Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 57/2024 - Beiðni um endurupptöku

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 57/2024

Fimmtudaginn 11. júlí 2024

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með erindi, dags. 25. júní 2024, óskaði B, f.h. A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 57/2024 þar sem staðfest var ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 8. september 2023, sótti kærandi um akstursþjónustu fatlaðs fólks í 24 mánuði. Með bréfi miðstöðvar Reykjavíkurborgar, dags. 18. september 2023, var umsókn kæranda synjað og var sú ákvörðun staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs 18. október 2023. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi, dags. 23. nóvember 2023.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 2. febrúar 2024 vegna framangreindrar ákvörðunar Reykjavíkurborgar. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 4. apríl 2024. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni um endurupptöku kemur fram að ástæða beiðninnar sé sú að forsendur velferðarráðs Reykjavíkurborgar einskorðist við það að kærandi sé ekki hreyfihamlaður, þ.e. að hann sé ekki í hjólastól og/eða sé ekki með langvarandi fötlun sem komi í veg fyrir að hann geti nýtt sér almenningssamgöngur, heldur sjúkdóm. Í meðfylgjandi læknisvottorði komi skýrt fram að kærandi sé með „erfiða flogaveiki“ og geti fengið hrinu af flogum sem geti valdið lífshættulegum föllum. Fötlun sé ekki bundin við hreyfihömlun heldur líka hömlur heilans að vinna úr aðstæðum á réttan hátt. Fötlun sé hugtak sem eigi ekki aðeins við um vanmátt útlimanna heldur líka þann vanmátt sem heilinn eigi við að stríða. Flogaveiki sé truflun á taugaboðum í heila. Ofvirkni í rafboðum heilans valdi breyttri meðvitund og óvenjulegum líkamshreyfingum eða/og breyttri hegðun sem saman verði að flogum. Flogaveiki sé ekki sjúkdómur í þeirri merkingu sem yfirleitt sé notuð um sjúkdóma heldur undirliggjandi vanhæfni svæða í heilanum sem orsaki flog.

Kærandi hafi verið flogaveikur frá barnsaldri og flogin hafi verið að ágerast síðastliðin ár. Í flestum tilfellum sé hægt að halda flogum niðri með lyfjum en það hafi reynst erfitt í tilfelli kæranda. Hann geti því fengið flog af minnsta tilefni eins og að fá flog á leið sinni í strætó ef um mótvind sé að ræða eða snjódrífu. Vegna þessa sæki kærandi um að fá aðgang að akstursþjónustu fatlaðra. Kærandi hafi alfarið hætt að keyra sjálfur fyrir fjórum árum vegna versnandi ástands síns. Um tíma hafi kærandi reynt að nýta sér strætóferðir til og frá vinnu þrátt fyrir að fá öðru hvoru flogaköst í þeim ferðum. Eftir eitt flogakastið í strætó hafi kærandi rankað við sér liggjandi við strætisvagnaskýli eftir að hafa verið „mögulega“ hjálpað út úr strætó og skilinn þar einn eftir. Hann hafi verið lengi að ná áttum og í kjölfar þess atviks hafi fylgt kvíði og vanmáttur sem hafi leitt til þess að hann hafi forðast að ferðast með strætó. Þessi staða skerði verulega persónulegt frelsi kæranda og hafi aukið álag í för með sér tengt ferðum til og frá vinnu. Kærandi fái það sem sé kallað „tilviljunarkennd“ flog, þau geri ekki boð á undan sér og eftir flog sé hann illa áttaður, ringlaður og viti oftar en ekki hvar hann sé staddur eða hvað hafi gerst. Að auki eigi kærandi erfitt með mál fyrst á eftir. Um lífshættulegar aðstæður sé að ræða fyrir kæranda.

Kærandi falli tvímælalaust að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um fötlun. Í meðfylgjandi læknisvottorði komi fram hve alvarleg flog hans séu. Því sé óskað eftir því að umsókn kæranda verði endurmetin og honum veittur aðgangur að akstursþjónustu fatlaðra þannig að kærandi eigi kost á að sækja vinnu sína með öruggum ferðamáta þar sem heilsu hans og lífi sé ekki ógnað.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 4. apríl 2024. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli og/eða rangri túlkun lagaákvæða.

Beiðni um endurupptöku er byggð á því að forsendur fyrir synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um akstursþjónustu fatlaðs fólks einskorðist við það að hann sé ekki hreyfihamlaður, þ.e. að hann sé ekki í hjólastól og/eða sé ekki með langvarandi fötlun sem komi í veg fyrir að hann geti nýtt sér almenningssamgöngur, heldur sjúkdóm. Vísað er til þess að kærandi falli tvímælalaust að skilgreiningu fötlunar í 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og með endurupptökubeiðni fylgdi læknisvottorð, dags. 20. júní 2024.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið úrskurð nefndarinnar með tilliti til framangreindra athugasemda og nýs læknisvottorðs. Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993, enda lágu þær upplýsingar sem fram koma í endurupptökubeiðni fyrir við uppkvaðningu úrskurðar. Einnig er læknisvottorð, dags. 20. júní 2024, efnislega samhljóða vottorði sama læknis, dags. 8. október 2023, sem lá fyrir við vinnslu málsins. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 57/2024 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 57/2024 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta