Hoppa yfir valmynd
11. mars 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Yfirlýsing þjóða á norðurslóð um samstarf í heilbrigðismálum

Fulltrúar sjö þjóða á norðurslóðum hafa undirritað yfirlýsingu um samstarf á sviði heilbrigðismála; The Arctic Health Declaration. Undirritunin fór fram á fyrsta fundi heilbrigðisráðherra þjóðanna sem haldinn var í Nuuk á Grænlandi 16. febrúar.

Fundinn sátu einnig tvö alþjóðleg samtök frumbyggja; Gwich'in Council International (GCI) og Inuit Circumpolar Council (ICC).

Þjóðirnar sem standa að yfirlýsingunni eru Bandaríkin, Danmörk, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð, auk Færeyja og Grænlands. Þar er fagnað þeirri góðu samvinnu sem þegar er milli þessara þjóða á sviði heilbrigðismála og vaxandi áherslu á samstarf sem snýr að norðurslóðum. Þjóðirnar lýsa vilja sínum til að bæta velferð íbúa á norðurslóðum með virkum aðgerðum til að sporna við útbreiðslu lífsstílstengdra sjúkdóma og smitsjúkdóma og til að vinna gegn geðrænum vandamálum, misnotkun vímuefna og sjálfsvígum.

Í yfirlýsingunni er meðal annars fjallað um mikilvægi valdeflingar frumbyggja á norðurslóðum, heilsueflingu og forvarnir meðal þeirra og þörf aukinna rannsókna á heilsufari fólks á norðurslóðum, jafnt þeirra sem eiga þar náttúruleg heimkynni og annarra íbúa. Þjóðirnar lýsa vilja sínum til aukins samstarfs til að efla og bæta heilsu fólks á norðurslóð, meðal annars með því að miðla sín á milli þekkingu og reynslu af verkefnum sem hafa gefist vel og með aukinni áherslu á að hagnýta sér nýjustu tækni, þar með taldar fjarlækningar.

Bent er á að þjóðirnar sem koma að yfirlýsingunni þurfi að vera viðbúnar því að fást við frekari áhrif á heilsufar og aðrar aðstæður fólks á norðurslóðum vegna loftslagsbreytinga og efnahagslegra breytinga. Áhrif þeirra geti meðal annars varðað fæðuöryggi en einnig menningu og menningarleg gildi fólks á norðurslóðum.

Í tengslum við fund heilbrigðisráðherranna í Nuuk var efnt til ráðstefnu þjóðanna sem standa að yfirlýsingunni þar sem málefni henni tengd voru til umræðu og voru þátttakendur hátt í sjötíu. Agathe Fontain, heilbrigðisráðherra Grænlands, setti ráðstefnuna. Í ávarpi sínu fjallaði hún meðal annars um stöðu heilbrigðismála eftir að Grænlendingar tóku að verulegu leyti við málaflokknum árið 1992. Hún gerði að sérstöku umtalsefni jákvæða reynslu Grænlendinga af samningum við Íslendinga um heilbrigðisþjónustu en Grænlendingar hafa lýst áhuga á því að sækja hingað aukna þjónustu frá því sem nú er.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hafði ekki tök á að sækja fund ráðherranna en Sveinn Magnússon skrifstofustjóri var fulltrúi velferðarráðuneytisins og undirritaði yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd. Sveinn flutti einnig stutt erindi þar sem hann lýsti samstarfi Íslendinga og Grænlendinga á sviði heilbrigðismála í gegnum tíðina. Að jafnaði fer sjúkraflug milli Íslands og Grænlands tvisvar í mánuði, einkum til að sækja sjúklinga vegna bráðatilfella eða slysa sem Landspítalinn sinnir.

Síðar í þessum mánuði er fyrirhuguð heimsókn frá Dronning Ingrid Hospital í Nuuk til Landspítala í tengslum við samstarf landanna á sviði heilbrigðisþjónustu.

Frá fundi heilbrigðisráðherra norðurslóðaþjóða í febrúar 2011

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta