Aðgerðir í menntamálum: starfsnám kennaranema
„Við höfum fengið virkilega jákvæð viðbrögð við aðgerðunum sem miða að fjölgun kennara, frá skólasamfélaginu, sveitarfélögunum, kennaraforystunni og foreldrum. Aðgerðirnar voru unnar í góðu samráði og samvinna okkar er farin að skila góðum árangri að mínu mati. Það er okkur kappsmál að stuðla að öflugu skólastarfi og styrku menntakerfi – þar leika kennarar aðalhlutverkið,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Í starfsnámi kennaranema starfa þeir við hlið reyndra kennara yfir heilt skólaár. Starfsnámið er fjölbreytt, kennaranemar sinna daglegum störfum í skólunum og kynna sér fjölbreyttar kennsluaðferðir og starfshætti á þeim námssviðum eða námsgreinum sem þeir hyggjast sérhæfa sig í. Starfsnámið er mikilvægur liður í þjálfun kennaranemanna og undirbúningi þeirra fyrir frekari störf í skólum að lokinni útskrift.
Meðal annarra aðgerða stjórnvalda sem miða að því að fjölga starfandi kennurum er námsstyrkur til nemenda á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi og styrkir til starfandi kennara til náms í starfstengdri leiðsögn. Umsóknum um kennaranám fjölgaði verulega milli ára sl. vor, alls um rúmlega 200 í háskólunum fjórum sem bjóða upp á kennaranám hér á landi.