Hoppa yfir valmynd
3. september 2014 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Drög að reglugerð um öryggi leikfanga og fleira til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneyti drög að reglugerð um öryggi leikfanga og frjálsan flutning þeirra innan EES. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir til og með 17. september næstkomandi á netfangið [email protected]

Í reglugerðardrögunum er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/48/EB um öryggi leikfanga. Sú tilskipun var tekin inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2012.

Tilskipunin leysir af hólmi eldri tilskipun um sama efni. Sú tilskipun hefur almennt gefist vel en tækniþróun á leikfangamarkaði hefur vakið upp nýjar spurningar um öryggi leikfanga og því var ákveðið að hún skyldi endurskoðuð og aukið við ákveðna þætti hennar. Til glöggvunar var ákveðið að gefa út nýja tilskipun.

Reglugerðin mun taka til leikfanga sem eru hönnuð eða ætluð að öllu leyti eða hluta fyrir leik barna yngri en fjórtán ára. Slík leikföng verða að uppfylla svokallaðar grunnkröfur um öryggi áður en þau eru boðin fram á markaði. Með því er m.a. átt við að leikföng skulu hönnuð á þann hátt að þau stofni ekki í hættu öryggi eða heilsu barna þegar þau eru notuð eins og til er ætlast eða fyrirsjáanlegt er miðað við hegðun barna.

Í þeim tilgangi er lagt til að rekstraraðilar sem koma að aðfangakeðjunni geri viðeigandi ráðstafanir í samræmi við hlutverk hvers og eins til að tryggja að leikföng sem þeir setja á markað stofni ekki öryggi og heilsu barna í hættu. Til dæmis er sú skylda lögð á framleiðanda að hann framkvæmi samræmismat til að sýna fram á að viðeigandi kröfur séu uppfylltar og útbúi í kjölfarið samræmisyfirlýsingu og CE-merki leikfangið. Innflytjandi og dreifingaraðili eiga svo að ganga úr skugga um að leikfang sem þeir fá í hendurnar beri samræmismerki og því fylgi nauðsynleg gögn til að sýna fram á að svo sé.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta