Afríka er ekki sloppin
Þunganir unglingsstúlkna allt niður í 12 ára aldur og þvingaðar barnagiftingar stúlkubarna eru orðin að faraldri. 73% aukning er á heimilisofbeldi, fátækt eykst á ný og skólahald liggur niðri. Þessar skelfilegu staðreyndir eru meðal afleiðinga kórónuveirufaraldursins í Afríku. Það skaut því nokkuð skökku við þegar bera fór á umræðu hér á landi fyrr í vetur um hversu vel Afríka hafi sloppið frá faraldrinum. Reyndar með tilvísun í smittíðni sem var vissulega lægst í Afríku en smit og dauðsföll segja aðeins hálfa söguna um ástandið eins og úttekt SOS Barnaþorpanna í austan- og sunnanverðri Afríku leiddi í ljós. Önnur bylgja reið svo yfir álfuna í vetur og í síðustu viku fóru dauðsföll af völdum Covid-19 yfir eitt hundrað þúsund. Þau eru þó að öllum líkindum talsvert fleiri þar sem skráningu í álfunni er víða ábótavant.
Mikill munur á Afríku og Vesturlöndum
Erfitt er fyrir Evrópubúa að setja sig í spor Afríkubúa. Tækni, samgöngur, menntun, rafmagn, heilsugæsla, aldurssamsetning og svo margt annað er afar ólíkt því sem þekkist á Vesturlöndum. Efnahagur Afríku er heilt yfir brothættur og má ekki við miklum áföllum. Fyrrgreind úttekt leiddi m.a. Í ljós að sóttvarnaraðgerðir yfirvalda hafa víðast hvar komið verulega illa niður á verslun, iðnaði og félagsþjónustu. Skólahald liggur víða niðri og börn eru farin að vinna til að hjálpa við tekjuöflun heimilanna. Óttast er að stór hluti þessara barna snúi ekki aftur í skóla.
Ofbeldi gegn konum og börnum í veldisvexti
Fátækt er að aukast á ný og ofbeldi gegn konum og börnum er í veldisvexti. Þunganir unglingsstúlkna frá 18 ára niður í 12 ára aldur eru orðnar að öðrum faraldri. Í einni sýslu í Kenía var tilkynnt um fjögur þúsund þunganir stúlkubarna á fjögurra mánaða tímabili á síðasta ári og voru um 200 þessara stúlkna undir 14 ára aldri. Þetta á aðeins við um tilkynnt tilfelli svo þau voru í raun mun fleiri. Gerendurnir eru langflestir tengdir stúlkunum fjölskylduböndum og stúlkurnar eru ólíklegar til að snúa aftur til náms.
Einnig er sláandi að sjá tölur yfir annað kynferðisofbeldi gegn konum á svæðinu sem úttektin náði til.
- 73% þeirra kvenna sem rætt var við búa við aukið ofbeldi af hálfu maka.
- 51% eru þolendur kynferðisofbeldis á heimilinu.
- 21% verða fyrir áreiti við vatnsstöðvar.
- 32% aukning er á þvinguðum barnagiftingum stúlkna.
Afríka er ekki sloppin
Heimsbyggðin þarf á því að halda að Afríka nái sér fljótt á strik eftir þennan faraldur. Leiðtogar Evrópuríkja eru meðvitaðir um þetta og hafa nú áform um að taka frá hlutfall af sínum bóluefnaskömmtum til handa Afríkuríkjum. Við hjá SOS Barnaþorpunum á Íslandi viljum líka hrósa íslenskum stjórnvöldum fyrir að leggja lóð sín á vogarskálarnar með því að leggja 550 milljónir króna til þróunar, framleiðslu og dreifingar bóluefna við Covid-19 í þróunarlöndum. Gleymum því ekki að Ísland var fyrir aðeins um hálfri öld skilgreint sem þróunarland og naut þá utanaðkomandi aðstoðar. Það er einnig ánægjulegt að geta þess að félagasamtök á Íslandi sem láta sig varða velferð fólks í þróunarlöndum hafa tekið höndum saman í fræðsluátakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt. Verum öll meðvituð um að Afríka er ekki sloppin. Saman getum við haft áhrif.
Höfundur er upplýsingafulltrúi SOS Barnaþorpanna á Íslandi.
Greinin er skrifuð í tilefni af fræðsluátakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum allra helstu íslenskra félagasamtaka í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu, í samstarfi við utanríkisráðuneyti.