Hoppa yfir valmynd
11. júní 2019 Forsætisráðuneytið

791/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019

Úrskurður

Hinn 31. maí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 791/2019 í máli ÚNU 19020011.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 15. febrúar 2019, kærðu Kærleikssamtökin, f.h. A, ófullnægjandi afhendingu Kópavogsbæjar á gögnum sem vörðuðu A.

Með erindi til Kópavogsbæjar, dags. 12. september 2018, fóru Kærleikssamtökin þess á leit, f.h. A, að afhent yrðu afrit allra gagna um hann frá öllum deildum sveitarfélagsins, að undanskildum gögnum frá velferðarsviði Kópavogsbæjar sem höfðu verið afhent í júní 2018. Kom fram að það vantaði skráðar færslur um samskipti A við B deildarstjóra, C sem hefði umsjón með umsóknum um félagslegt húsnæði og mögulega fleiri starfsmenn, s.s. vegna umsóknar félagsráðgjafa A varðandi niðurgreiðslu á leigu í Víðinesi. Beðið væri um alla samskiptasögu allra starfsmanna Kópavogsbæjar við A fyrir utan áður afhent gögn.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 2018, var erindið ítrekað. Til viðbótar var óskað eftir afriti allra gagna um A hjá velferðarsviði Kópavogsbæjar sem orðið hefðu til frá því gögn um hann voru afhent í júní 2018 og fram til 5. nóvember 2018.

Með erindi, dags. 22. janúar 2019, kærðu Kærleikssamtökin, f.h. A, töf Kópavogsbæjar á afgreiðslu á gagnabeiðninni. Kæran var kynnt sveitarfélaginu með bréfi, dags. 26. janúar 2019, og frestur veittur til að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðninnar. Meðfylgjandi erindi Kópavogsbæjar til kæranda, dags. 28. janúar 2019, voru afrit þeirra gagna sem vörðuðu A og ekki var þegar búið að afhenda. Í kjölfar afhendingarinnar var málið fellt niður hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 1. febrúar 2019.

Í kæru Kærleikssamtakanna kemur fram að viss gögn sem samtökin tiltóku í erindum sínum til Kópavogsbæjar frá 12. september 2018 og 5. nóvember 2018 hefðu ekki verið meðal þeirra gagna sem Kópavogsbær hafði afhent kæranda. Væri þess farið á leit að þau gögn yrðu afhent.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 18. febrúar 2019, var kæran kynnt Kópavogsbæ og frestur veittur til að senda úrskurðarnefndinni umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess farið á leit að nefndinni yrðu afhent í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn Kópavogsbæjar, dags. 5. mars 2019, kom fram að kæranda hefði áður verið afhent afrit allra gagna sem fyrir lægju hjá velferðarsviði bæjarins. Í tilefni kærunnar voru kæranda send afrit gagnanna að nýju. Með bréfi, dags. 13. mars 2019, var umsögn Kópavogsbæjar kynnt kæranda. Með tveimur erindum frá kæranda, dags. 21. mars 2019 og 5. apríl 2019, voru tilgreind ákveðin gögn sem óskað væri eftir en ekki hefði verið að finna í þeim gögnum sem þegar höfðu verið afhent. Kópavogsbær ítrekaði í bréfi, dags. 5. apríl 2019, að búið væri að afhenda öll gögn sem fyrir lægju og vörðuðu A.

Með tölvupósti til Kópavogsbæjar, dags. 23. apríl 2019, óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvort aðeins væri búið að afhenda fyrirliggjandi gögn um A hjá velferðarsviði bæjarins, eða hvort afhendingin hefði einnig tekið til annarra sviða. Í tölvupósti frá Kópavogsbæ, dags. 24. apríl 2019, kom fram að í kjölfar erindis úrskurðarnefndarinnar væri nú búið að afhenda öll gögn allra deilda Kópavogsbæjar sem fyrir lægju og vörðuðu A. Jafnframt var tiltekið að það væri að fullu viðurkennt af hálfu bæjarins að A ætti rétt á öllum upplýsingum og gögnum sem hann vörðuðu og fyndust hjá Kópavogsbæ.

Niðurstaða

Kæra þessa máls beinist að Kópavogsbæ. Samkvæmt gögnum málsins voru kæranda afhent öll fyrirliggjandi gögn sem vörðuðu A hjá velferðarsviði bæjarins. Kærandi taldi að ekki hefðu öll gögn sem óskað hefði verið eftir verið afhent. Í framhaldi af því var athugað hjá Kópavogsbæ hvort frekari gögn lægju fyrir hjá öðrum deildum bæjarins og þau svo afhent kæranda. Kom fram að öll fyrirliggjandi gögn hjá öllum deildum Kópavogsbæjar hefðu þá verið afhent.

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu Kópavogsbæjar að öll gögn sem liggja fyrir hjá bænum og varða A hafi verið afhent. Af því leiðir að ekki liggur fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum að þessu leyti. Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Úrskurðarnefnd bendir kæranda á að það fellur ekki undir verksvið nefndarinnar að meta hvort skráningu upplýsinga hjá Kópavogsbæ kunni að vera ábótavant.

Úrskurðarorð:

Kæru Kærleikssamtakanna f.h. A, dags. 15. febrúar 2019, vegna afgreiðslu Kópavogsbæjar á beiðni samtakanna um afrit af gögnum, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta