Hoppa yfir valmynd
2. desember 2010 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 2. desember 2010

Mál nr. 89/2010                    Eiginnafn:     Eldon

 

Hinn 2. desember kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 89/2010 en erindið barst nefndinni 3. nóvember.

Eiginnafnið Eldon (kk.) tekur íslenskri eignarfallsendingu, Eldons, það brýtur ekki í bág við íslenskt málkerfi og ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn. Það fullnægir að öðru leyti skilyrðum laganna.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Eldon (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 90/2010                    Ættarnafn:    Tamímí

 

Hinn 2. desember kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 90/2010 en erindið barst nefndinni 9. nóvember. Óskað er eftir að breyta rithætti ættarnafnsins Tamimi í Tamímí.

Samkvæmt 7. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, gildir sú almenna regla að óheimilt er að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi. Enn fremur leiðir af 5. mgr. sömu lagagreinar að réttur manna til ættarnafna er skilyrtur og tekur aðeins til ákveðinna ættarnafna.

Frá banni 7. mgr. 8. gr. er sú undantekning, sbr. 11. gr. laga um mannanöfn, að þeir sem heita erlendu nafni en fá íslenskt ríkisfang hér á landi geta haldið fullu nafni sínu, þar á meðal því ættarnafni sem þeir bera. Frá þeim tíma gilda skilyrði laga um mannanöfn um það hverjir eiga rétt til ættarnafnsins, enda gildi ákvæði íslenskra laga um rétt viðkomandi til nafns.

Í lögum um mannanöfn eru engar beinar heimildir til að leyfa breyttan rithátt ættarnafna. Slík breyting væri leið framhjá banni skv. 7. mgr. 8. gr. laganna, og verður því ekki á slíka beiðni fallist nema fyrir henni sé bein heimild í lögum.

Í 4. mgr. 8. gr. laganna er kveðið á um að ef maður óskar þess að hann eða barn hans beri kenninafn sem dregið er af erlendu eiginnafni foreldris, þá megi með úrskurði mannanafnanefndar laga það að íslensku máli. Ákvæði þetta tekur ekki til ættarnafna. Hér ber einnig að líta til ákvæðis 20. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um rétt manna til breytingar á rithætti nafns, án þess að um eiginlega nafnbreytingu sé að ræða. Ákvæði þetta hefur verið skýrt svo að það taki ekki til breytingar á rithætti ættarnafna og haggi ekki hinu fortakslausa bannákvæði 7. mgr. 8. gr., sbr. úrskurð nefndarinnar frá 13. júlí sl. í máli nr. 54/2010.

Aðrar lagareglur koma ekki til álita sem heimild fyrir breytingu á rithætti ættarnafns. Með hliðsjón af framanröktu verður því að hafna umræddri beiðni.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um ritmyndina Tamímí af ættarnafninu Tamimi er hafnað.

 

 

 

Mál nr. 92/2010                    Eiginnafn:     Gæfa

 

Hinn 2. desember kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 92/2010 en erindið barst nefndinni 1. desember.

Eiginnafnið Gæfa (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Gæfu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Gæfa (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 93/2010                    Eiginnafn:     Emmy

 

Hinn 2. desember kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 93/2010 en erindið barst nefndinni 1. desember.

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Í máli þessu reynir á skilyrði nr. þrjú hér að ofan þar sem einhljóðið y er ekki ritað í enda orðs í íslensku.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Emmy (kvk.) er hafnað. Vegna þessa máls hefur mannanafnanefnd ákveðið að úrskurða nafnmyndina Emmý (kvk.) á mannanafnaskrá sem eiginnafn.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta