Hoppa yfir valmynd
1. desember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2010

Miðvikudaginn 1. desember 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 27. ágúst 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 26. ágúst 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 2. september 2010, um að synja kæranda um fæðingarstyrk sem námsmanni.

Með bréfi, dags. 27. ágúst 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 3. september 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. september 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvubréfi, dags. 28. október 2010.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi hringt í Fæðingarorlofssjóð í byrjun janúar 2010 til að fá upplýsingar um rétt sinn til fæðingarorlofs. Þá hafi hún verið komin 13 vikur á leið. Kærandi telur að sjóðurinn hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi greinir frá því að hún hafði verið að vinna í fjóra mánuði, frá l. september til 31. desember 2009, en hún hafi hugsað sér að fara í skóla eftir áramót. Hún hafi hringt til að fá að vita hvort henni væri óhætt að fara í skóla því gefið sé út að fólk þurfi að vera búið að vera í skóla eða í vinnu sex mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Hjá Fæðingarorlofssjóði hafi henni verið sagt að metið væri saman vinna og skóli til að uppfylla skilyrðið um sex mánuði, því væri henni óhætt að fara í skóla. Kærandi greinir frá því að ef hún hefði fengið annað svar strax um að ekki yrði hægt að tryggja henni rétt til fæðingarorlofsgreiðslna með þessum hætti þá hefði hún haldið áfram að vinna því ekki hefði hún ætlað að lenda í þeirri stöðu að vera með 49.702 kr. fæðingarstyrk á mánuði með barn á framfæri. Kærandi greinir frá því að hún hafi hringt tvisvar eða þrisvar á tímabilinu frá febrúar til júní í Fæðingarorlofssjóð, meðal annars þegar hún hafi verið að fylla út umsóknina. Starfsmaður Fæðingarorlofssjóðs sem hafi leiðbeint henni í gegnum umsóknina hafi ekki sett neitt út á umsóknina hjá henni og enn fremur hafi hún sent öll umbeðin gögn.

Hinn 29. júní 2010, 12 dögum fyrir settan fæðingardag, hafi kærandi fengið bréf frá Fæðingarorlofssjóði þar sem fram komi að upplýsingar um námsframvindu hennar fyrir haustönn 2009 vanti en það hafi verið fyrir þessa fjóra mánuði sem hún hafi verið að vinna á þeirri önn. Kærandi hafi í kjölfarið haft samband við Fæðingarorlofssjóð en þar hafi henni verið tjáð að hún ætti einungis rétt til fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar. Kærandi hefði á hinn bóginn talið að hún ætti tilkall til fæðingarstyrks sem námsmaður sem sé 113.000 kr. á mánuði. Kærandi kveðst vera afar ósátt við að henni hafi ekki verið leiðbeint og að Fæðingarorlofssjóður komist upp með að veita rangar upplýsingar með þessum afleiðingum.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 14. júní 2010, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í þrjá mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 10. júlí 2010. Með umsókn kæranda hafi fylgt staðfesting á skólavist frá B-framhaldsskólanum, dags. 8. júní 2010, og vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 14. apríl 2010. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá og staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 29. júní 2010, til kæranda hafi athygli hennar verið vakin á því að staðfestingu um námsframvindu hennar síðustu tólf mánuði fyrir fæðingardag barnsins vantaði. Upplýsingar um námsframvindu haustannar 2009 hafi vantað.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að kærandi hafi hringt þann 22. júlí 2010 og í því símtali hafi komið fram að hún hafi verið að vinna á haustönn 2009 og því nái hún ekki sex mánuðum í fullu námi á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns. Hinn 23. júlí hafi kærandi hringt aftur og þá hafi verið útskýrt fyrir henni hvaða undanþágur væru frá almennu reglunni um fullt nám í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Fæðingarorlofssjóður greinir jafnframt frá því að nokkrir tölvupóstar hafi borist frá móður kæranda á tímabilinu frá 26. júlí til 11. ágúst 2010. Fyrsta tölvupóstinum hafi verið svarað með símtali við móður kæranda þann 27. júlí. Í því símtali hafi almenna reglan um fullt nám í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns verið útskýrð og mögulegar undanþágur frá þeirri reglu kynntar. Öðrum tölvupóstum frá móður kæranda hafi verið svarað með tölvupóstum á tímabilinu frá 28. júlí til 11. ágúst 2010. Í þeim tölvupóstum hafi einnig verið bent á einstaka undanþáguheimildir, þær útskýrðar og lagt mat á út frá upplýsingum móður kæranda hvort líklegt væri að þær gætu hjálpað kæranda við að uppfylla skilyrði til að eiga rétt á greiðslu fæðingarstyrks námsmanna. Ávallt hafi þó verið bent á mikilvægi þess að Fæðingarorlofssjóður fengi viðeigandi gögn frá kæranda við endanlegt mat á rétti hennar. Kæranda var einnig sent bréf, dags. 4. ágúst 2010, þar sem fram kemur hvað teljist vera fullt nám samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.) en jafnframt var undanþáguheimild 11. mgr. 19. gr. laganna útskýrð.

Þann 13. ágúst 2010 hafi borist umsókn frá kæranda, dags. 12. ágúst 2010, um fæðingarstyrk til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi. Hafi kærandi verið afgreidd í samræmi við þá umsókn, sbr. greiðsluáætlun til hennar, dags. 16. ágúst 2010.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. september 2010, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi. Í bréfinu hafi verið tiltekið að ekki hefðu borist gögn frá kæranda sem staðfestu að hún uppfyllti skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna.

Fæðingarorlofssjóður vísar til 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, þar sem fram kemur að foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Fæðingarorlofssjóður vísar einnig til þess að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að fæðingardagur barns kæranda sé 22. júlí 2010 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 22. júlí 2009 fram að fæðingardegi barnsins.

Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að samkvæmt staðfestingu á skólavist frá B-framhaldsskólanum, dags. 8. júní 2010, komi fram að kærandi hafi lokið 16 einingum á vorönn 2010. Jafnframt að í símtali við kæranda þann 22. júlí 2010 hafi komið fram að á haustönn 2009 hafi hún verið í vinnu en ekki skóla og því uppfylli hún ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Þegar um sé að ræða nám við framhaldsskóla teljist 18 einingar á önn vera 100% nám og því teljist 13–18 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda líti Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið samfellt í fullu námi í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í ffl. og reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sé að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám. Í 11. mgr. 19. gr. ffl. sé að finna undanþágu til að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að nám hófst. Þá telur Fæðingarorlofssjóður að ekki verði séð að undanþágan eigi við í tilviki kæranda þar sem hún hafi ekki sýnt fram á að hafa verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í júlí og ágúst 2009, sbr. staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra sem og tölvupóst frá móður kæranda, dags. 28. júlí 2010.

Í 12. mgr. 19. gr. ffl. sé að finna undanþágu til að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði sé að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Fæðingarorlofssjóður telur að ekki verði séð að undanþágan eigi við í tilviki kæranda, sbr. staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og tölvupóst frá móður kæranda, dags. 11. ágúst 2010. Ekki verði heldur séð að nein önnur undanþága í ffl. eða reglugerðinni geti átt við hjá kæranda.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í kæru komi fram að kærandi telji að Fæðingarorlofssjóður hafi brotið leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, (ssl.), í málinu. Þá hafi kærandi sagst hafa haft samband símleiðis við Fæðingarorlofssjóð í janúarbyrjun 2010 til þess að kanna stöðu sína gagnvart fæðingarorlofinu því hún hafi verið að vinna í fjóra mánuði, þ.e. á tímabilinu frá 1. september til 31. desember, en hún hafði hugsað sér að fara í skóla eftir áramót og hafi viljað vita hvort henni væri óhætt að fara í skólann. Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að kærandi segist hafa fengið þau svör að skóli og vinnan yrðu lögð saman til þess að uppfylla skilyrðið um sex mánuði og því hafi henni verið óhætt að fara í skólann.

Þá bendir Fæðingarorlofssjóður á að í 1. mgr. 7. gr. ssl. komi fram að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Af gögnum málsins verði ekki séð að Fæðingarorlofssjóður hafi brotið leiðbeiningarskyldu sína gagnvart kæranda. Ekkert styðji þá fullyrðingu kæranda að henni hafi verið veittar þær upplýsingar sem hún lýsir í kæru.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að ekki verði annað séð en að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns né heldur að undanþáguákvæði 11. eða 12. mgr. 19. gr. ffl. eða önnur undanþáguákvæði ffl. eða reglugerðar nr. 1218/2008 geti átt við. Jafnframt telur Fæðingarorlofssjóður að ekki verði séð að stofnunin hafi brotið leiðbeiningarskyldu sína skv. 7. gr. ssl. gagnvart kæranda.

Loks greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að kærandi eigi á hinn bóginn rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og hafi nú þegar verið afgreidd með þann rétt, sbr. greiðsluáætlun til hennar, dags. 16. ágúst 2010.

 

III.

Athugasemdir kæranda.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að hún sé ósátt við að hún hafi ekki verið látin vita fyrr af afleiðingum þess ef hún færi í skóla eftir áramót en hún hafi oft hringt í Fæðingarorlofssjóð til að fá ýmsar upplýsingar.

Kærandi bendir enn fremur á að hún hafi treyst upplýsingum sem hún hafi fengið frá Fæðingarorlofssjóði og nú þegar þær reynast rangar hafi hún ekkert í höndunum um þessar upplýsingar og í því samhengi bendir hún á að henni hafi ekki dottið í hug að hún þyrfti að þurfa sanna mál sitt seinna frekar.

Kærandi greinir frá því að henni finnist ósanngjarnt að ekki sé tekið tillit til þess að hún hafi verið á vinnumarkaði í fjóra mánuði og í skóla eftir áramót. Hún sé í sömu stöðu og þeir sem séu heimavinnandi. Enn fremur greinir hún frá því að hún hafi lagt mikið á sig til að ná lágmarkseiningafjölda til að fá fæðingarorlof eins og starfsmaður Fæðingarorlofssjóðs hafi sagt henni.

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið komin sjö mánuði á leið þegar skólanum lauk. Ef hún hefði farið að vinna hefði hún væntanlega uppfyllt skilyrði um sex mánaða vinnu. Kærandi greinir loks frá því að hún sé með vottorð um óvinnufærni síðustu tvo mánuði tímabilsins vegna meðgöngukvilla. Jafnframt spyr kærandi hvort vottorðið sé tekið gilt eins og ef hún hefði fengið vottorð um að hafa átt rétt á bótum í júlí og ágúst árið 2009 sem hún hafi ekki átt rétt á. Kærandi hafi svo ekki fengið vinnu fyrr en í september.

 

IV.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni hinn 2. september 2010.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands fæddist barn kæranda hinn 22. júlí 2010. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá 22. júlí 2009 fram að fæðingu barnsins. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki í skóla á haustönn 2009 en samkvæmt vottorði frá B-framhaldsskólinn, dags. 6. júní 2010, var kærandi skráð stúdent við skólann á vorönn 2010, þ.e. tímabilið frá 4. janúar til 27. maí 2010. Í vottorðinu kemur einnig fram að kærandi hafi lokið 16 einingum þá önn en 100% nám í framhaldsskóla telst vera 18 einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er því 13–18 einingar á önn, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Telst kærandi því hafa verið í fullu námi í skilningi ffl. á vorönn 2010. Þar sem kærandi var ekki í námi á haustönn 2009 er óhjákvæmilegt að líta svo á að hún uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 11. mgr. 19. gr. ffl. er kveðið á um undanþágu þess efnis að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Í d-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, er að finna skilgreiningu á því hvað átt sé við með samfelldu starfi en þar segir að með samfelldu starfi sé átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil. Enn fremur teljist til samfellds starfs þau tilvik sem talin eru upp í a–d-lið 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi var eingöngu í samfelldu starfi í fjóra mánuði fram til þess að nám hennar hófst og fellur því ekki undir undanþáguákvæði 11. mgr. 19. gr. ffl. þar sem ákvæðið gerir kröfu um samfellt starf í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði þar til nám hefst. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar-Greiðslustofu, sem bárust nefndinni 17. nóvember 2010, átti kærandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum mánuðina þar á undan, þ.e. í júlí og ágúst 2009, sbr. b-lið 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Þá liggur ekki fyrir að aðrir stafliðir ákvæðisins eigi við.

Þá gildir undanþáguheimild 12. mgr. 19. gr. ffl. einungis ef foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði en skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki á vinnumarkaði frá því að vorönn 2010 lauk fram að fæðingu barnsins. Því fellur tilvik kæranda ekki undir undanþáguákvæði 12. mgr. 19. gr. ffl.

Kærandi heldur því fram að skort hafi á leiðbeiningar til hennar um áhrif þess að fara í nám á vorönn 2010 á rétt hennar til greiðslna í fæðingarorlofi. Úrskurðarnefndin kallaði eftir upplýsingum um samskipti kæranda og Fæðingarorlofssjóðs. Engin gögn eða upplýsingar liggja fyrir um ráðgjöf Fæðingarorlofssjóðs til kæranda um þetta atriði og af þeim sökum getur úrskurðarnefndin ekki lagt mat á hvort leiðbeiningarskylda hafi verið vanrækt í tilviki kæranda. Með vísan til alls þessa verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Afgreiðslu málsins hefur seinkað nokkuð vegna dráttar á upplýsingaöflun hjá Vinnumálastofnun-Greiðslustofu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta