Hoppa yfir valmynd
2. september 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Þörf á alþjóðlegu átaki gegn plastmengun í hafi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra hvetur til þess að nýr alþjóðasamningur verði gerður til að takast á við plastmengun í hafi. Plastrusl og örplast finnist nú nær alls staðar í umhverfinu og brýnt sé að takast á við vandann á hnattrænan hátt.

Ráðherra tók þátt í alþjóðlegri ráðstefnu 1.-2. september um rusl í hafi og plastmengun, sem fjögur ríki stóðu fyrir: Þýskaland, Ekvador, Gana og Víetnam. Með ráðstefnunni vilja ríkin hvetja til gerðar alþjóðlegs samnings gegn plastmengun, einkum í hafi og undirbúa ferli hvað það varðar innan ramma Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP).

Inger Andersen, framkvæmdastjóri UNEP, sagði í inngangi sínum að ráðherraumræðum á ráðstefnunni að vinna þurfi gegn plastmengun á heildstæðan hátt. Koma þurfi á hringrás plasts í hagkerfinu, en taka það úr hringrás í höfunum og hinu náttúrulega umhverfi.

Ráðherra sagði í innleggi sínu að Norðurlöndin hefðu hvatt til gerðar alþjóðlegs samnings og gefið út skýrslu um hvernig slíkur samningur gæti litið út og til hvaða þátta hann þyrfti að taka. Framtak ríkjanna fjögurra og ráðstefnan nú væri annað mikilvægt skref til að móta slíkan samning þannig að hann komi að raunverulegu gagni við að taka á vandanum.

Ísland ásamt Norrænu ráðherranefndinni stóð fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um plastmengun á Norðurslóðum fyrr á þessu ári í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Ráðherra greindi frá niðurstöðum hennar og sagði skilaboð vísindamanna vera skýr: Plastrusl og örplast fyndust nú víða á Norðurslóðum, frá ströndum til djúpsjávar og hluti þess kæmi langt að. Einstök ríki geti ekki tekið nægilega fast á vandanum án alþjóðlegrar samvinnu. Þörf sé á sameiginlegri sýn og metnaðarfullum markmiðum og nauðsynlegt að móta á grunni þeirra aðgerðir og fjármögnun til þróunarríkja sem þurfi aðstoð til að taka á vandanum. Ráðherra hvatti ríki heims til að taka stórt skref á Umhverfisþingi S.þ. í febrúar 2022 og setja í gang viðræður um gerð alþjóðasamnings gegn plastmengun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta