Hoppa yfir valmynd
19. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 666/2020 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 666/2020

Miðvikudaginn 19. maí 2021

 

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. desember 2020, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. september 2020 um að synja beiðni um endurupptöku ákvarðana stofnunarinnar um hlutfallslegar greiðslur endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. september 2009 til 28. febrúar 2011.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu 1. september 2009 til 28. febrúar 2010 í samræmi við 79,84% búsetuhlutfall og frá 1. mars 2010 til 28. febrúar 2011 í samræmi við 78,22% búsetuhlutfall. Þá fékk kærandi greiddan endurhæfingarlífeyri frá 1. júlí 2015 til 1. júní 2016 í samræmi við 100% búsetuhlutfall. Þann 7. júlí 2020 fór umboðsmaður kæranda fram á endurupptöku ákvarðana um búsetuskerðingu lífeyrisgreiðslna frá árinu 2009. Beiðni kæranda um endurupptöku á útreikningi á búsetuhlutfalli endurhæfingarlífeyris var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. september 2020, á þeim forsendum að í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru mál ekki tekin upp á nýjan leik ef meira en ár væri liðið frá þeirri ákvörðun sem óskað væri endurupptöku á, nema veigamiklar ástæður mæltu með því.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. desember 2020. Með bréfi, dags. 17. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. janúar 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 20. janúar 2021. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 15. febrúar 2021, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 16. febrúar 2021. Viðbótargreinargerð barst fá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 25. mars 2021, og var hún send umboðmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. mars 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. september 2020, um að synja beiðni um endurskoðun/endurupptöku útreiknings á búsetuhlutfalli endurhæfingarlífeyris verði felld úr gildi. Þess er krafist að búsetuhlutfall kæranda verði 100% fyrir tímabilið 1. september 2009 til 1. mars 2011 eins og fyrir greiðslur endurhæfingarlífeyris frá 1. júlí 2015 til 1. júní 2016.

Tryggingastofnun hafi reiknað út að búsetuhlutfall endurhæfingarlífeyris til kæranda frá 1. september 2009 til 1. mars 2010 væri 79,84% og hafi greitt kæranda sama hlutfall af endurhæfingarlífeyri og tengdum greiðslum. Með úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 178/2009, dags. 25. nóvember 2009, hafi ákvörðun Tryggingastofnunar um að skerða endurhæfingarlífeyri vegna fyrri búsetu erlendis verið felld úr gildi. Eins og komi fram í úrskurðinum hafi ekki verið kveðið á um það með beinum hætti í lögum um félagslega aðstoð að endurhæfingarlífeyri skuli skerða vegna búsetu erlendis og engar lagabreytingar hafi átt sér stað sem hafi kallað á hina nýju verulega íþyngjandi framkvæmd Tryggingastofnunar. Þrátt fyrir úrskurðinn hafi endurhæfingarlífeyri til kæranda ekki verið leiðréttur.

Með lögum nr. 120/2009, sem hafi tekið gildi 1. janúar 2010, hafi eftirfarandi verið sett inn í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð: „Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga.“

Ákvæði þetta gefi Tryggingastofnun ekki viðhlítandi lagaheimild til að skipta framreiknuðum búsetutíma kæranda hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila á milli Íslands og C eins og Tryggingastofnun hafi gert á því tímabili sem kæranda hafi fengið endurhæfingarlífeyri greiddan, fyrst með 79,84% og síðan 78,22% búsetuhlutfall, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8955/2016.

Tryggingastofnun hafi greitt kæranda endurhæfingarlífeyri með 100% búsetuhlutfalli frá 1. júlí 2015. Samkvæmt útreikningsreglu fyrir búsetuhlutfall örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, sem hafi stoð í lögum um almannatryggingar, beri að reikna öll árin fram til 67 ára aldurs sem búsetu á Íslandi. Sé búsetuhlutfall kæranda reiknað út á þennan hátt sé niðurstaðan 100% búsetuhlutfall (búseta á Íslandi fram til fyrsta mats + tíminn frá fyrsta örorkumati fram til 67 ár aldurs deilt með 40). Ekki sé annað að sjá en að endurhæfingarlífeyrir til kæranda frá 1. júlí 2015 hafi verið greiddur út frá þessari reikningsreglu. Tryggingastofnun hafi því í raun viðurkennt að réttur útreikningur á búsetuútreikningi kæranda væri 100%.

Eins og komi fram í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 14. september 2017, hafi við útreikning á búsetuhlutfalli kæranda fyrir endurhæfingarlífeyri verið beitt hlutfallslegum framreikningi, þ.e. búsetuhlutfall kæranda á Íslandi á tímabilinu frá 16 ára aldri til 1. september 2009 hafi verið fundið út og það hlutfall síðan framreiknað til 67 ára aldurs með því að skipta framtíðarbúsetu kæranda á milli Íslands og C eftir sömu hlutföllum á búsetu á framangreindu tímabili.

Í máli kæranda hafi Tryggingastofnun beitt sömu útreikningsreglu og umboðsmaður Alþingis hafi í áliti nr. 8955/2016 talið að ekki væri lagastoð fyrir í því tiltekna tilviki. Það sama eigi við í máli kæranda. Umboðsmaður hafi í áliti sínu beint þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar og Tryggingastofnunar að leysa með sama hætti úr öðrum málum sem lokið hafi verið með hliðstæðum hætti. Jafnframt hafi umboðsmaður mælst til þess að stjórnvöld tækju mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu í framtíðarstörfum sínum.

Endurupptökubeiðnin sé byggð á því að upphafleg ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið röng, þ.e. útreikningur búsetuhlutfalls hafi verið rangur miðað við þau gögn sem hafi legið fyrir þegar ákvörðunin hafi verið tekin og viðeigandi lagaákvæði sem hafi ekki heimilað skerðingu vegna fyrri búsetu erlendis. Því sé ekki þörf á nýjum gögnum þar sem fullnægjandi upplýsingar hafi verið til staðar frá upphafi.

Tryggingastofnun hafi borið að taka rétta ákvörðun í upphafi og hafi einnig borið að leiðrétta fyrri ákvarðanir þegar stofnunin hafi fengið vitneskju um að þær væru rangar. Tryggingastofnun hafi verið í vondri trú um ákvörðun um búsetuhlutfall, enda hafi stofnunin mátt vita að ákvörðunin væri röng. Hafi sú vitneskja ekki verið til staðar liggi hún að minnsta kosti fyrir nú. Þrátt fyrir þetta hafi engar viðhlítandi skýringar verið gefnar fyrir því að búsetuhlutfall kæranda hafi ekki verið leiðrétt fyrir greiðslur endurhæfingarlífeyris, þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 191/2009 og álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8955/2018.

Þau tímamörk, sem komi fram í ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga, séu sett til þess að koma í veg fyrir að verið sé að endurupptaka mjög gömul mál sem erfitt geti verið að upplýsa, eins og skýrt komi fram í lögskýringargögnum með frumvarpi sem hafi orðið að stjórnsýslulögum. Regluna beri að túlka með hliðsjón af því og af því leiði að þegar allar upplýsingar liggi fyrir og engin vandi sé að endurupptaka mál, séu engin rök fyrir því að stjórnvald sleppi því. Tímamörk ákvæðisins séu fyrst og fremst til þess að gæta að hagsmunum annarra borgara þannig að ekki sé verið að endurupptaka og jafnvel breyta gömlum málum sem varði réttindi og skyldur annarra borgara. Þessi sjónarmið eigi ekki við um Tryggingastofnun, enda hafi stjórnvaldið enga aðra hagsmuni en þá að taka réttar ákvarðanir í samræmi við lög og atvik máls.

Auk alls framangreinds sé hægt að víkja frá tímamörkum þegar „veigamiklar ástæður“ séu til staðar. Það séu veigamiklar ástæður fyrir endurupptöku að stjórnvald taki ranga ákvörðun sem leiði til þess að borgarinn fái ekki þann rétt sem hann eigi. Mistök Tryggingastofnunar við útreikning lífeyrisgreiðslna geti ekki leitt til skerðinga á réttindum kæranda, jafnvel þótt mistökin séu komin til ára sinna. Stofnunin geti ekki beitt fyrir sig tímatakmörkunum til þess að reyna að koma í veg fyrir að niðurstaða málsins verði rétt. Ef í ljós komi að ákvörðun sé röng, beri Tryggingastofnun hallann af því en ekki einstaklingurinn. Réttindi einstaklingsins eigi að miða við það sem sé rétt niðurstaða miðað við atvik máls, jafnvel þótt það komi síðar fram. Komi í ljós að ákvörðun hafi verið röng, beri Tryggingastofnun að leiðrétta ákvörðunina.

Auk þess geti stjórnvald alltaf afturkallað ákvörðun samkvæmt almennum reglum og 25. gr. stjórnsýslulaga. Verði litið svo á að skilyrði endurupptöku séu ekki til staðar sé rétt að úrskurðarnefndin beini því til Tryggingastofnunar að afturkalla ákvörðun, enda megi ljóst vera af gögnum málsins að kærandi hafi átt að fá greiddan endurhæfingarlífeyri með 100% búsetuhlutfalli frá upphafi endurhæfingarlífeyrisgreiðslna 1. september 2009.

Aðalatriði málsins sé að ná fram afturvirkri leiðréttingu til þess að leiðrétta það sem aflaga hafi farið í upphafi þannig að borgarinn fái réttindi sín að fullu. Það eina sem eigi að skipta Tryggingastofnun máli sé að borgarinn fái rétta niðurstöðu. Rétt sé að minna á að réttindi samkvæmt lögum um almannatryggingar eigi sér stoð í 76. gr. stjórnarskrárinnar og slík réttindi falli ekki niður.

Kærandi og umboðsmaður hans áskilji sér rétt til þess að bæta við málsástæðum og gögnum á seinni stigum málsins.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 15. febrúar 2021, segi að ákvörðun um 78,94% búsetuhlutfall hafi verið röng og að Tryggingastofnun sé skylt að leiðrétt hana.

Ákvörðun Tryggingastofnunar um að skerða endurhæfingarlífeyri vegna fyrri búsetu erlendis frá september til desember 2009 sé ólögmæt, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 178/2009. Tryggingastofnun hafi borið að leiðrétta endurhæfingarlífeyrisgreiðslur til kæranda og annarra í sömu stöðu í kjölfar úrskurðarins en hafi ekki gert það. Það sé því bæði röng og íþyngjandi ákvörðun fyrir kæranda að stofnunin skuli ekki hafa aðhafst og leiðrétt greiðslurnar til hans eftir að úrskurðurinn hafi legið fyrir.

Tryggingastofnun sé stjórnvald sem hafi það eina hlutverk að leysa úr málum með réttum hætti, þ.e. samkvæmt réttri túlkun lagaákvæða. Tryggingastofnun hafi fengið vitneskju um að stofnunin hefði túlkað reglur um búsetuhlutfall endurhæfingarlífeyris með röngum hætti. Það hafi gerst í síðasta lagi þegar úrskurður hafi verið kveðinn upp í máli nr. 178/2009. Eftir að niðurstaðan hafi legið fyrir hafi Tryggingastofnun borið að leiðrétta alla sem hafi fengið ákvörðun á grundvelli rangrar beitingar reglnanna.

Þessi skylda Tryggingastofnunar felist í hlutverki hennar sem stjórnvald og lögmætisreglunni. Hlutverk stofnunarinnar sé einungis að leysa úr málum með réttum hætti í samræmi við rétta túlkun á gildandi reglum. Þegar stjórnvaldi sé kunnugt um ranga ákvörðun beri að leiðrétta hana þannig að hún verði rétt. Afturköllun ólögmætra ákvarðana byggi einnig á þessu sjónarmiði, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og almennum meginreglum en afturköllun sé nátengd endurupptöku. Þá fái sama niðurstaða einnig stoð í jafnræðisreglunni, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, enda sé stjórnvaldi skylt að leysa úr sambærilegum málum með sambærilegum hætti. Þegar Tryggingastofnun hafi komist að því að stofnunin hafi beitt tilteknum reglum með röngum hætti hafi stofnuninni borið að leiðrétta öll tilvik sem höfðu fallið undir ranga beitingu reglunnar.

Afstaða Tryggingastofnunar í þessu máli virðist aftur á móti vera sú að koma með öllum ráðum í veg fyrir að röng ákvörðun verði tekin til endurskoðunar. Sú afstaða sé í andstöðu við markmið og tilgang stofnunarinnar. Tryggingatofnun eigi ekki að „verja“ rangar ákvarðanir án nokkurrar sjáanlegrar ástæðu eða reyna að koma í veg fyrir leiðréttingu ákvörðunar sem sé óumdeilanlega röng.

Skilyrði endurupptöku séu til staðar. Eftir að 7. gr. laga um félagslega aðstoð hafi verið breytt með lögum nr. 120/2009 með gildistíma frá 1. janúar 2010 hafi búsetuhlutfallsútreikningur fyrir endurhæfingarlífeyri til kæranda verið rangur. Eins og komið hafi fram í kæru hafi ákvæðið ekki veitt Tryggingastofnun viðhlítandi lagaheimild til að skipta framreiknuðum búsetutíma kæranda hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila á milli Íslands og C. Árið 2015 hafi Tryggingastofnun leiðrétt og hækkað búsetuhlutfallið í 100% og stofnunin hafi því í raun viðurkennt að réttur útreikningur á búsetuhlutfalli kæranda væri 100%.

Tryggingastofnun byggi synjun um endurupptöku örorkumats kæranda á því að „ekki verði annað séð en að kærandi hefði fengið rétta afgreiðslu á sínum tíma og því ekki hægt að sjá veigamiklar ástæður séu til að endurupptaka málið.“ Þessi fullyrðing sé ekki studd neinum gögnum og sé raunar í andstöðu við gögnin sem bendi til þess að afgreiðslan hafi verið röng á sínum tíma. Þetta hafi verið rakið í kæru og í athugasemdum kæranda við greinargerð stofnunarinnar. Rétt sé að Tryggingastofnun útskýri það nánar hvernig stofnunin telji að kærandi hafi fengi „rétta afgreiðslu á sínum tíma“. Tryggingastofnun hafi ekki útskýrt það í athugasemdum sínum, enda hafi stofnunin forðast að ræða aðalatriði málsins, þ.e. að ákvörðunin sé augljóslega röng og ámælisvert sé að stofnunin hafi ekki leiðrétt hana að eigin frumkvæði fyrir mörgum árum.

Kærandi megi, eins og aðrir borgarar, gera ráð fyrir og treysta að stjórnvöld leysi rétt úr málum þeirra. Regluverk almannatrygginga sé mjög flókið, sérstaklega búsetuhlutfallsreglur og útreikningar. Kærandi hafi ekki verið í neinni stöðu til þess að átta sig á því að hann hafi verið hlunnfarinn um lífeyrisgreiðslur. Hins vegar hafi Tryggingastofnun verið skylt að leiðrétta ákvörðun um búsetuhlutfall endurhæfingarlífeyris hjá kæranda og öllum öðrum í sambærilegum málum. Tryggingastofnun hafi ekki verið heimilt að ætlast til þess að fólk hefði frumkvæði að því að óska eftir breytingu á ákvörðunum sem stofnunin hafi vitað að hafi verið rangar.

Auk tímafrestsins í 24. gr. stjórnsýslulaga byggi endurupptaka á óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar. Samkvæmt þeim eigi aðili rétt á því að mál hans verði endurupptekið ef í ljós komi að lagalegar forsendur ákvörðunar hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin, til dæmis í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndar eða umfjöllunar umboðsmanns Alþingis. Öðrum en þeim sem séu beinlínis aðilar að málum kærunefnda/umboðsmanns sé vanalega ekki tilkynnt um úrlausn þeirra. Aðrir í sambærilegri stöðu hafi því ekki vitneskju um að komin sé niðurstaða sem hafi gildi fyrir þeirra ákvörðun.

Það hafi mikla þýðingu við túlkun fresta, upphaf þeirra og lengd hvort ákvörðun hafi verið röng vegna mistaka stjórnvalds. Þá hafi það sérstaka þýðingu ef framkvæmd stjórnvaldsins brjóti gegn jafnræðisreglu, þ.e. ef stjórnvald vissi af því að sambærileg mál hafi ekki verið leyst með sambærilegum hætti.

Ársfresturinn geti auk þess ekki átt við þar sem engir andstæðir hagsmunir séu gegn því að leiðrétta ákvörðunina. Engin réttindi annarra skerðast við það. Ársfresturinn sé ekki settur stjórnvöldum í hag og þau geti ekki skýlt sér á bak við hann. Fresturinn sé ekki ætlaður til þess að stjórnvald „komist upp með“ að taka ranga ákvörðun og sleppa því að leiðrétta hana, jafnvel þótt óumdeilt sé að ákvörðunin sé röng.

Um þessi atriði megi nánar vísa til greinar Þorvaldar Heiðars Þorsteinssonar Endurupptaka og afturköllun stjórnvaldsákvörðunar, sem hafi birst í Úlfljóti, 1. tölublaði 2014. Niðurstaða þeirrar greinar sé í samræmi við framangreind sjónarmið:

„Í hvert sinn sem færð eru rök fyrir því að að verulegar líkur séu á að tiltekin ákvörðun eða málsmeðferð hafi ekki verið í samræmi við lög stofnist skylda fyrir stjórnvaldið til að endurupptaka mál“

Framangreind umfjöllun sé einnig rökstuðningur fyrir afturköllun Tryggingastofnunar á ákvörðuninni, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga og almennar reglur. Tryggingastofnun sé skylt að endurupptaka og engir tímafrestir gildi um afturköllun.

Tryggingastofnun haldi því fram að krafa kæranda sé fyrnd, framsetningin sé eins og það sé óhagganleg staðreynd. Hið rétta sé þó að kröfur fyrnist ekki af sjálfu sér, þær séu til. Tryggingastofnun verði að bera fyrir sig fyrningu. Það sé sem sagt val stofnunarinnar hvort hún vilji reyna að komast undan kröfum með þessum hætti. Slíkt sé ekki tímabært en það sem meira sé, sé það ekki hluti þessa máls.

Úrskurðarnefnd velferðarmála fjalli um ágreining um túlkun laga og reglna um almannatryggingar. Nefndin fjalli ekki um kröfuréttarleg álitaefni eins og fyrningu, dráttarvexti og fleira eins og nefndin hafi sjálf kveðið á um. Fyrning fjárkröfu sé ekki til umfjöllunar í þessu máli heldur ákvörðun um búsetuhlutfall.

Hvort og þá hvaða fjárkröfur stofnist í kjölfar slíkrar leiðréttingar verði ekki ákveðið í þessu máli. Auk þess séu atriðin umdeild en stefnumarkandi mál um upphaf og lengd fyrningarfrests sé til umfjöllunar fyrir dómstólum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á beiðni um endurupptöku á búsetuhlutfalli endurhæfingarlífeyris.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. sé svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik,

    eða

  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Réttur á einstökum mánaðarlegum greiðslum lífeyris almannatrygginga fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 6. gr. sömu laga.

Erindi kæranda um endurupptöku útreiknings á búsetuhlutfalli endurhæfingarlífeyris sé dagsett 7. júlí 2020 og hafi borist stofnuninni í tölvupósti. Í erindinu sé gerð krafa um að búsetuhlutfall við útreikning endurhæfingarlífeyris til kæranda verði leiðrétt aftur til ársins 2009.

Kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá stofnuninni frá 1. september 2009 til 1. mars 2010 og hafi reiknað búsetuhlutfall kæranda verið 79,84%. Frá 1. mars 2010 til 1. mars 2011 hafi kærandi fengið greiddan endurhæfingarlífeyrir og hafi búsetuhlutfall hans verið 78,22%. Kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá 1. júlí 2015 til 1. júní 2016 með 100% búsetuhlutfalli.

Með breytingalögum nr. 120/2009, sem hafi tekið gildi 1. janúar 2010, hafi verið gerð sú breyting á 7. gr. laga nr. 99/2007 að skýrt sé tekið fram að ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um endurhæfingarlífeyri, þ.e. ákvæði um búsetuskerðingu lífeyris.

Í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga séu mál ekki tekin upp á nýjan leik ef meira en ár sé liðið frá þeirri ákvörðun sem óskað sé endurupptöku á, nema að veigamiklar ástæður mæli með því. Tryggingastofnun telji að kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í samræmi við lög og einnig hafi kærandi fengið fullar greiðslur endurhæfingarlífeyris frá 2015 til 2016 og telji stofnunin því að ekki sé hægt að sjá að veigamiklar ástæður séu til að endurupptaka málið.

Auk þess sé hugsanleg krafa fyrnd en réttur á einstökum mánaðarlegum greiðslum lífeyris almannatrygginga fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, sbr. 6. gr. sömu laga.

Beiðni kæranda um endurupptöku útreiknings á búsetuhlutfalli endurhæfingarlífeyris hafi því verið synjað.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 25. mars 2021, segir að stofnunin hafi farið yfir viðbótargögn sem hafi borist með athugasemdum kæranda en sjái ekki ástæðu til sérstakra athugasemda. Viðbótargögnin breyti ekki fyrri niðurstöðu um að ekki sé hægt að sjá að veigamiklar ástæður séu til að endurupptaka málið. Kærandi hafi ekki veigamikla hagsmuni af því að greiðsluréttur sé fyrndur. Í því sambandi vilji stofnunin benda á að úrskurðarnefndin hafi í nýlegum úrskurðum sínum í málum nr. 313/2020, 314/2020 og 318/2020 staðfest synjanir á endurupptöku mála þar sem hugsanlegar kröfur væru fyrndar og í ljósi þess væru ekki veigamiklar ástæður til að endurupptaka málin.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. september 2020, á beiðni kæranda um endurupptöku ákvarðana stofnunarinnar um hlutfallslegar greiðslur endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. september 2009 til 28. febrúar 2011. Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 1. og 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Endurupptökubeiðnir kæranda lúta að ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins um að búsetuskerða greiðslur endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. september 2009 til 28. febrúar 2011. Um er að ræða ákvarðanir, dags. 26. ágúst 2009, 30. mars 2010 og 22. september 2010. Beiðni um endurupptöku barst Tryggingastofnun 7. júlí 2020, eða um það bil tíu árum síðar og því þurfa veigamiklar ástæður að vera fyrir hendi svo að unnt sé að endurupptaka málin, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi óskar eftir að endurhæfingarlífeyrir á framangreindum tímabilum verði ekki búsetuskertur. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi gerði engar athugasemdir við framangreindar ákvarðanir fyrr en 7. júlí 2020 þegar óskað var endurupptöku.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekkert bendi til þess að úrlausn málsins geti haft þýðingarmikið fordæmisgildi. Þá eru hagsmunir kæranda af úrlausn málsins, að mati úrskurðarnefndar, ekki það mikilsverðir að rétt sé að endurupptaka málið einungis á þeim grundvelli. Úrskurðarnefndin horfir til þess að málið varðar endurhæfingarlífeyrisgreiðslur vegna tímabils sem er löngu liðið og allt bendir til þess að hugsanleg krafa kæranda um greiðslur endurhæfingarlífeyris sé fyrnd, sbr. 2., 3. og 6. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Í ljósi framangreinds er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki séu veigamiklar ástæður sem mæla með því að endurupptaka ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurhæfingarlífeyri frá 26. ágúst 2009, 30. mars 2010 og 22. september 2010.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er ákvörðun Tryggingarstofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurupptöku ákvarðana um hlutfallslegar greiðslur endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. september 2009 til 28. febrúar 2011 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. september 2020 um að synja A, um endurupptöku á ákvörðunum um hlutfallslegar greiðslur endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. september 2009 til 28. febrúar 2011, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta