Hoppa yfir valmynd
17. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð velferðarvaktarinnar 17. maí 2016

Drög að fundargerð 13. fundar Velferðarvaktarinnar
haldinn 17. maí 2016 hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga kl. 9.00-12.00.

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Ellý Alda Þorsteinsdóttir frá Reykjavíkurborg, Haukur Ingibergsson frá Landssambandi eldri borgara, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Vildís Bergþórsdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Þorbera Fjölnisdóttir frá Öryrkjabandalagi Íslands, Héðinn Jónsson frá VIRK, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstofnun kirkjunnar, Nína Helgadóttir frá Rauða krossinum á Íslandi, Ólafur Magnússon frá Alþýðusambandi Íslands, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Gyða Hjartardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Védís Drafnardóttir frá Geðhjálp, Jenný Ingudóttir frá Heimili og skóla, Sunna Diðriksdóttir frá innanríkisráðuneyti, Hugrún Hjaltadóttir frá Jafnréttisstofu, Ásgerður Jóna Flosadóttir frá Fjölskylduhjálp Íslands, Þórður Hjaltested frá Kennarasambandi Íslands, Eðvald Stefánsson frá Umboðsmanni barna, Ásta S. Helgadóttir frá Umboðsmanni skuldara, Steinunn Bergmann frá Bandalagi háskólamanna, Halldór Gunnarsson frá velferðarráðuneyti, Guðni Olgeirsson frá menntamálaráðuneyti og Lovísa Lilliendahl frá velferðarráðuneyti.

Gestir: Kolbeinn Stefánsson frá Hagstofu Íslands, Guðjón Bragason, Þórður Kristjánsson, Svandís Ingimundardóttir og Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Dagskrá fundar:

1. Afhending skýrslu um sárafátækt á íslandi
- Kolbeinn Stefánsson

2. Kynning á kostnaði foreldra vegna grunnskólagöngu barna
- Þórður Kristjánsson og Gyða Hjartardóttir

3. Önnur mál

___

1. Afhending skýrslu um sárafátækt á Íslandi
Kolbeinn Stefánsson kynnti nýja skýrslu um greiningu á sárafátæktarhópnum, svokölluðum 2% hóp, sem unnin var af Hagstofunni að beiðni Velferðarvaktarinnar. Við greininguna var notast við aðhvarfsgreiningartré (leitandi greining)og leiddu niðurstöður í ljós að heilsubrestur væri helsti áhrifaþáttur á að lenda í sárafátækt. Aðrir áhrifaþættir eru staða á húsnæðismarkaði, heimilisgerð og lágar tekjur. Ljóst er að sterk tengsl eru á milli allra þessa þátta og til að greina orsakasambandið betur þarf að skoða nánar samspilið þarna á milli. Fram kom að í kjölfar hruns hafi hlutfall þeirra sem bjuggu við sárafátækt hækkað, en hlutfallið hafi hins vegar farið aftur niður á við frá árinu 2013.

Í umræðum var óskað eftir því að niðurstöðunum yrði skipt niður á landssvæði en fram kom að úrtakið er of lítið til þess. Einnig var bent á hvort hægt væri að skýra niðurstöðurnar betur, t.d. hver væri helsta skýringin á því að heilsubrestur sé lykilþáttur í niðurstöðunum. Þá var bent á að gagnlegt væri að sjá fjölda einstaklinga á bak við hlutfallið.
Tölum frá árinu 2015 verður bætt við skýrsluna á næstu vikum og verður hún þá send í endanlegu formi til Velferðarvaktarinnar. Greiningin mun gagnast Velferðarvaktinni í áframhaldandi störfum sínum.


2. Kynning á kostnaði foreldra vegna grunnskólagöngu barna

Í framhaldi af bréfi Velferðarvaktarinnar til Sambands íslenskra sveitarfélaga, áskorunum félagasamtaka s.s. Barnaheilla og Heimilis og skóla og samráðsfundum vaktarinnar og sambandsins hefur sambandið gert lauslega úttekt á stöðu mála. Þórður Kristjánsson kynnti samanburð milli nokkurra sveitarfélaga varðandi kostnað við ritföng, skólamáltíðir, frístundaheimili og ferðir nemenda en töluverður munur getur verið á milli skóla í þessum efnum. Sambandið hefur nú þegar sent bréf til allra skólanefnda og vakið sérstaka athygli á verðmuni á milli skóla í tengslum við þátttökukostnað foreldra við ritfangakaup og beint þeim tilmælum um að sveitarfélögin endurskoði sína stefnu varðandi þau mál. Sambandið hefur ekki boðvald yfir sveitarfélögum en vonast er til þess að tilmælin hafi þau áhrif að þessi mál verði tekin til skoðunar, sérstaklega í ljósi þess að nokkur sveitarfélög hafa nú þegar riðið á vaðið og útvega grunnskólanemum ritföng þeim að kostnaðarlausu.

Ákveðið var að á þessum tímapunkti myndi vaktin ekki aðhafast frekar varðandi kostnað við skólamáltíðir, frístundaheimili og ferðir nemenda. Að bjóða skólamáltíðir er til að mynda dýr aðgerð og erfitt getur reynst að greina kostnað við vettvangs- og fræðsluferðir nemenda en bent var á að gott væri að skoða álit sem menntamálaráðuneytið sendi frá sér varðandi kostnað við vettvangsferðir, það eiga að vera til reglur í því samhengi.

Sambandinu var þakkað fyrir jákvæð viðbrögð og góða samvinnu í þessu máli. Vaktin mun skoða hvernig unnt verði að nýta upplýsingarnar sem fram komu t.d. í aðdraganda næsta skólaárs sem hefst í haust.

3. Starfið framundan

Rætt var um hverjar ættu að vera áherslur vaktarinnar næstu misseri og var eftirfarandi nefnt:

· Skoða stefnuna og aðgerðir í geðheilbrigðismálum m.a. með tilliti til þess að örorku er hægt að afstýra í mörgum tilvikum.

· Ójafnvægi í stuðningi við kvótaflóttafólk og hælisleitendur. Aðstæður barna í hælismeðferð.

· Hagir og líðan eldri borgara - mikilvægt að vaktin fylgist með.

4. Önnur mál

· SF tilkynnti að Ísland yrði með í næstu könnun European Social Survey en velferðarráðuneytið mun styðja þann kostnað.

· Kynningar á vaktinni framundan bæði hér á landi (Chrodis) og í Osló.

Næsti fundur verður haldinn í velferðarráðuneytinu 23. ágúst kl. 9.00-12.00./LL

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta