Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 1. febrúar 2011

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Ásta Sigrún Helgadóttir, tiln. af félags- og tryggingamálaráðherra, Eiríkur Jónsson, tiln. af KÍ, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Gyða Hjartardóttir, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson, tiln. af RKÍ, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln af menntamálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Þórhildur Þorleifsdóttir, tiln. af félags- og tryggingamálaráðherra, Þorbjörn Guðmundsson og Ingibjörg Broddadóttir.

1. Kynning á embætti Umboðsmanns skuldara
Ásta Sigrún Helgadóttir fólk velkomið og Svanborg Sigmarsdóttir, sviðsstjóri kynningarmála, kynnti starfsemi stofnunarinnar.* Stofnunin er flutt í nýtt húsnæði og eru starfsmenn 70 talsins. Hjá embættinu eru 1.560 mál í vinnslu og hafa starfsmenn sett sér það markmið að ljúka 300 málum í febrúar.

2. Fundargerðir
Fundargerðir 42. og 43. voru samþykktar.

3. Áhrif kreppunnar á velferð kvenna
Eva Bjarnadóttir og Eygló Árnadóttir kynntu niðurstöðu samantektar á tölulegum upplýsingum um stöðu kvenna í ljósi kreppunnar. Samantektin var unnin að beiðni Jafnréttisráðs og velferðarvaktarinnar. Fram kom meðal annars að hámark á fæðingarorlofsgreiðslur bitnar mun fremur á körlum eða á 45,7% feðra en 19% mæðra og greiðslum til feðra hefur frá 2008 fækkað um 8,9%, en fjölgað um 4,5% til mæðra. Varðandi skuldir heimilanna eru karlar oftar í vanskilum, en konur eru í meirihluta þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman. Þá snertir opinber niðurskurður verulega atvinnustöðu kvenna, sem eru meirihluti ríkisstarfsmanna, sérstaklega í umönnunarkerfinu. Launamunur kynjanna hefur minnkað í kreppunni. Rannsakendur bentu á að skortur á tölulegum kyngreindum upplýsingum hafi takmarkað umfang samantektarinnar.**

4. Staðgöngumæðrun og staða kvenna – frelsi eða höft***

Ástríður Stefánsdóttir, dósent í siðfræði og læknir, fjallaði um mörg flókin álitamál sem upp koma í tengslum við lögleiðingu á staðgöngumæðrun, þar á meðal um skilgreiningar á staðgöngumæðrun og um foreldrahugtakið um stöðu staðgöngumóðurinnar, stöðu barnsins og fjölmörg önnur álitamál. Staðgöngumæðrun sem velgjörningur hefur jákvæðar hliðar fyrir alla aðila þar sem staðgöngumóðir er gerandi og nýtur virðingar. Ýmislegt mælir þó gegn slíku, svo sem að erfitt er að greina að velgjörð og hagnað, kúgun eð þrýstingur geta verið til staðar og deilur verða oft erfiðari viðfangs ef þær eru innan fjölskyldu eða milli náinna vina. Þá var einnig bent á að það væri gengið á rétt staðgöngumóðurinnar yfir eigin líkama að ætlast til þess að hún lýsi því yfir fyrir fram að hún hyggist gefa barnið frá sér í kjölfar fæðingar.

* http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/32579
** http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/32581
*** http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/32578

Fundagerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta