Konur og jaðarsettir hópar verst úti í flóðunum í Pakistan
Konur, stúlkur og jaðarsettir hópar verða verst úti í hamfaraflóðunum í Pakistan að mati Adil Sheraz framkvæmdastjóra CARE hjálparsamtakanna í landinu. Sameinuðu þjóðirnar hafa sent út neyðarkall sökum ástandsins og hafið neyðarsöfnun til að bregðast við þörfinni.
„Við vitum að konur, stúlkur og jaðarsettir hópar verða hvað verst úti þegar náttúruhamfarir dynja á en eiga jafnframt erfiðast með að nálgast neyðaraðstoð. Barnshafandi konur á hamfarasvæðunum geta ekki fætt börn sín við viðunandi aðstæður þar sem flóðin hafa skolað burt heimilum og heilbrigðisstofnunum. Þetta stefnir lífi þeirra og barna þeirra í hættu,“ segir Adil Sheraz.
Fulltrúar Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, telja að um 650 þúsund barnshafandi konur séu búsettar á hamfarasvæðunum og hafi ekki aðgang að viðunandi heilbrigðisþjónustu.
„Mest ríður á að tryggja aðgang að hreinu vatni, matvælum, lyfjum og heilbrigðisþjónustu. Óttast er að vatnsbornar sýkingar á borð við iðrasýkinga sem valda uppköstum og niðurgangi breiðist hratt út meðal fólks á hamfarasvæðunum,“ segir í frétt frá UN Women.
Þar kemur fram að flóðin, sem hófust í júní, hafi farið yfir 72 prósent af landsvæði Pakistan og kostað meira en 1.100 mannslíf. Þau hafi lagt heimili, skólabyggingar og sjúkrastofnanir í rúst. Að auki hafa vegir og aðrir mikilvægir innviðir eyðilagst í vatnsflaumnum. Óttast sé að fleiri flóð verði á næstu vikum og kunni að valda enn frekari mannskaða og eyðileggingu.
„Það er staðreynd að kynbundið ofbeldi eykst á tímum hamfara og átaka. Á svæðunum sem verst hafa orðið úti í flóðunum, sefur fólk úti undir berum himni og fjölskyldur hafa splundrast. Þetta ástand gerir konur og stúlkur berskjaldaðri gegn kynbundnu ofbeldi og mansali. UN Women er á staðnum og vinnur að því að greina þarfir kvenna, stúlkna og jaðarsettra hópa á flóðasvæðunum. UN Women og samstarfsaðilar hafa veitt konum, stúlkum og jaðarsettum hópum neyðaraðstoð á borð við húsaskjól, matvæli, læknisaðstoð og hreinlætisvörur,“ segir í frétt UN Women.
Þá hefur UN Women tryggt aðgengi kvenna og stúlkna að lögfræðiaðstoð, áfallahjálp og peningagreiðslum án skilmála.
Hér er hægt að lesa nánar um kynjuð áhrif loftslagsbreytinga.