Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 37/2010

Miðvikudaginn 24. nóvember 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 30. september 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett sama dag. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 27. september 2010, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Með bréfi, dags. 6. október 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 22. október 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 27. október 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að henni hafi verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi á grundvelli þess að hún eigi engin áunnin réttindi á Íslandi. Kærandi telur að hún eigi rétt á fæðingarstyrk þar sem hún telur að krafan um tólf mánaða búsetu á Íslandi fyrir fæðingu barns sé brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 22. september 2010, sótt um fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar í sex mánuði vegna fæðingar barns þann Y. mars 2010. Með umsókn kæranda hafi fylgt fæðingarvottorð frá B-landi, dags. 4. mars 2010. Enn fremur hafi legið fyrir útprentanir úr Þjóðskrá Íslands.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að með bréfi, dags. 27. september 2010, hafi umsókn kæranda um fæðingarstyrk verið synjað á þeim grundvelli að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði um lögheimili á Íslandi og að ekki hefði verið sýnt fram á að undanþága 4. mgr. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 15. gr. laga nr. 74/2008, hafi átt við.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að í 18. gr. ffl. sé kveðið á um fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar. Í 2. málsl. 3. mgr. sé sett það skilyrði fyrir fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar að foreldri skuli eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir þann tíma.

Þá vísar Fæðingarorlofssjóður til þess að í 4. mgr. 18. gr. ffl., sbr. 15. gr. laga nr. 74/2008, sé að finna undanþágu frá framangreindu tólf mánaða lögheimilisskilyrði en þar komi fram að hafi foreldri haft lögheimili hér á landi a.m.k. síðasta mánuðinn fyrir fæðingardag barns skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til búsetutímabila foreldris í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu þegar metið sé hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði skv. 3. mgr. enda hafi foreldri verið tryggt á sama tíma í því ríki og ekki hafi liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili samkvæmt lögum þess ríkis lauk. Foreldri skuli láta tilskilin vottorð um búsetutímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skv. 23. gr. ffl.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að barn kæranda hafi fæðst Y. mars 2010 og þá hafi kærandi verið með lögheimili í B-landi eins og fram komi á fæðingarvottorði, dags. Y. mars 2010. Kærandi sé fyrst skráð til Íslands þann 5. júní 2010 eða rúmum þremur mánuðum eftir fæðingu barnsins samkvæmt vottorði frá Þjóðskrá Íslands. Þegar af þeim völdum uppfylli kærandi ekki tólf mánaða lögheimilisskilyrði 2. málsl. 3. mgr. 18. gr. ffl. Kærandi uppfylli heldur ekki undanþáguákvæði 4. mgr. 18. gr. ffl. þar sem hún hafi ekki verið með lögheimili á Íslandi við fæðingu barnsins en að auki sé B-land ekki aðildarríki að þeim samningum sem taldir séu upp í ákvæðinu.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kærandi hafi verið réttilega synjað um fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar skv. 18. gr. ffl.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem foreldris utan vinnumarkaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. ffl., sbr. a-lið 8. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar.

Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. ffl., sbr. b-lið 8. gr. laga nr. 90/2004 og b-lið 15. gr. laga nr. 74/2008, skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir þann tíma. Í 4. mgr. 18. gr. ffl., sbr. b-lið 15. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu, þar sem segir að hafi foreldri haft lögheimili hér á landi a.m.k. síðasta mánuðinn fyrir fæðingardag barns skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til búsetutímabila foreldris í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu þegar metið er hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði skv. 3. mgr. að nánari skilyrðum uppfylltum. Foreldri skuli láta tilskilin vottorð um búsetutímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skv. 23. gr. laganna.

Kærandi ól barn Y. mars 2010 í B-landi samkvæmt upplýsingum úr fæðingarvottorði, dags. Y. mars 2010, frá yfirvöldum í því landi. Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé búsett í B-landi. Samkvæmt útprentun frá Þjóðskrá Íslands, dags. 20. júlí 2010, og upplýsingum frá stofnuninni, kom kærandi til Íslands 5. júní 2010 og hefur hún átt lögheimili á Íslandi frá þeirri dagsetningu.

Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki það skilyrði 3. mgr. 18. gr. ffl., sbr. b-lið 8. gr. laga nr. 90/2004 og b-lið 15. gr. laga nr. 74/2008, um að hafa átt lögheimili á Íslandi síðustu tólf mánuði fyrir fæðingu barns og framangreindar undanþágur frá skilyrðinu um lögheimili eiga ekki við í máli þessu.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að sú regla ffl., sem gerir lögheimili á Íslandi að skilyrði fæðingarstyrks foreldris utan vinnumarkaðar, fari gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Af þessu tilefni skal tekið fram að úrskurðarnefndin á ekki úrskurðarvald um það hvort lagareglur kunni að fara í bága við einstök ákvæði stjórnarskrárinnar og er því ekki bær til umfjöllunar um málsástæður sem á slíku eru byggðar. Samkvæmt stjórnskipunarvenju er það regla íslensks réttar að dómstólar eigi úrlausn þess hvort lög teljist samþýðanleg ákvæðum stjórnarskrárinnar. Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála er stjórnvald og hefur samkvæmt því ekki hliðstætt hlutverk hvorki samkvæmt réttarframkvæmd né á öðrum grundvelli. Er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessa málsástæðu kæranda. Tekið skal fram að kærandi hefur ekki borið því við að ekki hafi verið gætt samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti í málum af þeim toga sem hér um ræðir, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. september 2010, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta