600 mánaðarlaun til viðbótar til listamanna
Stjórnvöld hafa ákveðið að hækka fjárveitingu í launasjóði listamanna um 250 milljónir kr. og fjármagna með því sköpun nýrra menningarverðmæta í landinu strax á þessu ári. Með fjárveitingunni er hægt að fjölga mánaðarlaunum listamanna um 40% á árinu og því verður alls 2.200 mánaðarlaunum úthlutað til listamanna á þessu ári. Ákvörðunin er liður í þeirri áætlun stjórnvalda að auka innlenda verðmætasköpun.
„Gildi lista og menningar fyrir samfélagið er ómetanlegt. Í mörgum listgreinum hafa umsvifin dregist tímabundið saman, en við erum staðráðin í að snúa þeirri þróun við og koma verkefnum aftur af stað. Keðjuáhrifin af því eru mikil því auk áhrifa menningar á hagkerfið er öflugt menningarstarf eitt af þjóðareinkennum Íslendinga. Slíku má ekki fórna við aðstæður eins og þessar. Þvert á móti er mikilvægi lista og menningar meira þegar á móti blæs,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Vinna við nauðsynlegar laga- og reglugerðarbreytingar er hafin í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar er meðal annars til skoðunar hvaða listgreinar hafa skaðast mest vegna aðstæðna, en einnig verður horft til listgreina sem styðja við mál og menntun barna. Ítarlegar upplýsingar verða veittar um leið og þær liggja fyrir.