Hoppa yfir valmynd
10. september 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 278/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 278/2020

Fimmtudaginn 10. september 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. júní 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. maí 2020, um 40% bótarétt.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 27. mars 2020. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. maí 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og bótaréttur væri metinn 40%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. júní 2020. Með bréfi, dags. 9. júní 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 1. júlí 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. júlí 2020, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafi ákvarðað henni 40% bótarétt á þeim vikum sem hún hafi ekki getað unnið sem B vegna samkomubanns. Kærandi hafi orðið atvinnulaus eingöngu vegna þess að yfirvöld hafi sagt að hún mætti ekki vinna. Starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi upplýst kæranda að ástæðan fyrir þessum 40% væri sú að hún væri eingöngu búin að vinna í tvo mánuði á Íslandi. Kærandi hafi flutt til Íslands um áramótin eftir að hafa unnið og verið í námi í C og því hafi hún verið með tekjur í D allt árið 2019. Kæranda finnist skrýtið að þær tekjur séu ekki taldar með þegar niðurstaða sé fengin þar sem íslensk skattyfirvöld noti skattskýrsluna við aðra þætti. Kærandi krefst þess að niðurstaða Vinnumálastofnunar verði endurskoðið með vísan til ástæðu atvinnuleysis og tekna í D.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Um útreikning bótaréttar þeirra sem starfa hjá eigin fyrirtækjum eða sem sjálfstætt starfandi einstaklingar gildi 19. gr. laganna. Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hafi mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hafi reiknað sér endurgjald.

Umsækjandi um atvinnuleysisbætur geti því einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef hann hafi reiknað sér endurgjald í skemmri tíma en 12 mánuði á ávinnslutímabili. Bótaréttur kæranda hafi verið byggður á framangreindri reiknireglu en kærandi hafi einungis starfað í um fimm mánuði við eigin rekstur áður en hún hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta. 

Samkvæmt skýru ákvæði 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist umsækjandi tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hafi reiknað sér endurgjald.  Bótahlutfall kæranda miðað við framlögð gögn sé því 40%.

Í kæru til úrskurðarnefndar geri kærandi kröfu um það að bótaréttur hennar taki mið af störfum hennar í D. Vinnumálastofnun hafi ekki borist beiðni frá kæranda um að taka tillit til starfstímabils kæranda í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í ljósi athugasemda kæranda í kæru til nefndarinnar bendi Vinnumálastofnun á að samkvæmt 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geti umsækjendur óskað eftir því að starfstímabil í öðru aðildarríki EES komi til ávinnslu atvinnuleysistrygginga hérlendis, enda hafi störf í því ríki veitt viðkomandi rétt samkvæmt lögum þess um atvinnuleysistryggingar. Svo að unnt sé að taka tillit til starfa umsækjenda erlendis þurfi tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru aðildarríki að fylgja með umsókn um atvinnuleysisbætur, sbr. 2. mgr. 47. gr. laganna. Kærandi þurfi að óska eftir slíku vottorði frá þeim atvinnuleysistryggingarsjóði sem hún hafi greitt til þegar hún hafi starfað í D. Frekari upplýsingar um U1 vottorð og ávinnslu úr erlendum tryggingarkerfum megi nálgast á vefsíðu Vinnumálastofnunar.

Með hliðsjón af ofangreindum sjónarmiðum sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að bótaréttur kærandi sé rétt ákvarðaður 40%.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um 40% bótarétt kæranda.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns, sbr. b-lið 3. gr. laganna.

Óumdeilt er að kærandi var sjálfstætt starfandi áður en hún sótti um atvinnuleysisbætur. Í IV. kafla laga nr. 54/2006 er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. telst sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Í 2. mgr. 19. gr. segir svo um útreikning bótaréttar:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.“

Samkvæmt framangreindu getur umsækjandi um atvinnuleysisbætur einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef hann hefur reiknað sér endurgjald í skemmri tíma en 12 mánuði á ávinnslutímabili. Bótaréttur kæranda var byggður á framangreindri reiknireglu þar sem kærandi hafði einungis starfað í um fimm mánuði við eigin rekstur áður en hún sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta.

Úrskurðarnefndin bendir kæranda á að hún getur óskað endurupptöku málsins hjá Vinnumálastofnun afli hún tilskilinna vottorða um áunnið starfs- og tryggingatímabil erlendis, sbr. 47. gr. laga nr. 54/2006.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um 40% bótarétt kæranda er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. maí 2020, um 40% bótarétt A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                           Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta