Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 108/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 108/2021

Fimmtudaginn 26. ágúst 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Erla Guðrún Ingimundardóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Fæðingarorlofssjóðs vegna umsóknar hans um greiðslur úr sjóðnum.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og fæðingarstyrk vegna barnsfæðingar X með umsóknum, dags. 27. nóvember 2020 og 29. desember 2020. Með tölvupósti Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. janúar 2021, var kæranda tilkynnt að hann gæti ekki fengið greiðslur úr tveimur kerfum innan fæðingarorlofskerfisins með sama barninu. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. janúar 2021, var fallist á umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks. Í greiðsluáætlun með ákvörðun kom fram að mánaðarleg greiðsla til hans yrði 190.747 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 25. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 2. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 24. mars 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. mars 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að vera metinn að þeim verðleikum sem hann eigi rétt á sem samfélagsþegn. Eftir að hafa staðið í stappi við Fæðingarorlofssjóð í dágóða stund hafi hann loks fengið staðfest að hann eigi rétt á greiðslum úr sjóðnum sem launþegi. Áður hafði hann fengið neitun en fengið greiddan fæðingarstyrk sem námsmaður. Upphæðin sem um ræði sé sú sama vegna beggja; 190.747 krónur vegna hvors um sig, eða 381.494 krónur vegna beggja.

Kröfur kæranda séu þær að þurfa ekki að velja á milli þess að fá greitt sem launþegi eða námsmaður heldur fá greiðslur sem bæði launþegi og námsmaður þar sem hann sé bæði og uppfylli þær kröfur sem þurfi vegna beggja flokka. Kærandi telji ósanngjarnt af ríkisreknum sjóði sem eigi að aðstoða foreldra á þeim tímum sem þau séu að taka sín fyrstu skref í nýju hlutverki að synja þeirri bón og taka ekki mark á misjöfnum aðstæðum fólks. Því hafi hann haft samband við lögfræðing hjá umboðsmanni Alþingis sem hafi bent kæranda á að leggja inn kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Rökin sem kærandi setur kæru sinni til stuðnings séu þær að Fæðingarorlofssjóður hafi ákveðið útgreiðsluþak sem muni vera í 600.000 krónum Að sinna bæði námi og vinnu á sama tíma sé ekki auðveldara en að vera eingöngu í vinnu eða námi. Að mati kæranda ætti það líka að teljast kostur fyrir samfélagið í heild sinni að þegnar séu að mennta sig. Samt sé erfitt að sjá annað en að það sé ekki metið að verðleikum í tilviki kæranda og óskar kærandi eftir rökstuðningi frá þeim sem haldi öðru fram. Ef hann hefði sinnt 100% starfi hefði hann fengið ríflegri greiðslu úr sjóðnum, eða því sem um nemi 80% af útborguðum launum.

Að mati kæranda væri eðlilegra, miðað við fyrrnefnt þak, að launþegi með það há laun að þakinu væri náð en væri jafnframt í námi fengi þessa hámarksgreiðslu. En eins og í tilviki kæranda sé útgreiðsluþakinu, sem sjóðurinn hafi sett sér, ekki náð og sé summa greiðslna sem launþegi og námsmaður í tilviki kæranda um 65% af áðurnefndu þaki. Að mati kæranda sé því erfitt að skilja hvers vegna ekki sé hægt að fá greiðslur úr báðum flokkum. Kærandi vilji vita afhverju þakið nái ekki yfir þessar aðstæður.

Kærandi hafi tölvupóst frá Fæðingarorlofssjóði sem staðfesti rétt hans til beggja flokka. Ef ekki sé grundvöllur fyrir kröfu kæranda óskar kærandi eftir því að honum verði vísað annað því að þessu þurfi að breyta, ef ekki fyrir hann þá fyrir komandi foreldra í sömu stöðu.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun réttinda og greiðslna samkvæmt lögum nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof.

Með umsókn, dags. 27. nóvember 2020, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og með umsókn, dags. 29. desember 2020, hafi kærandi sótt um fæðingarstyrk námsmanna vegna barns síns sem hafi fæðst 19. janúar 2021.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi geti átt réttindi og fengið greiðslur úr tveimur kerfum innan fæðingarorlofskerfisins með sama barninu, annars vegar sem foreldri á innlendum vinnumarkaði og hins vegar sem foreldri í fullu námi en óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði til þess að teljast vera bæði foreldri á innlendum vinnumarkaði og foreldri í fullu námi.

Í 1. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé mælt fyrir um gildissvið laganna. Þannig komi fram í 1. mgr. að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði sem séu starfsmenn og/eða sjálfstætt starfandi til fæðingar- og foreldraorlofs og í 2. mgr. að lögin taki einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi til fæðingarstyrks.

Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess sem hafi orðið að lögum nr. 144/2020 komi meðal annars fram að ákvæðið sé að mestu samhljóða 1. gr. gildandi laga, ekki sé um efnislega breytingu að ræða frá gildandi lögum og orðalagsbreytingar í 1. gr. eigi ekki að leiða til breytinga á framkvæmd laganna. Þá segi um 1. mgr. að lögunum sé ætlað að taka til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs og um 2. mgr. segi að lögunum sé einnig ætlað að taka til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi til fæðingarstyrks. Síðan segi orðrétt:

„Þannig er kveðið á um skýr skil á milli fæðingarorlofsgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi annars vegar og fæðingarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi hins vegar. Foreldrum utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldrum í fullu námi er áfram tryggður réttur til greiðslu fæðingarstyrks á sama hátt og í gildandi lögum.“

Í samræmi við framangreint hafi lögunum verið kaflaskipt og kveðið hafi verið á um skýr skil á milli réttinda og greiðslna innan fæðingarorlofskerfisins. Þannig sé til að mynda kveðið á um sex mánaða sjálfstæðan rétt foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingarorlofs í 8. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof og með sama hætti sé kveðið á um sex mánaða sjálfstæðan rétt foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli til fæðingarstyrks í 26. gr. laganna og sex mánaða sjálfstæðan rétt foreldra í fullu námi til fæðingarstyrks í 27. gr. laganna. Þeim rétti fylgi greiðslur samkvæmt VIII. kafla laganna.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kærandi geti ekki átt rétt á hvoru tveggja, það er sex mánaða sjálfstæðum rétti foreldris á innlendum vinnumarkaði til fæðingarorlofs með greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og sex mánaða sjálfstæðum rétti foreldris í fullu námi til fæðingarstyrks vegna barns hans sem hafi fæðst 19. janúar 2021. Kærandi eigi þess í stað rétt á því að nýta sér önnur hvor réttindin og greiðslur samkvæmt þeim.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun réttinda og greiðslna samkvæmt lögum nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi geti fengið greiðslur úr tveimur kerfum innan fæðingarorlofskerfisins með sama barninu, annars vegar sem foreldri á innlendum vinnumarkaði og hins vegar sem foreldri í fullu námi.

Í 1. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir það skilyrði laganna og á tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. ffl. felur þátttaka á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 21. gr. í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 4. tölul. 4. gr., sjálfstætt starfandi, sbr. 3. tölul. 4. gr., eða sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. ffl. telst til þátttöku á innlendum vinnumarkaði enn fremur samkvæmt a-lið ákvæðisins, orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli. 

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna samkvæmt 4. og 5. mgr. og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skal þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. ffl. eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir það skilyrði laganna og á rétt á greiðslu fæðingarstyrks.

Í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 144/2020 segir í 1. mgr. að lögunum sé ætlað að taka til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Í 2. mgr. var lögð til breyting á orðalagi þannig að skýrt komi fram að fæðingarstyrkur eigi annars vegar við um foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og hins vegar foreldra í fullu námi. Ekki er um efnislega breytingu að ræða frá gildandi lögum en mikilvægt þyki að skýrt verði kveðið á um þetta í nýjum lögum. Þannig er kveðið á um skýr skil á milli fæðingarorlofsgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi annars vegar og fæðingarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi hins vegar. Af framangreindu er ljóst að kærandi getur ekki fengið greiðslur úr tveimur kerfum innan fæðingarorlofskerfisins með sama barninu, annars vegar sem foreldri á innlendum vinnumarkaði og hins vegar sem foreldri í fullu námi.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. janúar 2021, um að synja umsókn A, um greiðslur úr tveimur kerfum innan fæðingarorlofskerfisins með sama barninu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta