Fæðingarfistilsverkefni hleypt af stokkunum í Síerra Leóne
Í gær, á alþjóðlegum degi baráttunnar gegn fæðingarfistli, var samstarfsverkefni Íslands, Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, og heilbrigðisyfirvalda í Síerra Leóne formlega hleypt af stokkunum við hátíðlega athöfn í Freetown. Verkefnið miðar að því að útrýma fæðingarfistli í landinu.
Verkefnið tekur á heildstæðan hátt á orsökum og afleiðingum fæðingarfistils fyrir konur og stúlkur. Það snýr meðal annars að fyrirbyggjandi aðgerðum um vitundarvakningu, fræðslu og betra aðgengi að bættri mæðravernd. Einnig er áformað að auka framboð á skurðaðgerðum og bæta eftirfylgd með þeim konum og stúlkum sem gangast undir skurðaðgerðir með valdeflandi verkefnum sem renna stoðum undir lífsafkomu þeirra.
Náið verður unnið með stjórnvöldum í Síerra Leóne við innleiðingu verkefnisins og lögð áhersla á að efla getu heilbrigðisstofnana til að veita viðunandi fæðingar-, kyn- og frjósemisþjónustu.
Ísland hefur um árabil stutt alþjóðlegu baráttuna gegn fæðingarfistli sem leidd er af Mannfjöldasjóði Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal verkefni sjóðsins í Malaví og Síerra Leóne. Fæðingarfistill er viðvarandi vandamál í fátækustu löndunum þar sem margar barnungar stúlkur eignast börn en fæðingarfistill þekkist varla á Vesturlöndum. Talið er að þúsundir kvenna og stúlkna þjáist af fæðingarfistli í heiminum, flestar í ríkjum Afríku.