Hvatt til þátttöku – Myndbönd ætluð ungu fólki
Samband íslenskra sveitarfélaga hvetur fólk til að nýta atkvæðisrétt sinn í komandi sveitarstjórnarkosningum. Bent er á að kosningaþátttaka hafi farið minnkandi á undanförnum áratugum. Í kosningunum árið 2010 var þátttaka sú lægsta í 40 ár eða 73,5% og lækkaði um 5,2 % frá kosningunum 2006. Á tímabilinu 1970 til 2010 var kosningaþátttaka mest árið 1974 eða 87,8%. Þátttakan í kosningunum 2010 var því 14,3% lægri en árið 1974.
Ákveðin vatnaskil, á íslenskan mælikvarða, í kosningaþátttöku til sveitarstjórna urðu þó í reynd fyrst í tveimur síðustu sveitarstjórnarkosningum, árin 2006 og 2010, þegar þátttakan fór undir 80% markið. Á meðfylgjandi mynd sést þróunin frá 1970-2010.
Í frétt á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að í öðrum norrænum ríkjum hafi sama þróun átt sér stað – færri nýti sér kosningaréttinn en áður. Þar hefur kosningaþátttakan verið greind eftir aldurshópum og uppruna. Komið hefur í ljós að yngri kjósendur og innflytjendur hafa síður nýtt sér kosningarréttinn en hinir sem eldri eru eða þeir sem eru innfæddir.
Þátttaka í sveitarstjórnarkosningum hefur ekki verið greind með þessum hætti hérlendis. Þar af leiðandi verður ekki fullyrt með neinni vissu að yngri kjósendur séu ekki að nýta sér kosningarréttinn í sama mæli og þeir sem eldri eru. Samband íslenskra sveitarfélaga telur þó að ætla megi að sama þróun sé uppi á teningnum hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum.
Sambandið hefur því látið gera myndbönd til þess að vekja athygli á komandi kosningum og eiga þau að höfða sérstaklega til ungs fólks. Einstaklingar eru hvattir til þess að taka þátt í kosningunum og hafa þar með áhrif á hverjir stýra sveitarfélögunum á kjörtímabilinu 2014–2018. Myndböndin eru með íslenskum, enskum og pólskum undirtexta.
Sjá frétt og myndbönd á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga.