Undirbúa vernd mikilvægra innviða vegna mögulegra eldsumbrota
Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að fela hópi ráðuneytisstjóra að leiða nauðsynlega vinnu við undirbúning verndar mikilvægra innviða vegna mögulegra eldsumbrota á Reykjanesi. Huga þarf að hröðum og öruggum viðbrögðum við mögulegum eldsumbrotum, styðja við vinnu heimaaðila og tryggja um leið fyllsta öryggi íbúa.
Vinna við að leggja mat á hvaða mikilvægu innviðir væru í hættu ef kæmi til eldsumbrota og hvaða afleiðingar stór jarðskjálfti gæti haft á innviðina er hafin á vegum almannavarna. Í ljósi þeirra aðstæðna sem gætu skapast hefur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lagt til við forsætisráðherra og dómsmálaráðherra að aðgengi að tengiliðum þeirra ráðuneyta sem fara með raforku, samgöngur, fjarskipti, umhverfisvöktun, heilbrigðismál og almannavarnir verði tryggt.
Því munu ráðuneytisstjórar í forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, heilbrigðisráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneyti mynda fyrrnefndan hóp.