Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 167/2021 úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 21. apríl 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 167/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21040016

Beiðni [...] um endurupptöku

I. Málsatvik

Þann 14. maí 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 24. febrúar 2020 um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Nígeríu um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 25. maí 2020. Þann 1. júní 2020 óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar en beiðninni var hafnað þann 12. júní 2020. Þann 9. desember 2020 óskaði kærandi eftir frestun á framkvæmd úrskurðar kærunefndar og þann 11. desember 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Beiðnum kæranda um endurupptöku og frestun framkvæmdar var hafnað með úrskurði kærunefndar þann 11. febrúar 2021. Þann 6. apríl 2021 barst kærunefnd önnur beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgigögnum.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kærenda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á tvíþættum grundvelli, annars vegar á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin og hins vegar á því að ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi hafi m.a. verið greindur með alvarlega áfallstreituröskun samkvæmt framlögðu læknisvottorði, dags. 24. mars 2021. Kærandi telji að um sé að ræða atriði sem skipti miklu máli við úrlausn málsins og nauðsynlegt sé að skoða betur með tilliti til þess að heilsu hans hafi hrakað verulega frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp. Þá leggi hann áherslu á að samkvæmt læknisráði væri afar skaðlegt og hættulegt fyrir heilsu hans að vera vísað úr landi. Heilsufar sé einn þeirra þátta sem stjórnvöldum beri að líta til við mat á því hvort kærandi hafi ríka þörf fyrir vernd, skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ljóst sé að nefndin hafi ekki getað tekið afstöðu til þess hvort aðstæður kæranda hafi verið þess eðlis í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga áður en umrædd heilsufarsgögn hafi borist nefndinni enda hafi fyrirliggjandi gögn ekki verið nægilega ítarleg. Það sé hafið yfir allan vafa að ákvörðun kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum sem nú liggi fyrir. Skilyrði 1. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga séu því ótvírætt uppfyllt. Enn fremur feli umræddar upplýsingar í sér breyttar aðstæður þar sem andleg heilsa kæranda virðist hafa farið ört hrakandi. Skilyrði 2. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga séu því einnig uppfyllt.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna.

Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 14. maí 2020, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ætti því ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Með endurupptökubeiðni sinni lagði kærandi fram læknisvottorð frá heimilislækni. Þar kemur m.a. fram að kærandi sé með alvarlega áfallastreituröskun. Hann sé í stöðugu varnarviðbragði, með mikinn kvíða, ofheyrnir og sýnir tengdar sínum fyrri áföllum. Andleg líðan hans sé mjög slæm og hafi óöruggar kringumstæður ýtt undir andlega vanlíðan.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lágu fyrir upplýsingar um andleg veikindi hans, m.a. gögn frá geðdeild Landspítalans þar sem fram kemur að kærandi hafi verið greindur með mikla streitu og ofsóknargeðklofa. Þá greindi kærandi frá því við meðferð málsins að hafa fengið aðstoð vegna andlegra veikinda í heimaríki sínu og lagði hann fram gögn því til stuðnings, auk lyfseðils. Við meðferð málsins var því lagt til grundvallar að kærandi ætti við andleg veikindi að stríða. Það er mat kærunefndar að framangreint læknisvottorð sem kærandi lagði fram með endurupptökubeiðni sinni sé aðeins til fyllingar þeim upplýsingum sem lágu fyrir við meðferð málsins hjá nefndinni. Ráða má af matinu að andleg heilsa kæranda sé m.a. tengd stöðu hans hér á landi með tilheyrandi óvissu og ófyrirsjáanleika. Kærunefnd lítur því svo á að ekkert sé því til fyrirstöðu að kærandi muni getað leitað sér viðeigandi heilbrigðisaðstoðar í heimaríki og geti búið við öruggar og fyrirsjáanlegar aðstæður þar í landi. Kærunefnd telur að þrátt fyrir framangreind heilsufarsgögn, sem bendi til þess að andlegri heilsu kæranda hafi hrakað frá því úrskurðað var í máli hans, sé ekki um að ræða nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið. Í úrskurði kærunefndar, dags. 14. maí 2020, fjallaði nefndin um heilbrigðiskerfið í Nígeríu og lagði til grundvallar að kæranda stæði til boða viðeigandi heilbrigðisþjónusta þar í landi, þ. á m. geðheilbrigðisþjónusta, auk þess að líta til þess að kærandi hefði fengið aðstoð þar í landi við veikindum sínum. Því er það mat kærunefndar að framangreindar upplýsingar bendi ekki til þess að úrskurður kærunefndar í máli nr. 178/2020, dags. 14. maí 2020, hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik eða að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var birtur, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Samantekt

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál hans upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

 

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda er hafnað.

The appellant‘s requests are denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                  Sindri M. Stephensen

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta