Hoppa yfir valmynd
1. október 2024 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 28/2024-Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 28/2024

 

Tenging úr séreign við sameiginlegt lagnakerfi.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 2024, beindi Húsfélagið A, hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, móttekin 23. apríl 2024, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 24. apríl 2024, lagðar fyrir nefndina. 

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 1. október 2024.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C á D, alls sjö eignarhluta. Álitsbeiðandi er húsfélagið en gagnaðili er eigandi íbúðar á fyrstu hæð. 

Krafa álitsbeiðanda er
:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að fjarlægja ofn og tengingar við hann í íbúð hennar og að verkið verði unnið af löggildum pípulagningarmeistara á kostnað hennar..

Álitsbeiðandi kveður son gagnaðila, sem sé ekki pípulagningamaður, hafa tengt ofn í óeinangruðum garðskála íbúðar hennar. Ofninn hafi verið tengdur við sameiginlegt lagnakerfi. Boruð hafi verið göt á vegg í stofu og tengt við ofn þar. Lagnir hafi verið lagðar í gegnum vegg og þaðan í ofninn í garðskálanum. Framkvæmdin hafi ekki verið samþykkt á húsfundi en teikningar hússins geri ekki ráð fyrir þessum ofni. 

Gagnaðili kveður formann álitsbeiðanda hafi veitt munnlegt leyfi fyrir ofninum. Ofninn hafi þó verið aftengdur vegna kvartana stjórnar álitsbeiðanda, en ekki sé auðvelt að tengja svona ofn nema taka þrýsting af kerfinu. Ofninn hafi ekki verið tekinn niður þar sem ekki sé búið að finna hlutverk fyrir hann
.

III. Forsendur

Gagnaðili tengdi ofn í garðskála íbúðar sinnar við sameiginlegt lagnakerfi hússins. Um er að ræða framkvæmd sem taka ber ákvörðun um á húsfundi, en munnlegt samþykki formanns húsfélagsins nægir ekki hér um. Að mati kærunefndar er um að ræða smávægilega framkvæmd sem þarf samþykki einfalds meiri hluta eigenda, sbr. 3. mgr. 30. gr. og einnig D liður 1. mgr. laga um fjöleignarhús. Nefndin telur því að rétt sé að tillaga hér um verði borin upp til atkvæðagreiðslu á húsfundi. 

Gagnaðili hefur þegar látið fagmann aftengja lögnina vegna athugasemda álitsbeiðanda en stútar sem fóru í gegnum vegginn voru þó ekki fjarlægðir, en þeim var lokað. Álitsbeiðandi krefst viðurkenningar á því að þessi framkvæmd verði með öllu fjarlægð, þ.e. ofninn og lögnin. Þar sem ofninn er innan séreignar gagnaðila getur álitsbeiðandi ekki krafist þess að hann verði fjarlægður, en fáist ekki samþykki fyrir framkvæmdinni á húsfundi verður þó að fallast á að gagnaðila beri að fjarlægja lögnina enda fer hún í gegnum sameign hússins, þ.e. útvegg.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.

IV. Niðurstaða

Viðurkennt er að gagnaðila hafi verið óheimilt að tengja ofn í garðskála við sameiginlegt lagnakerfi, án samþykkis húsfundar.

 

Reykjavík, 1. október 2024

 

Auður Björg Jónsdóttir

Sigurlaug Helga Pétursdóttir                                     Eyþór Rafn Þórhallsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta