Nr. 472/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 7. september 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 472/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23030071
Kæra [...]
á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 17. mars 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Rússlands (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 1. mars 2023, um að synja henni og börnum hennar, [...], fd. [...], (hér eftir nefndur A) og [...], fd. [...], (hér eftir nefnd B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum hennar og barna hennar verði felldar úr gildi og þeim verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að henni og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi kom fyrst hingað til lands árið 2001 og dvaldi hér á grundvelli tímabundins dvalarleyfis vegna atvinnuþátttöku. Var leyfið endurnýjar tvisvar og yfirgaf kærandi landið árið 2003. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 17. maí 2022 ásamt eiginmanni sínum, [...] (hér eftir nefndur M), og börnum þeirra, A og B. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 30. ágúst 2022 ásamt talsmanni sínum. Þá komu börn kæranda til viðtals hjá Útlendingastofnun 17. febrúar 2023.
Með ákvörðunum, dags. 1. mars 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru framangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála 17. mars 2023. Hinn 3. apríl 2023 barst kærunefnd sameiginleg greinargerð kæranda og M ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kemur fram að hún byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna og þjóðfélagshóps. Þá óttist hún að M og A verði kvaddir í herinn.
Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kæranda kom fram að þau hefðu mætt til viðtals hjá stofnuninni 17. febrúar 2023 ásamt talsmanni þeirra. Í ákvörðunum vísaði Útlendingastofnun til þess að úrlausn barna kæranda um rétt þeirra til alþjóðlegrar verndar væri grundvölluð á framburði foreldra þeirra. Samkvæmt ákvörðunum í málum foreldra þeirra hefði beiðnum þeirra um réttarstöðu flóttamanns og viðbótarvernd hér á landi skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga verið synjað. Þá hefði foreldrum þeirra jafnframt verið synjað um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar, með vísan til niðurstaðna í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að hagsmunum barna kæranda væri ekki stefnt í hættu fylgdu þau foreldrum sínum til heimaríkis.
Kæranda var brottvísað frá landinu og henni ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljug innan frests sem henni hefði verið veittur yrði endurkomubann hennar fellt niður. Börnum kæranda var brottvísað frá landinu.
Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda og M kemur fram að þau séu fædd og uppalin í borginni Yoshkar-Ola í Rússlandi. Þá kemur fram að þegar K hafi verið 19 ára hafi hún flutt til Íslands ásamt móður sinni og búið hér um þriggja ára skeið. Hinn 22. mars 2022 hafi kærandi og M flúið heimaríki ásamt börnum sínum vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Innrásin hafi komið kæranda og M í opna skjöldu og hafi þau orðið óttaslegin yfir ástandinu og um framtíð sína og fjölskyldu sinnar og öryggi þeirra. Í greinargerð er vísað til þess að í Rússlandi sé ekki lengur hægt að tjá hug sinn frjálslega án þess að eiga á hættu valdbeitingu á borð við fangelsun eða aflífun. Kærandi og M telja að þau eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum stjórnvalda vegna pólitískra skoðana sinna, einkum hafi kærandi raunhæfa ástæðu til að óttast slíkar ofsóknir þar sem hún hafi ekki legið á þeim skoðunum nema undir lokin, skömmu fyrir flóttann. Þá hafi K 24. febrúar 2023 sett færslu á samskiptamiðilinn Facebook þar sem hún hafi skrifað að fólkið í Rússlandi væri á móti stríðinu og að þau þyrftu ekki landsvæðið sem Rússar hygðust leggja undir sig.
Í sameiginlegri greinargerð kæranda og M kemur fram að þau óttist að M verði kvaddur í herinn en hann sé í varahernum líkt og aðrir rússneskir karlmenn á tilteknu aldursbili í Rússlandi. Sá ótti hafi raungerst 16. mars 2023 þegar foreldrar M hafi fundið herkvaðningu frá 27. október 2022 í pósthólfi kæranda og M. Í greinargerðinni er vísað til þess að þeir sem mótmæli herskyldu eða láti í ljós óánægju sína með stríðið geti verið látnir sæta þungbærum viðurlögum af hálfu stjórnvalda í Rússlandi. Kærandi og M telja að því sé í raun ekkert val um að ræða fyrir M ef hann verður sendur aftur til heimaríkis. Þá óttist kærandi og M að A verði gert að taka upp herskyldu í framtíðinni. Kærandi og M telja að þau og börn þeirra verði í hættu vegna stríðsátakanna og óttist að ef átökin berist yfir landamærin til Rússlands sé heimabær þeirra í hættu í ljósi staðsetningar hans. Þá telja kærandi og M að þau geti ekki snúið aftur til heimaríkis þar sem þau séu óörugg þar en erfitt sé að framfleyta sér í landinu þar sem starfstækifæri séu takmörkuð og vegna afleiðinga stríðsins. Áður en þau hafi flúið heimaríki hafi þau þurft að vinna hörðum höndum til að framfleyta sér og börnum sínum. Hafi móðir kæranda og stjúpfaðir meðal annars styrkt kæranda og M um tæplega tvær og hálfa milljón króna síðastliðin ár með reglulegum millifærslum. Kærandi og M geti ekki lengur fengið slíkan fjárhagslegan stuðning þar sem rússnesk stjórnvöld hafi lokað á erlendar greiðslur. Kærandi og M telja að ástandið í Rússlandi muni fara versnandi og sjái þau ekki fram á að geta flutt aftur þangað á næstu árum og leiti þau því að betri framtíð hér á landi. Kærandi og M hafi tengsl hér á landi þar sem móðir hennar og stjúpfaðir búi hér.
Kærandi og M byggja aðalkröfu sína um alþjóðlega vernd á því hún og M séu andvíg stefnu yfirvalda í heimaríki og hafi opinberlega gagnrýnt stjórnvöld. Í greinargerð er vísað til þess að talið sé að um 300 þúsund einstaklingar hafi flúið Rússland til að forðast refsingu fyrir að lýsa yfir andúð gegn stríðinu í Úkraínu. Þá vilji kærandi ekki að börn sín verði heilaþvegin líkt og viðgangist í rússneskum skólum. Vegna stjórnmálaskoðana sinna telur kærandi sig eiga á hættu ofsóknir í samræmi við e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá byggir aðalkrafa kæranda á því að hún sé mótfallin stríðinu og að M vilji ekki taka þátt í stríðinu í Úkraínu. M hafi þegar verið kvaddur til herskyldu og hans bíði refsing neiti hann að verða við henni. Þrátt fyrir að M hafi ekki verið kunnugt um herkvaðninguna þegar hún hafi borist þá megi líta svo á að hann hafi hunsað hana og því óttist kærandi að M verði refsað snúi hann til baka. Kærandi sé þannig að flýja undan ofsóknum vegna pólitískra skoðana sinna og vegna mögulegrar refsingar M neiti hann að gegna herskyldu.
Kærandi byggir varakröfu sína um viðbótarvernd á því að hún óttist að sprengjur muni falla á heimaríki fjölskyldunnar og að heimabær þeirra verði sérstakt skotmark ef til átaka komi í Rússlandi. Því telur hún að raunhæf ástæða sé til að óttast að þau verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.
Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að fjölskyldunni verði veitt vernd og dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir framangreinda kröfu á því að þau hafi náin tengsl við ættmenni hér á landi þar sem móðir kæranda búi hér ásamt eiginmanni sínum, stjúpföður kæranda. Þá tali kærandi íslensku og hafi starfað og gengið í skóla hér á landi. Að mati kæranda séu tengsl hennar við landið djúp og mikil og hér eigi hún og M enn í dag greitt aðgengi að vinnu og félagslegt net og þurfi einskis frá íslenskum stjórnvöldum. Í heimaríki bíði kæranda og fjölskyldu hennar erfiðar aðstæður, einkum erfiðar fjárhagslegar aðstæður.
Í greinargerð eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar í málum barna kæranda og M. Útlendingastofnun hafi komist að því að með vísan til niðurstöðu í málum kæranda og M að hagsmunum barnanna væri ekki stefnt í hættu með því að þau fylgi foreldrum sínum til heimaríkis. Kærandi telur að sú skírskotun Útlendingastofnunar samrýmist ekki skyldu stofnunarinnar til að taka skriflega afstöðu til öryggis barna kæranda, velferðar og félagslegs þroska. Þá verði ekki séð að tekið hafi verið tillit til skoðana barna kæranda í samræmi við aldur þeirra og þroska enda hafi Útlendingastofnun í raun ekki spurt börnin sérstaklega út í skoðanir þeirra. Að mati kæranda sé málsmeðferð Útlendingastofnunar í málum barna hennar í andstöðu við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og skyldu til rökstuðnings skv. 22. gr. sömu laga. Með vísan til framangreinds gerir kærandi kröfu um að ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum barna hennar verði felldar úr gildi og mál þeirra tekin til nýrrar umfjöllunar hjá stofnuninni þar sem úr þessum annmarka sé bætt.
Að lokum er í greinargerð mótmælt brottvísun og endurkomubanni sem kæranda var ákvarðað í ákvörðun Útlendingastofnunar. Að mati kæranda hafi hún gefið haldbærar og greinargóðar skýringar á því hvers vegna endurkomubann væri þeim sérstaklega íþyngjandi. Hér eigi hún og M fjölskyldu sem þau hafi oft heimsótt og kærandi búið lengi með. Það sé mjög íþyngjandi fyrir kæranda, börn hennar og móður og stjúpföður kæranda að meina þeim um endurkomu til landsins í tvö ár ef til brottvísunar kemur. Að mati kæranda geti endurkomubann varla talist nauðsynleg ráðstöfun í hennar tilfelli en hún hafi í engu notið góðs af félagslegri aðstoð eða uppihaldi af hálfu ríkisins heldur hafi móðir hennar og stjúpfaðir séð um allt þeirra uppihald og utanumhald.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna deili á sér og börnum sínum hafi kærandi framvísað rússneskum vegabréfum fyrir sig og börn sín og því var það mat stofnunarinnar að kærandi og börn hennar hefðu sannað hver þau væru með fullnægjandi hætti. Er því lagt til grundvallar að kærandi og börn hennar séu rússneskir ríkisborgarar.
Réttarstaða barna kæranda
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með hagsmuni þess að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.
Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.
Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd móður sinnar og föður og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Rússlandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Amnesty International Report 2022/23: Russia (Amnesty International, 27. mars 2023);
- Arrests in Russia at protests over troop mobilization (UNOHC, 27. september 2022);
- Country Reports on Terrorism 2021 – Russia (US Department of State, desember 2021);
- EASO Country of Origin Information Report. Russian Federation State Actors of Protection (EASO, mars 2017);
- Country policy and information note: critics and opponents of the government -Russia (gov.uk, uppfært 17. nóvember 2022);
- Country Reports on Human Rights Practices 2021 – Russia (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
- Country Reports on Human Rights Practices 2022 – Russia (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
- Foreign agents and undesirables, Russian civil society in danger of extinction (European Parliament, 8. mars 2022);
- Foreign travel advice: Russia (uppfært 24. maí 2023);
- Freedom in the World 2022 - Russia (Freedom House, 24. febrúar 2022);
- Freedom in the World 2023 – Russia (Freedom House, 2023);
- How Russia is applying new laws to stifle dissent on Ukraine (Reuters, 26. ágúst 2022);
- Human Rights and Democracy Report 2017 – Russia (UK Foreign and Commonwealth Office, 16. júlí 2018);
- Inappropriate Enforcement of Anti-Extremist Legislation in Russia in 2021 (SOVA, 27. apríl 2022);
- Laws of Attrition, Crackdown on Russia´s Civil Society after Putin´s Return to the Presidency (Human Rights Watch, apríl 2013);
- Nations in Transit. Russia 2022 (Freedom House, 2022);
- Nations in Transit 2023: War Deepens a Regional Divide (Freedom House, 2023);
- Promoting Accountability for Human Rights Abuses Perpetrated by the Government of Russia and Belarus (US Department of State, 15. mars 2022);
- Promoting Accountability for Human Rights Abuses Perpetrated by the Government of Russia and Belarus (US Department of State, 15. mars 2022);
- Russia as a Country of Origin (EUAA, júní 2022);
- Russia: Brutal Arrests and Torture, Ill- Treatment of Anti-War Protesters (Human Rights Watch, 9. mars 2022);
- Russia Country profile (BBC News, 6. mars. 2023);
- Russia Country Report 2022 (Bertelsmann Stiftung, 23. febrúar 2022);
- Russia Criminalizes Independent War Reporting, Anti-War Protests (Human Rights Watch, 7. mars 2022);
- Russian parliament votes to break with European Court of Human Rights (Reuters, 7. júní 2022);
- Russian Federation – Medical Country of origin Information Report (EUAA, september 2022);
- Russia: New Restrictions for Foreign Agents (Human Rights Watch, 1. desember 2022);
- Russian Police are Torturing Anti-War Activists (Human Rights Watch, 20. október 2022);
- Russia protests: more than 1,300 arrested at anti-war demonstrations (The Guardian, 22. september 2022);
- Russia Takes Censorship to the New Extremes, Stifling War Coverage (New York Times, 4. mars. 2022);
- Russia. The World Factbook (CIA, síðast uppfært 11. janúar 2023);
- Russia Travel Advisory (US Department of State, uppfært 13. febrúar 2023);
- Russia´s War on Ukraine (Amnesty International, 2023);
- The Russian Federation – Political opposition (EUAA, desember 2022);
- The State of the World´s Human Rights: Russia (Amnesty International, 29. mars 2022);
- The Supreme Court of the Russian Federation will again clarify its position on extremism (Radio Free Europe, 7. september 2018);
- Treatment of protestors, journalists, and human rights defenders since the Ukraine invasion EUAA COI Query Response, 2. júní 2022);
- Putin Signs Off On Harsher Foreign Agent Law (RFE/RL, 14. júlí 2022);
- Submission by the Human Rights Watch on Russia to the Human Righs Committee (Human Rights Watch, 10. febrúar 2022);
- Vefsíða Minority Rights Group – Russian Federation: Mari (Mari - Minority Rights Group, uppfærð í desember 2020);
- World Report 2022 -Russian Federation (Human Rights Watch, 2022) og
- World Report 2023 – Russian Federation (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).
Samkvæmt framangreindum gögnum er Rússland sambandsríki með um 142 milljónir íbúa. Eftir fall Sovétríkjanna árið 1991 gerðist Rússland aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1973. Rússland gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987 og samþykkti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2005.
Í framangreindum gögnum m.a. vefsíðu leyniþjónustu Bandaríkjanna og Minoriy Rights Group kemur fram að Rússland skiptist í tvær sjálfstjórnarborgir, Moskvu og Sankti Pétursborg, og 81 svæði/fylki og lýðveldi. Eitt af lýðveldum Rússlands er Maríj El lýðveldið. Maríj El lýðveldið er stjórnunarlega hluti af Volga sambandshéraðinu og er Yoshkar-Ola höfuðborg lýðveldisins. Opinber tungumál í lýðveldinu eru rússneska og marí. Þá eru Rússar um 47,4% af fjölda lýðveldisins og Mari 43,9% en minnihlutahópar eru Tatarar og Chuvash. Samkvæmt vefsíðu mannréttindavaktarinnar þar sem fjallað er um Maríj þjóðarbrotið í Rússlandi eru tæplega 548 þúsund einstaklingar af þjóðarbrotinu í Rússlandi og býr meirihluti þeirra í Maríj El lýðveldinu. Fram kemur að svæði Maríj El hafi verið stofnað sem sjálfstjórnarumdæmið Maríj árið 1920. Frá því seint á fimmta áratugnum til snemma á áttunda áratugnum hafi Maríj misst næstum öll þjóðernisréttindi sín; þá hafi tungumálakennsla verið bönnuð á sjöunda áratugnum. Fullveldi Maríj var lýst yfir í október 1990 og nafni lýðveldisins var breytt í Maríj El. Fram kemur að samskipti milli þjóðarbrota í Maríj El hafi versnað verulega árið 2005 vegna ásakana um kúgun á sjálfsmynd Maríj þjóðarbrotsins að undirlagi forseta lýðveldisins, Leonid Markelov, og fjölda árása á aðgerðarsinna sem hafi tekið þátt í þjóðernissamtökum Maríj fólksins. Þá kemur fram í umfjöllun mannréttindavaktarinnar að þann 1. febrúar 2006 hafi Alþjóða mannréttindasamtökin í Helsinki og Moskvu-Helsinki hópurinn birt skýrslu um mannréttindastöðu Maríj-fólksins í Rússlandi. Í skýrslunni hafi verið gerð grein fyrir skaðlegum áhrifum miðstýringarstefnu Pútín-stjórnarinnar á Maríj menningu og minnkandi notkun Maríj tungumálsins undanfarin ár. Þrátt fyrir að Maríj tungumálið hafi áfram verið opinbert tungumál í lýðveldinu hafi margar hindranir verið á notkun þess í opinberu samhengi. Þar að auki hafi skortur á fjármagni hindrað áframhaldandi þróun og eflingu tungumálsins í menntunarkerfi lýðveldisins.
Í ársskýrslu Human Rights Watch frá 2023 kemur fram að ástand mannréttindamála hafi versnað í landinu einkum eftir innrás Rússa inn í Úkraínu. Stjórnvöld hafi brugðist við gagnrýni með bönnum, íþyngjandi löggjöf og sýndarréttarhöldum. Stjórnvöld hafi fylgt hernaðaraðgerðum sínum í Úkraínu eftir með því að brjóta niður mannréttindi og kúga baráttufólk gegn stríði í Rússlandi. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins hafi ekki látið á sér standa. Hinn 25. febrúar 2022 samþykkti ráðherraráð Evrópuráðsins að hefja ferli skv. 8. gr. samþykkta ráðsins og með því að víkja Rússlandi tímabundið úr Evrópuráðinu. Með yfirlýsingu 15. mars 2022 dró Rússland sig út úr Evrópuráðinu og lýsti yfir ætlun sinni um að afneita mannréttindasáttmála Evrópu. Hinn 16. mars 2022 samþykkti ráðherraráðið yfirlýsingu, CM/RES(2022)2, um lok aðildar Rússlands að Evrópuráðinu. Rússnesk stjórnvöld samþykktu í júní lög sem heimila rússneskum yfirvöldum að hunsa dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og að dómum gegn Rússlandi sem falli eftir 15. mars 2022 verði ekki framfylgt. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað fordæmt bæði innrásina í Úkraínu og mannréttindabrot Rússa þar í landi. Á fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í apríl 2022 var samþykkt með meirihluta atkvæða að víkja Rússlandi úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Í kjölfar versnandi aðstæðna fyrir almenna borgara í Rússlandi samþykkti Mannréttindaráðið ályktun nr. 51/25, dags. 11. október 2022. Með ályktuninni var komið á fót sérstökum skýrslugjafa um stöðu mannréttindamála í Rússlandi. Sá skýrslugjafi tók til starfa 1. maí 2023 og er áætlað að hún skili fyrstu skýrslu í september 2023. Í yfirlýsingu Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD) frá 8. mars 2022 kemur fram að, vegna stórfelldra árása Rússa gegn Úkraínu hafi ráð OECD ákveðið að vísa Rússlandi úr stofnunum OECD. Þá hafa ríkisstjórnir víða um heim beitt sér gegn rússneskum stjórnvöldum m.a. til að draga úr hernaðarmætti þeirra. Evrópusambandið og aðildarríki þess, Bandaríkin, Bretland, Kanada og aðrir hafi beitt markvissum refsiaðgerðum gegn rússneskum einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum aðilum.
Í skýrslu Freedom House frá 2022 kemur fram að þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins mæli fyrir um þrískiptingu ríkisvalds þá bendi allt til þess að viðvarandi vandi sé í stjórnkerfi Rússlands vegna samþjöppunar valds í höndum forseta landsins. Í júlí 2020 voru með þjóðaratkvæðagreiðslu samþykktar ýmsar breytingar á stjórnarskrá landsins. Í breytingunum fólst m.a. að kjörtímabil forseta landsins var lengt og gera breytingarnar Vladimír Pútín, sitjandi forseta, kleift að sitja áfram sem forseti landsins allt til ársins 2036. Þá geti forseti landsins, með stuðningi frá efri deild þingsins, vikið dómurum úr stjórnlagadómstól og Hæstarétti landsins, sem sé til þess fallið að draga enn frekar úr sjálfstæði dómstólanna. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2022 kemur fram að valdir stjórnarandstöðuflokkar séu leyfðir af Kremlin, rússnesku ríkisstjórninni, en aðeins vegna þess að þeir flokkar ógni ekki völdum ríkisstjórnar landsins á nokkurn hátt. Stjórnarandstöðuflokkum sem ekki séu samþykktir af Kremlin sé neitað um skráningu og starfsemi þeirra stöðvuð. Stjórnvöld beiti sér reglulega gegn stjórnarandstæðingum með tilbúnum ákærum og ýmis konar áreiti til að stöðva þátttöku þeirra í stjórnmálum. Í skýrslu Freedom House frá 2022 kemur fram að stjórnarandstæðingum og gagnrýnum blaðamönnum hafi ítrekað verið gerðar upp sakir og áreittir til að hindra stjórnmálaþátttöku. Í ágúst 2020 hafi verið eitrað fyrir Alexei Navalny, lögfræðingi og leiðtoga stjórnarandstöðu flokksins „Rússland framtíðarinnar“. Í september 2021 hafi Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að rússnesk stjórnvöld bæru ábyrgð á eitruninni. Navalny var handtekinn af stjórnvöldum í Rússlandi, í janúar 2021, fyrir brot á skilorði eftir að hafa gengist undir lífsnauðsynlega læknisaðstoð í Þýskalandi vegna eitrunarinnar. Eftir handtökuna hafi brotist út fjölmennustu mótmæli gegn stjórnvöldum sem sést hafi síðasta áratug í Rússlandi. Stjórnvöld hafi brugðist við af hörku og talið sé að um 11.500 manns hafi verið handtekin. Mannréttindasamtökin Memorial áætli að 426 pólitískir fangar hafi verið í haldi í lok árs 2021. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 kemur fram að pólitískum föngum sé haldið vegna ásakana um hryðjuverk, öfgahyggju, aðskilnaðarstefnu eða njósnir. Pólitískum föngum sé haldið við slæm skilyrði og sæti refsimeðferð, svo sem einangrun eða refsivist á geðdeildum. Þá sé ólíklegt að þeir sem standi frammi fyrir lögsóknum af pólitískum ástæðum fái réttláta málsmeðferð vegna þrýstings frá ríkinu.
Þrátt fyrir að stjórnarskrá Rússlands mæli fyrir um sjálfstæði dómstóla landsins þá sé spilling viðvarandi vandamál í dómskerfinu. Bæði dómstólar og löggæsla séu notuð af stjórnvöldum til að kúga íbúa ríkisins. Samkvæmt framangreindum gögnum sé algengt að dómarar láti undan pólitískum þrýstingi þegar dæmt sé í málum andófsmanna sitjandi yfirvalda í Rússlandi. Í Rússlandi starfi umboðsmaður mannréttinda (e. Commissioner of Human Rights) sem hafi gefið út þá yfirlýsingu að hann hyggist beita sér fyrir félagslegum réttindum og því að styðja rússneska ríkisborgara utan Rússlands en litið sé á sem svo að hann hafi mjög takmarkað sjálfstæði. Víða í Rússlandi séu svæðisbundnar skrifstofur umboðsmanns mannréttindamála, en gögn bendi til þess að stjórnvöld grafi kerfisbundið undan sjálfstæði skrifstofanna. Jafnframt sé skilvirkni þeirra ábótavant. Þá hafi mannréttindaráð (e. Council for Civil Society and Human Rights) heimild til að fylgjast með störfum umboðsmannsins.
Alríkislögregla Rússlands nefnist FSB (e. Federal Security Service) og hafi forseti Rússlands yfirumsjón með starfsemi stofnunarinnar. Samkvæmt framangreindum gögnum beri innanríkisráðuneytið, FSB, rannsóknarnefnd (e. the Investigative Committee), skrifstofa saksóknara (e. the Office of the Prosecutor General) og þjóðvarðarliðið (e. the National Guard) ábyrgð á löggæslu í öllu ríkinu. Þá sé FSB ábyrg fyrir öryggi landsins og sinni stofnunin gagnnjósnum, innra öryggi og eftirliti, öryggi landamæra, baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi og skipulagðri glæpastarfsemi. Samkvæmt lögum hafi FSB m.a. aðgang að öllum símtölum, smáskilaboðum, tölvupósti og öðrum aðgerðum sem framkvæmdar séu á veraldarvefnum í Rússlandi. Fjarskiptafélög séu skyldug til að koma upp búnaði sem auðveldi tengingu FSB jafnframt sem símafyrirtæki þurfi að vista gögn viðskiptavina sinna svo að FSB hafi aðgang að þeim.
Í framangreindum gögnum, s.s. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023, kemur fram að stjórnarskrá Rússlands banni pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þrátt fyrir það kveði heimildir á um að lögregluyfirvöld grípi til pyndinga, illrar meðferðar og ofbeldis til að þvinga grunaða einstaklinga til játningar. Þá séu lögreglumenn sem grípi til slíkra aðgerða sjaldnast sóttir til saka og í þau fáu skipti sem það hafi gerst sé refsingin væg. Þá komi jafnframt fram í framangreindum gögnum að stjórnarskrá og önnur landslög kveði á um tjáningar- og fjölmiðlafrelsi en á undanförnum árum hafi stjórnvöld takmarkað þennan rétt í auknum mæli, þ.m.t. frelsi til tjáningar á veraldarvefnum. Ýmis umræðuefni á veraldarvefnum, og þá helst gagnrýni á stjórnvöld, hafi m.a. leitt til lokunar á vefsíðum, sekta og fangelsisvistar. Löggjöf gegn t.d. ,,öfgastarfsemi, landráði og hryðjuverkum“, sem samanstandi af alríkislögum, refsilögum, stjórnsýslulögum og öðrum viðmiðum, hafi verið beitt til að þagga niður í baráttufólki fyrir mannréttindum og meðlimum stjórnarandstöðunnar. Þá eigi rússneska ríkið stóran hlut í hinum ýmsu fjölmiðlum landsins og gæti áhrifa þeirra verulega í rússneskum fjölmiðlum.
Í skýrslu EUAA frá 2022 kemur fram að eftir aðgerðir Rússlands árið 2014 í Úkraínu hafi gagnrýnisraddir verið kveðnar niður af enn meiri hörku. Undir þeim formerkjum að yfirvöld væru að berjast gegn öfgastarfsemi, hafi þau saksótt einstaklinga og samtök fyrir gagnrýni, m.a. á samfélagsmiðlum. Í desember 2020 hafi verið lögfest heimild til að loka vefsíðum sem ógni „velferð“ rússneskra borgara, auk víðtækra takmarkana á efni sem stjórnvöld telji óviðeigandi. Eftir innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022, hafi rými fyrir gagnrýni verið takmarkað enn meira með löggjöf sem leggi bann við útbreiðslu „rangra“ upplýsinga um rússnesk hernaðaryfirvöld og starfsemi í Úkraínu. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 kemur fram stjórnvöld beiti sjálfstæða fjölmiðla verulegum þrýstingi og setji skorður við umfjöllum um fjölmörg málefni. Ritskoðun og sjálfsritskoðun í sjónvarpi og prentmiðlum og á veraldarvefnum sé útbreidd, einkum varðandi sjónarmið sem séu gagnrýnin á ríkisstjórnina eða stefnu hennar. Hinn 5. mars 2022 hafi Pútín undirritað lög sem geri sjálfstæða stríðsfréttamennsku refsiverða og að „dreifa fölskum upplýsingum“ um stríð Rússa í Úkraínu, sem kveði á um allt að 15 ára fangelsisdóm. Hinn 23. mars 2022 hafi efri deildin samþykkt lög sem banni gagnrýni á aðgerðir hersins og stjórnvalda.
Þrátt fyrir að lög kveði á um fundafrelsi sé þessi réttur takmarkaður. Fundir og göngur þurfi leyfi, sem venjulega sé synjað, sérstaklega í kjölfar takmarkana sem kynntar voru af lýðheilsuástæðum í Covid-19 heimsfaraldrinum. Opinberar mótmælagöngur sem séu ekki viðkvæmar í pólitísku tilliti geti fengið leyfi til að fara fram. Litið sé á mótmæli sem hafi ekki leyfi stjórnvalda sem ólögmæt jafnvel þótt friðsamleg séu. Mótmælendur geti átt yfir höfði sér handtöku og varðhald vegna stjórnsýslu- eða sakamála og þeir sem dæmdir hafi verið fyrir mörg brot innan sex mánaða geti fengið sekt eða átt fyrir höfði sér fangelsi allt að fimm árum. Stjórnvöld refsi stundum starfsmönnum fyrir að taka þátt í slíkum mótmælum, til dæmis hafi að minnsta kosti 40 starfsmönnum neðanjarðarlestarkerfisins í Moskvu verið sagt upp fyrir að styðja mótmæli gegn Navalny. Rússnesk stjórnvöld hafi túlkað aðgerðir gegn stríðinu, á mjög víðtækan hátt. Ástæður varðhalds og handtöku geti t.a.m. verið að klæðast fötum í fánalitum Úkraínu og að halda á grænum borðum sem tákni frið. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2022 kemur fram að einstaklingar sem hafi verið virkir í gagnrýni á stjórnvöld eigi á hættu að sæta eftirliti stjórnvalda og umfang þess ráðist af því hversu áberandi viðkomandi og starfsemi hans er. Einstaklingar sem mótmæli innrásinni í Úkraínu kunni að vera saksóttir á grundvelli laga um að dreifa „falsfréttum“ um herinn og hernaðaraðgerðir. Þá kunni mannréttindalögfræðingar, listamenn og fræðimenn að sæta eftirliti og hindrunum í tjáningu sinni í óþökk stjórnvöld. Í skýrslu Freedom House kemur fram að a.m.k. 11.500 mótmælendur hafi verið hnepptir í varðhald, þar á meðal óháðir blaðamenn og mannréttindafrömuðir, og meira en 13 sakamálarannsóknir hafi verið hafnar. Ekki sé ljóst hversu margir eigi yfir höfði sér ákæru vegna andstöðu sinnar við stjórnvöld en í apríl 2022 greindi Deutzche Welle frá því að meira en 300 ásakanir hefðu verið rannsakaðar af yfirvöldum og sakamál höfðuð í 21 máli, á meðan aðrir hafi tilkynnt að minnsta kosti 44 tilvik.
Í skýrslu frá EUAA, frá september 2022, kemur fram að aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé tryggt með lögum í Rússlandi. Heilbrigðisþjónusta sé gjaldfrjáls, þó oft geti reynst erfitt að nálgast hana í dreifbýli. Töluverður munur sé á gæðum heilbrigðisþjónustunnar eftir landsvæðum og þyki þjónustan best í Moskvu. Stærstur hluti heilbrigðiskerfisins í Rússlandi sé ríkisrekinn en einkarekin þjónusta hafi aukist síðasta áratuginn. Eftir árið 2019 hafi orðið vart við skort á lyfjum vegna viðskiptaþvingana sem settar hafi verið af vesturlöndum eftir innlimun Krímskaga árið 2014 og innrás Rússa í Úkraínu þann 24. febrúar 2022. Einnig hafi rússnesk stjórnvöld sjálf dregið úr innflutningi á vörum frá vesturlöndum. Aðgengi að greiningu og meðferð á geðsjúkrahúsum og félagsleg aðstoð við þá sem glími við geðsjúkdóma sé tryggt með lögum. Þá sé fíkniefna- og áfengisvandi meðhöndlaður á sérstöku geðsviði. Geðkerfið í heild sinni hafi forðast að fjalla um nútíma viðfangsefni geðheilbrigðisvanda, svo sem fordóma og félagslega aðlögun. Rétt eins og önnur heilbrigðisþjónusta sé geðheilbrigðisþjónusta greidd samkvæmt sjúkratryggingakerfi ríkisins, aðgangur að bráðri geðþjónustu, þ.m.t. séu sjúkrahúsinnlagnir ókeypis til allra sjúklinga í neyð. Önnur þjónusta sé veitt í gegnum tryggingarkerfið að uppfylltum tilteknum skilyrðum, s.s. varðandi búsetu. Til að veita geðheilbrigðisþjónustu og félagslegan stuðning fyrir þá sem þurfi á henni að halda hafi ríkið komið á fót legudeildum og göngudeildum geðheilbrigðisþjónustu og hafi staðsett þær nálægt heimilum sjúklinga þar sem því verði komið við. Geðlyf séu almennt aðgengileg um allt Rússland en framboð sé betra í þéttbýli. Apótek, einkum lyfjaverslanir tengdar sjúkrahúsum birgi sig upp af lyfjum til að draga úr líkum á lyfjaskorti. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að aukningu lyfjaframleiðsla til að gera Rússland óháð innflutningi á lyfjum. Þá starfi félagasamtök að eflingu geðheilbrigðisþjónustu í landinu.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því aðspurð um ástæður flótta frá heimaríki að eftir innrás Rússa í Úkraínu hafi hún og M orðið hrædd um að Rússland myndi loka sig af og hún gæti ekki séð fjölskyldu sína hér á Íslandi. Þá hafi verið hættulegt að búa á heimasvæði hennar, Mari El, vegna þess að þar væri mikið geymt af hernaðarvopnum. Þá hafi kærandi einnig óttast að M yrði kvaddur í herinn. Hún og M væru á móti stríði og styddu ekki yfirvöld í heimaríki. Þá greindi kærandi frá því að hún hefði tjáð skoðanir sínar um stríðið með stöðufærslu á Facebook og það væri hættulegt þar sem það væri ekki tjáningarfrelsi í heimaríki.
Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtali hennar hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.
Í umfjöllun í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna um stjórnmálaskoðanir í skilningi alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 1951 kemur fram að umsækjandi verði að sýna fram á að hann óttist að verða fyrir ofsóknum vegna þessara skoðana sinna. Gengið sé út frá því að stjórnmálaskoðanir umsækjanda feli í sér gagnrýni á stefnu eða aðferðir stjórnvalda sem séu stjórnvöldum ekki þóknanlegar. Einnig sé gert ráð fyrir að stjórnvöldum sé kunnugt um slíkar skoðanir eða að þau ætli að umsækjandi hafi þær. Við mat á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir á grundvelli stjórnmálaskoðana í skilningi samningsins er þannig ekki skilyrði að viðkomandi hafi skoðanir sem feli í sér gagnrýni á stjórnvöld, heldur aðeins að stjórnvöld ætli að umsækjandi hafi slíkar skoðanir. Samkvæmt e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vísa stjórnmálaskoðanir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laganna einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunna að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar. Með vísan til þess sem fram kemur í umfjöllun í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna verður lagt til grundvallar að ætlaðar stjórnamálaskoðanir geti einnig fallið undir e-lið 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.
Frásögn kæranda um aðstæður í Rússlandi í kjölfar innrásar í Úkraínu er í samræmi við gögn sem kærunefnd hefur skoðað og fjallað hefur verið um hér að framan. Af gögnum er ljóst að stjórnvöld hafa hert verulega að tjáningarfrelsi borgara sinna og taka harkalega á gagnrýni vegna aðgerða sinna í Úkraínu.
Kærandi kvaðst hafa tjáð andúð sína á stríðinu í Úkraínu með stöðufærslu á Facebook 24. febrúar 2022. Á þeim tíma hefðu ekki verið í gildi refsingar fyrir að tjá sig um stríðið. Einhverju síðar hafi verið lokað á Facebook í landinu svo færsla hennar hafi ekki lengur verið vandamál. Við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram skjáskot af Facebook færslu sem sett var inn á miðilinn þann 25. febrúar 2022. Segir kærandi meðal annars í færslunni að rússneskalþýða vilji ekki stríð við Úkraínu, vilji ekki Krímskagann og vilji ekki Donbass. Rússnesk alþýða vilji frið og réttlæti í þeirra eigi landi.
Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að stjórnvöld Rússlandi hafi veitt skoðunum hennar eftirtekt eða að athygli stjórnvalda muni beinast að henni sérstaklega snúi hún aftur til heimaríkis. Kærandi hefur greint frá því að hún óttist almennt ástand í Rússlandi, að eiginmaður hennar verði kvaddur í herinn og að sonur hennar þurfi að gegna herskyldu þegar hann hafi aldur til. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að hún hafi sætt eftirliti eða áreitni af hálfu rússneskra stjórnvalda.
Af gögnum málsins er ljóst að margir rússneskir ríkisborgarar eru mótfallnir stríðsrekstri rússneskra yfirvalda í Úkraínu auk annarra aðgerða stjórnvalda gegn almenningi í landinu og hafa fjölmenn mótmæli verið haldin í stærstu borgum landsins síðastliðið ár. Af gögnum verði ekki annað séð en að þeir sem eigi á mestri hættu að sæta handtöku og refsingu vegna andstöðu sinnar séu þeir sem séu virkir í mótmælum eða njóti vegna stöðu sinnar meiri athygli. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins eru sérstaklega nefndir einstaklingar sem kunni að vera í aukinni hættu á afskiptum stjórnvalda, s.s. listamenn, fræðimenn og einstaklingar sem hafi verið virkir andstæðingar stjórnvalda. Benda gögnin því ekki til þess að almennir borgarar sem mótfallnir séu stríðinu og taki þátt í almennum mótmælum eigi á hættu að sæta aðgerðum af hálfu stjórnvalda í Rússlandi sem nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Kærandi hefur ekki leitt rökstuddar líkur að því að hún sé í aukinni hættu á að sæta aðgerðum af hálfu stjórnvalda í heimaríki sínum vegna stjórnmálaskoðana af einhverjum ástæðum. Verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi eigi á hættu ofsóknir af hálfu rússneskra yfirvalda vegna stjórnmálaskoðana sinna. Þá er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að vera kvödd til að gegna herþjónustu, enda benda heimildir ekki til þess að almenn herskylda sé í gildi fyrir konur í Rússlandi. Sé um sérstaka herkvaðningu að ræða er þó mögulegt að læknar og hjúkrunarfólk verði kallað til herþjónustu, þar á meðal konur sem hluti af varaliði hersins. Gögn málsins og frásögn kæranda benda ekki til þess að hún heyri undir þann hóp enda ekki menntaður læknir eða hjúkrunarfræðingur, hefur að eigin sögn aldrei sinnt herþjónustu og er því ekki skráð í varalið hersins.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún tilheyri Maríj þjóðarbrotinu og sé fædd og uppalin í Maríj El lýðveldinu og hafi búið í höfuðborg lýðveldisins, Yoshkar Ola, áður en hún yfirgaf Rússland í mars 2022. Kærandi bar ekki fyrir sig að hafa orðið fyrir mismunun eða áreiti vegna þess að hún tilheyri Maríj þjóðarbrotinu. Af framangreindum upplýsingum á vef mannréttindavaktarinnar verður ekki ráðið að einstaklingar af Maríj þjóðarbrotinu verði fyrir ofsóknum í Rússlandi. Verður því ekki talið að kærandi og börn hennar eigi á hættu að sæta ofsóknum á grundvelli þjóðernis síns eða af öðrum ástæðum er tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Þá kemur fram í sameiginlegri greinargerð kæranda og M að þau óttist að A verði gert að taka upp herskyldu í framtíðinni. Samkvæmt framlögðu vegabréfi A er hann fæddur í janúar 2012 og því 11 ára gamall. Almenn herskylda fyrir rússneska karlmenn hefst við 18 ára aldur. Að mati kærunefndar er því ljóst að ekki er ástæða til að taka afstöðu til þess hvort að ótti kæranda við mögulega herskyldu A í framtíðinni falli undir skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat samkvæmt 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.
Líkt og að framan greinir voru í greinargerð kæranda og M gerðar athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum A og B. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun ekki tekið skriflega afstöðu til öryggis barna hennar, velferðar þeirra og félagslegs þroska. Þá telur kærandi að það sé annmarki á málsmeðferð Útlendingastofnunarinnar að stofnunin hafi ekki tekið tillit til skoðana barna hennar þar sem þau hafi ekki verið spurð sérstaklega um skoðanir sínar. Í gögnum mála A og B liggja fyrir hljóðupptökur af viðtölum sem tekin voru við þau hjá Útlendingastofnun 17. febrúar 2023. Bæði A og B nutu stuðnings talsmanns í framangreindum viðtölum. A og B voru í viðtölunum meðal annars spurð út líf sitt í Rússlandi, brottför þeirra og foreldra þeirra frá Rússlandi og hvort þau hefðu haft aðgang að menntun og heilbrigðiskerfi í heimaríki. Af viðtölunum má heyra að A og B fengu að tjá sig frjálslega og var þeim gefinn tími og rými til að svara spurningum fulltrúa stofnunarinnar. Þá var talsmanni þeirra gefinn kostur á að koma að spurningum til þeirra. A og B kváðust hafa verið í skóla í heimaríki og haft aðgang að heilbrigðisþjónustu þegar þau hafi þurft þess. Verður ekki annað ráðið af viðtölum við A og B en að þau hafi notið góðrar umönnunar foreldra sinna og að þau hafi lifað öruggu lífi í heimaríki. Greindu þau jafnframt frá því að þau ættu afa og ömmu í heimaríki, foreldra M.
Kærunefnd leggur mat á hagsmuni barnanna samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum mála þeirra og framangreindum aðstæðum í heimaríki þeirra. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum barnanna nægilega komið á framfæri með framburði þeirra og foreldra þeirra auk hagsmunagæslu talsmanns. Kærunefnd telur, að teknu tilliti til ákvæða í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og barnaverndarlögum nr. 80/2002, að engin rök standi í vegi fyrir að börn kæranda fylgi foreldrum sínum til heimaríkis. Kærunefnd horfir m.a. til þess að börnin eru í fylgd foreldra sinna sem eru heilsuhraust og vinnufær og njóta stuðnings þeirra. Þá benda gögn ekki til annars en að fjölskyldan geti búið saman í heimaríki þeirra og að börnum kæranda standi til boða menntun og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska barnanna að það sé þeim fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis.
Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Kærandi vísar til þess að hún og börn hennar sé í hættu í heimaríki vegna ástands þar í landi í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Einkum óttist kærandi að vegna staðsetningar heimaborgar þeirra verði borgin fyrsta og helsta skotmark úkraínska hersins ef til mótaðgerða komi yfir landamærin. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda ekki til þess að öryggisástand í Maríj El og heimaborg kæranda sé með þeim hætti að almennir borgarar, svo sem kærandi og börn hennar, teljist í slíkri hættu að aðstæður þeirra falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður hennar og barna hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Kærandi hefur greint frá erfiðum aðstæðum í heimaríki og að yfirvöld geti ekki veitt henni fullnægjandi vernd. Hún óttist óöryggið og hættuna vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi m.a. til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu og þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í athugasemdunum og ákvæði 43. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur jafnframt fram að erfiðar almennar aðstæður geti tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um aðstæður í Rússlandi telur kærunefnd að almennar aðstæður séu ekki slíkar að grundvöllur sé til veitingar dvalarleyfis á grundvelli erfiðra almennra aðstæðna.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga og í ákvæði 43. gr. a reglugerðar um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún eigi íbúð í heimaríki ásamt M. Hún og M hafi reitt sig á fjárhagsstuðning frá móður og stjúpföður kæranda en þau geti það ekki lengur þar sem rússnesk yfirvöld hafi stöðvað greiðslur erlendis frá. Aðspurð um hvort hún gæti framfleytt sér í heimaríki svaraði kærandi játandi og að það geti allir ef þeir hafi vilja til þess. Það sé þó ekki málið, málið sé að hún vilji öryggi fyrir börn sín og hún sé hrædd um að M verði kvaddur í herinn. Kærandi vilji að fjölskylda sín búi í landi þar sem sé friður og öryggi. Aðspurð um atvinnumöguleika í heimaríki kvað hún erfitt að svara en kvaðst halda að hægt væri að finna láglauna vinnu, svo sem við þrif og fleira.
Kærandi er að eigin sögn fær um að framfleyta sjálfri sér í heimaríki. Kærandi hefur auk þess aðgang að félagslegu kerfi þar í landi hafi hún þörf á því. Þá hafa börn hennar aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu og verður skilið af frásögn kæranda og M að A hafi gengið í skóla og að þau hafi getað leitað til heilbrigðisyfirvalda hafi þau þurft á því að halda. Kærunefnd telur því að félagslegar aðstæður kæranda og barna hennar við komu til heimaríkis séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Af gögnum málsins og frásögn kæranda verður ekki annað séð en að hún og börn hennar séu almennt heilsuhraust. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem nái því alvarleikastigi að hún og börn hennar teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda og barna hennar í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða vernda fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlendinga til svæðis þar sem ekki er tryggt að hún verði ekki send áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Brottvísun og endurkomubann
Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun.Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.
Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt gögnum málanna sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 17. maí 2022 fyrir sig og börn hennar. Eins og að framan greinir hefur umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hafa þau því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinum kærðu ákvörðunum var réttilega bundinn endir á heimild kæranda og barna hennar til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa þeim úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana.
Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 30. janúar 2023, var kæranda tilkynnt að Útlendingastofnun væri með það til skoðunar hvort brottvísa bæri kæranda með endurkomubanni til tveggja ára. Var kæranda gefið færi á að tjá sig um það og hafa uppi andmæli. Í athugasemdum kæranda kemur fram að hún hafi tengsl við Ísland þar sem móðir hennar búi hér á landi ásamt stjúpföður kæranda. Kærandi en telji það ósanngjarna ráðstöfun að brottvísa henni með endurkomubanni þar sem hún sé einkabarn móður sinnar. Óttist fjölskylda kæranda hér á landi að landamæri Rússlands við Evrópu muni lokast og þau muni ekki geta séð hana aftur í mörg ár.
Samkvæmt 17. tölul. 3. gr. laga um útlendinga nær hugtakið nánustu aðstandendur yfir maka, sambúðarmaka, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldra 67 ára og eldri. Af framlögðu bréfi móður og stjúpföður kæranda, dags. 1. febrúar 2023, má sjá að móðir kæranda er fædd 28. ágúst 1962 og er því 61 árs gömul. Með vísan til þess er ljóst að móðir kæranda teljist ekki nánasti aðstandandi kæranda í skilningi laga um útlendinga.
Af þeim svörum sem kærandi gaf um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun þeirra og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð þeirra eða fjölskyldu kæranda, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að Kærandi getur komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hún Ísland innan þess frest sem þeim er gefinn.
Í ákvörðunarorðum í ákvörðunum Útlendingastofnunar var kæranda og börnum hennar brottvísað og kæranda ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið og tekið fram að yfirgefi hún landið sjálfviljug innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður.
Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda og barna hennar til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda og fellur niður yfirgefi hún landið sjálfviljug innan framangreinds frests.
Kærunefnd hefur með úrskurði sínum nr. 471/2023 fellt úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli eiginmanns kæranda og föður barna hennar. Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar kemur úrskurður þessi ekki til framkvæmda fyrr en endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi liggur fyrir í máli hans.
Leiðbeiningar til kæranda
Í sameiginlegri greinargerð sinni byggja kærandi og M kröfu um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á því að þau hafi náin tengsl við ættmenni hér á landi. Búi móðir kæranda ásamt eiginmanni sínum, stjúpföður kæranda, hér á landi. Þá tali kærandi íslensku og hafi starfað og gengið í skóla hér á landi. Að mati kæranda séu tengsl hennar við landið djúp og mikil og hér eigi hún enn í dag greitt aðgengi að vinnu og félagslegt net og þurfi einskis frá íslenskum stjórnvöldum.
Í 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.
Kæranda er leiðbeint um að sækja um dvalarleyfi á þeim grundvelli hjá Útlendingastofnun. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd hins vegar ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi fullnægi skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana eru þær staðfestar.
Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar í málum kæranda og barna hennar. Endurkomubann kæranda verður fellt úr gildi fari hún sjálfviljug frá Íslandi innan 15 daga. Frestur til sjálfviljugrar heimfarar hefst ekki fyrr en endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi liggur fyrir í máli eiginmanns kæranda.
The decisions of the Directorate of Immigration in the appellant´s and her children´s cases are affirmed. If the appellant leaves Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry bans will be revoked. The period for voluntary departure will not begin until a decision on the administrative level regarding the appellant’s husband is final.
Þorsteinn Gunnarsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir