um grunnskóla er mælt fyrir um að foreldrafélag hvers skóla setji sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð. Í c) lið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um skólaráð í grunnskólum er mælt fyrir um það að tveir fulltrúar foreldra skuli kosnir samkvæmt starfsreglum foreldrafélags, sbr. 9. gr. laga um grunnskóla. Að mati ráðuneytisins verða framangreind laga- og reglugerðarákvæði, er lúta að kosningu fulltrúa foreldra í skólaráð, ekki túlkuð öðruvísi en svo að þar sé gerð krafa um að þeir fulltrúar skulu valdir með kosningu, en ekki tilnefningu stjórnar foreldrafélags. Samkvæmt lögum um grunnskóla skal kjósa fulltrúa í skólaráð til tveggja ára í senn og því hafa foreldafélög ekki heimild til að víkja frá því ákvæði. Kosnir skólaráðsfulltrúar missa einungis kjörgengi sitt ef þeir eiga ekki lengur börn í viðkomandi skóla. 

Hvað varðar ósk stjórnar foreldrafélags xx, þess efnis að ráðuneytið hlutist til um að tryggja foreldrasamfélaginu aðkomu að því samráði sem fram fer um útfærslur tillagna um skólaumhverfi xx, þá hefur ráðuneytið ekki valdheimildir að lögum til slíkrar íhlutunar, né heldur til að víkja kjörnum fulltrúum foreldra í skólaráði úr ráðinu áður en kjörtímabil þeirra rennur út. Hins vegar kann innanríkisráðuneytið, sem ráðuneyti sveitarstjórnarmála, að taka mál þetta til frekari skoðunar, berist innanríkisráðuneytinu erindi þess efnis

14.10.2014

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta