Tilraunaverkefni með leikskóladeildir við tvo grunnskóla í Malaví
Einungis um eitt prósent af framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu í heiminum er varið til menntunar barna á leikskólastigi. Vakin er sérstök athygli á þessum lágu framlögum í nýrri skýrslu og þau sögð lýsa skammsýni. Fátt sé ungum börnum mikilvægara en uppeldi og menntun í vönduðum leikskóla. Íslendingar eru að hefja tilraunaverkefni með leikskóladeildir við tvo grunnskóla í Malaví.
Í skýrslunni – Donor Scorecard Just Beginning: Addressing inequality in donor funding for Early Childhood Development – er bent á að aukin framlög hafi beinst að yngstu aldurshópunum á síðustu árum, fyrst og fremst að næringu og heilsu eða um 95% framlaga, en til leikskólastarfs hafi aðeins farið um eitt prósent. Skýringin er sögð sú að veitendur viti að árangur af slíku starfi sé lítt sjáanlegur og skili sér ekki fyrr en að löngum tíma liðnum.
Til þess er tekið að Hollendingar og Bandaríkjamenn sem verja hvað mestu af framlögum sínum til verkefna sem tengjast þroska barna í þróunarríkjum sniðgangi algerlega leikskólamenntun og Bretland verji innan við prósenti, samkvæmt úttekt háskólans í Cambridge sem vann skýrsluna fyrir bresku góðgerðarsamtökin TheirWorld.
Pauline Rose, einn af höfundum skýrslunnar, segir að vekja þurfi alþjóðleg framlagsríki til vitundar um að fjárfesting í börnum nái ekki síður til vandaðrar menntunar á leikskólaaldri en heilsu og næringar. „Það er tímabært að rýna í tölurnar og skuldbinda sig til að bregðast hratt við. Ef framlagsríki gera það ekki munu milljónir barna alast upp án þess að njóta hæfileika sinna til fulls,“ segir hún.
Á heimsvísu er talið að 43% barna séu í hættu að þroskast ekki eðlilega sökum fátæktar og vaxtarhömlunar. Það jafngildir 250 milljón börnum. Til þess að mæta stefnumótum um þroska barna í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þurfa veitendur að beita heildrænni nálgun, segir í skýrslunni. Þar er vísað í undirmarkmið 4.2 þar sem segir: „Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir eigi þess kost frá barnæsku að þroskast, fá umönnun og leikskólamenntun þannig að þau verði tilbúin fyrir grunnskólanám.“
Það er í anda þessa markmiðs sem Íslendingar eru að hefja tilraunaverkefni í Manghochi, samstarfshérðaðinu í Malaví, þar sem leikskóladeildir verða starfræktar við tvo grunnskóla. „Markmiðið er að auka þroska barna á aldrinum þriggja til fimm ára með leik- og samskiptafærni og byggja þannig brú yfir í grunnskólann,“ segir Lilja Dóra Kolbeinsdóttir verkefnastjóri við sendiráð Íslands í Lilongve.
Hún segir að í Mangochi héraði sé lægsta menntunarstigið í Malaví. Aðeins um helmingur íbúa eldri en fimmtán ára hafi skólagöngu að baki. Þá hafi aðeins 17% barna undir fimm ára aldri aðgang að þátttöku í einhverskonar leikskólastarfi.
„Í menntahluta Mangochi verkefnisins er gengið út frá því að höfuðáherslan sé á yngstu börnin, í fyrsta til þriðja bekk grunnskóla. Þannig verði byggðar fyrir þau skólastofur við tólf áhersluskóla og tryggt að hvert og eitt barn fái í hendur nýja kennslubók í öllum greinum. Áherslan er á að tryggja að börnin læri að lesa, skrifa og tileinki sér undirstöðuatriði í reikningi á þessum fyrstu árum,“ segir Lilja Dóra.