Hoppa yfir valmynd
26. mars 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr.512/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 512/2019

Fimmtudaginn 26. mars 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 2. desember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. október 2019, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 21. mars 2019. Í byrjun september 2019 var kærandi boðaður í atvinnuviðtal hjá B. Í viðtalinu tjáði kærandi atvinnurekanda að hann væri fluttur á höfuðborgarsvæðið og gæti því ekki tekið við starfinu. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. október 2019, var kæranda tilkynnt að honum bæri að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 vegna höfnunar á atvinnutilboði. Tölvupóstur barst frá kæranda þar sem hann óskaði eftir að ákvörðunin yrði felld niður og tók fram að hann væri ekki að leita að vinnu á Vesturlandi. Vinnumálastofnun tók mál kæranda fyrir að nýju og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. október 2019, var kæranda tilkynnt að honum bæri að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga þar sem hann hefði látið hjá líða að tilkynna um breytt aðsetur. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun 17. október 2019 þar sem hann mótmælti niðurstöðu stofnunarinnar. Mál kæranda var í kjölfarið tekið til umfjöllunar að nýju og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 22. október 2019, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun í máli hans væri staðfest og að honum bæri að taka út biðtíma á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. desember 2019. Með bréfi, dags. 3. desember 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 3. janúar 2020 og með bréfi, dags. 7. janúar 2020, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið tekinn af atvinnuleysisbótum og að hann mótmæli úrskurði Vinnumálastofnunar frá 15. október 2019 sem hann telji vera rangan. Fyrir liggi staðfesting um að kærandi hafi látið starfsmann hjá Vinnumálastofnun á Akranesi vita að hann væri lítið sem ekkert fyrir vestan. Hann væri með herbergi í Reykjavík að bíða eftir húsnæði þar sem hann hygðist stunda vinnu. Jafnframt komi fram í Þjóðskrá að kærandi búi í C en það hafi verið dregið í efa af starfsmanni Vinnumálastofnunar sem hafi hundsað í úrskurði stofnunarinnar. Þetta hafi kærandi gert skriflega 21. júní 2019 og hafi jafnframt minnst oftar en einu sinni á það munnlega við starfsmann Vinnumálastofnunar að hann væri í atvinnuleit á höfuðborgarsvæðinu.

Kærandi vilji sérstaklega taka fram að hann hafi aldrei hafnað neinni vinnu heldur hafi það verið ómögulegt fyrir kæranda að stunda vinnu í B, búsettur í C, sem starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi vitað af og sé skráð í Þjóðskrá Íslands. Ekkert hafi verið tekið tillit til þess að kærandi hafi upplýst starfsmann Vinnumálastofnunar um að hann væri skráður til heimilis í C og sé honum því nauðugur einn kostur að kæra úrskurð Vinnumálastofnunar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum markaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Í 14. gr. laganna séu talin upp almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna og hvað felist í því að vera virkur í atvinnuleit. Meðal annars segi í e-lið ákvæðisins að það sé skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi sé reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi. Þá segi í i-lið 1. mgr. ákvæðisins að atvinnuleitandi þurfi að vera reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á þessari upplýsingaskyldu hins tryggða. Mál þetta snúi að því hvort kærandi hafi veitt nægjanlegar upplýsingar um stöðu sína og þá hvort gildar ástæður séu fyrir höfnun hans á atvinnutilboði hjá B. Kærandi hafi verið skráður með lögheimili á Vesturlandi en hefði einnig lýst sig reiðubúinn til að starfa á höfuðborgarsvæðinu í umsókn sinni um atvinnuleysistryggingar. Líkt og að framan greinir sé það grundvallarskilyrði að atvinnuleitendur gefi Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur sínar á að fá starf við hæfi. Það sé afar þýðingarmikið að réttar upplýsingar liggi fyrir en að öðrum kosti sé erfitt að miðla einstaklingum í störf eða bjóða þeim viðeigandi úrræði og aðstoð.

Í kæru til úrskurðarnefndar haldi kærandi því fram að hann hafi tjáð fulltrúa Vinnumálastofnunar að hann væri einungis að leita sér að vinnu á höfuðborgarsvæðinu og að hann hefði upplýst um dvalarstað sinn í Reykjavík. Þá telji kærandi að Vinnumálastofnun hafi að ósekju ekki tekið tillit til þess að hann væri með skráð lögheimili í C. Lýsingar kæranda á málavöxtum séu í engu samræmi við staðreyndir í máli hans. Meðal meðfylgjandi gagna sé að finna samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun þar sem ítarlega sé gerð grein fyrir samskiptum kæranda við fulltrúa stofnunarinnar. Þar megi meðal annars sjá fjölmargar tilraunir til að boða kæranda í viðtöl, bæði í Reykjavík og á Akranesi, sem honum hafi reynst erfitt að verða við sökum þess að hann var í öðrum landshlutum. Þá megi sjá ítrekaðar tilraunir starfsfólks Vinnumálastofnunar til að fá skýr svör við því hvar hann hafi verið með aðsetur og hvort hann væri fremur að leita sér að starfi á Vesturlandi eða á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi hafi aldrei veitt afgerandi svör við því, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir frá ráðgjafa stofnunarinnar.

Kærandi telji einnig að Vinnumálastofnun hafi við mat á því hvort honum bæri að sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, borið að taka tillit til lögheimilisskráningar síns hjá Þjóðskrá Íslands. Kærandi hafi fært fram ódagsett skjáskot af heimilisfangi hans og póstnúmeri í C. Hið rétta sé að kærandi hafi verið með skráð lögheimili í E. Það hafi ekki verið fyrr en honum hafi verið boðið starf á Vesturlandi sem hann hafi fært lögheimili sitt. Kæranda hafi verið boðið starf hjá B í byrjun september 2019. Ferilskrá hans hafi verið send vinnuveitanda 12. september og kærandi hafi í kjölfarið verið boðaður í viðtal hjá fyrirtækinu. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hafi kærandi flutt lögheimili sitt að C þann 19. september 2019.

Vinnumálastofnun telji að kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna stofnuninni um nauðsynlegar upplýsingar sem hafi verið til þess fallnar að auka líkur hans á að fá starf við hæfi sem hafi haft bein áhrif á rétt hans til atvinnuleysistrygginga. Við mat á því hvort kæranda beri að sæta viðurlögum á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar beri einnig að hafa í huga e-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar sé með berum orðum tekið fram að atvinnuleitandi skuli vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi.

Í ljósi alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum samkvæmt 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 þar sem fram kemur að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., án ástæðulausrar tafar. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 14. gr. þarf hinn tryggði að vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi og samkvæmt i-lið ákvæðisins þarf hinn tryggði að vera reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi.

Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun var hann með lögheimili á Vesturlandi og því sjálfkrafa skráður í atvinnuleit á því svæði. Kærandi lýsti sig þó reiðubúinn til að starfa á höfuðborgarsvæðinu og var þá leiðbeint um að skrá sig í atvinnuleit þar og skrá aðsetur í Reykjavík. Af fyrirliggjandi samskiptasögu má sjá að kæranda var leiðbeint um það í nokkur skipti og tekið fram að það væri mikilvægt að hafa rétta skráningu til að auka líkur á að fá starfi við hæfi. Ljóst er af samskiptasögunni að kærandi gerði það ekki fyrr en eftir að atvinnutilboð barst frá fyrirtæki á Vesturlandi.

Í ljósi framangreindrar upplýsingaskyldu verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stofnuninni er hann tilkynnti ekki án ástæðulausrar tafar að hann væri ekki í atvinnuleit á Vesturlandi. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. október 2019, um að fella niður bótarétt A í tvo mánuði er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta