Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Niðurstöður rannsóknar á einkennum íslensks vinnumarkaðar

Niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á stöðu fólks á íslenskum vinnumarkaði og ástæður brotthvarfs af vinnumarkaði hafa verið birtar.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Vinnueftirlitið fólu Félagsvísindastofnun að framkvæma rannsóknina og var hún gerð í nóvember 2021 og fram í maí 2022. Niðurstöðurnar sýna meðal annars að íslenskur vinnumarkaður er mjög kynjaskiptur og að konur eru tvöfalt líklegri en karlar til að fást við krefjandi einstaklinga í starfi, erfiða viðskiptavini, þjónustunotendur eða nemendur. Upplifunin var algengust á meðal fólks sem starfar við umönnun en næst á eftir fylgdi starfsfólk í kennslu og uppeldisfræði og þar á eftir sérfræðingar í heilbrigðisvísindum. Rannsóknin gefur jafnframt sterkar vísbendingar um að almennt sé hægt að draga úr brotthvarfi af vinnumarkaði með því að bæta aðstæður og samskipti á vinnustöðum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur falið Vinnueftirlitinu að vinna áfram með niðurstöðurnar og hefur undirritað samning um þriggja ára samstarfsverkefni þessu tengt. Verkefnið gengur út á að greina með hagaðilum áhættuþætti í vinnuumhverfi þeirra starfsstétta sem verst komu út í niðurstöðum rannsóknarinnar, þar á meðal áhrif vinnustaðamenningar, skipulags og samskipta sem geta orsakað að starfsfólk upplifi meira andlegt áreiti en starfsfólk innan annarra starfsstétta.

Niðurstöður framangreindrar rannsóknar Félagsvísindastofnunar munu enn fremur nýtast vel inn í þá umfangsmiklu vinnu sem nú á sér stað í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og felst í að reyna að draga úr ótímabæru brotthvarfi fólks af vinnumarkaði, fjölga þeim sem snúa aftur til starfa og fyrirbyggja ótímabæra örorku fólks. Sú vinna tengist endurskoðun örorkulífeyriskerfisins sem er stærsta áherslumál Guðmundar Inga Guðbrandssonar.

Helstu niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar

Rannsókn Félagsvísindastofnunar var annars vegar lögð fyrir almennt úrtak fólks á aldrinum 25-67 ára, sem verið hafði á vinnumarkaði undangengin fimm ár, og hins vegar fólk sem fengið hafði greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun í að minnsta kosti eitt ár. Svör einstaklinga sem metnir höfðu verið til örorku og fólks sem verið hafði án atvinnu í minna en eitt ár komu úr almenna úrtakinu.

Sem fyrr segir sýnir rannsóknin með skýrum hætti að íslenskur vinnumarkaður er mjög kynjaskiptur. Konur starfa frekar hjá hinu opinbera en meirihluti karla í einkageiranum. Konur eru síður sjálfstætt starfandi eða með eigið fyrirtæki og gegna síður stjórnunarstöðum en karlar.

Álag í starfi reyndist töluvert ólíkt eftir því hvort um konur eða karla var að ræða og hvort fólk starfaði á dæmigerðum kvenna- eða karlavinnustað. Konur voru til dæmis líklegri en karlar til að þurfa að kljást við erfiða viðskiptavini, þjónustunotendur eða nemendur í starfi. Þegar litið er til ólíkra starfahópa var þessi upplifun algengust á meðal fólks sem starfar við umönnun (55%), sérfræðinga í kennslu og uppeldisfræði (43%) og sérfræðinga í heilbrigðisvísindum (37%). Sömu hópar voru líklegri til að segjast vera í tilfinningalega erfiðum aðstæðum í vinnunni.

Tæplega 40% allra svarenda töldu að þeir hefðu alltaf eða oft of mikið að gera í vinnunni og átti það frekar við um konur en karla. Þá var meira um að konur segðust þurfa að vinna á miklum hraða. Konur og starfsfólk innan starfsstétta sem almennt er litið á sem kvennastéttir voru líklegri en karlar og starfsfólk innan starfsstétta sem almennt er litið á sem karlastéttir til að hafa einhvern tímann verið frá vinnu í tvo mánuði eða meira vegna veikinda.

Þriðjungur svarenda sagðist oft eða alltaf vera andlega úrvinda eftir vinnudaginn og 22% svarenda taldi sig líkamlega úrvinda eftir vinnudaginn. Hlutfall kvenna var hærra en hlutfall karla hvað báða þætti snertir en minni kynjamunur var meðal svarenda sem töldu sig líkamlega úrvinda eftir vinnudaginn.

Konur og starfsfólk innan starfsstétta sem almennt er litið á sem kvennastéttir lýstu verri afleiðingum af Covid-19. Mikið mæddi á kennurum, leikskólakennurum, heilbrigðisstarfsfólki og starfsfólki í umönnun á meðan faraldurinn geisaði og sýna niðurstöður að áhrifanna gætti enn eftir að samkomutakmörkunum létti.

Hunsun og afskiptaleysi: Munur eftir ríkisfangi

Tæplega fjórðungur svarenda höfðu orðið fyrir hunsun eða afskiptaleysi á vinnustað sínum en þar var nokkur munur eftir ríkisfangi. 40% erlendra ríkisborgara taldi sig hafa orðið fyrir hunsun og afskiptaleysi en 24% fólks sem verið hafði íslenskir ríkisborgarar alla ævi. Enn fremur höfðu 11% svarenda upplifað eða orðið vitni að kynbundnum fordómum og 13% höfðu orðið fyrir eða upplifað aldursfordóma. Hlutfall þeirra sem hafði orðið fyrir aldursfordómum var hæst í elsta aldurshópnum.

Konur töldu sig frekar en karlar hafa orðið fyrir orðbundinni áreitni, niðurlægingu, einelti, kynferðislegri áreitni/ofbeldi og líkamlegu ofbeldi á vinnustað.

Algengustu ástæður brotthvarfs af vinnumarkaði var samdráttur á vinnustað eða að starfsmaðurinn sagði sjálfur upp. Hjá einstaklingum sem metnir höfðu verið til örorku var það langoftast vegna heilsubrests. Mikill munur var á svörum annars vegar vinnandi fólks og hins vegar fólks í atvinnuleit og innan almannatryggingakerfisins varðandi viðhorf í garð starfs eða fyrra starfs. Fólk sem var í starfi var mun jákvæðara gagnvart vinnustaðnum, álagi og stjórnendum en fólk utan vinnumarkaðar.

Samkvæmt skýrsluhöfundum er hugsanlegt að brotthvarf af vinnumarkaði liti sýn þeirra sem eru án atvinnu og þeirra sem metnir höfðu verið til örorku á fyrrverandi starf og samstarfsfólk. Niðurstöðurnar gefa jafnframt sterkar vísbendingar um að almennt sé hægt að draga úr brotthvarfi með því að bæta aðstæður og samskipti starfsfólks á vinnustöðum.

Um rannsóknina

Samstarfshópur vann að undirbúningi rannsóknarinnar en í honum í áttu sæti auk ráðuneytisins og Vinnueftirlitsins fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, BSRB, BHM, Kennarasambandi Íslands, Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Framkvæmd rannsóknarinnar var frestað vegna Covid-19 en fór sem fyrr segir fram í nóvember 2021 til maí 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta