Hoppa yfir valmynd
11. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 111/2012.

 

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 111/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að A, sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 7. maí 2012, en hafði áður verið sjálfstætt starfandi. Kærandi kærði með erindi, dags. 26. júní 2012, það að Vinnumálastofnun hefði ekki afskráð hann af launagreiðendaskrá 7. maí 2012. Vinnumálastofnun telur að vísa skuli málinu frá úrskurðarnefndinni.

Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að í samræmi við 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, hafi í kjölfar umsóknar kæranda, með bréfi, dags. 13. júní 2012, verið óskað eftir því að kærandi legði fram staðfest afrit af eyðublaðinu 5.04 (tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá). Umbeðin gögn hafi ekki borist til Vinnumálastofnunar. Að beiðni kæranda hafi hann síðan verið skráður af atvinnuleysisskrá 13. júní 2012, en þá var hann kominn með vinnu. Þar sem umbeðin gögn bárust ekki stofnuninni frá kæranda hafi hann ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur, þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki verið unnt að taka afstöðu til réttar hans til atvinnuleysisbóta.

Vinnumálastofnun bendir á að með bréfi, dags. 26. júní 2012, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, hafi kærandi farið fram á að skráning hans af launagreiðendaskrá yrði dagsett sama dag og umsókn hans um greiðslur atvinnuleysisbóta til Vinnumálastofnunar. Þar sem það liggi fyrir að kærandi hafi ekki skilað inn tilkynningu um afskráningu af launagreiðendaskrá til Vinnumálastofnunar verði ekki séð að mál þetta varði ákvörðun sem stofnunin hafi tekið. Leggi stofnunin því til að vísa skuli máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

 

Í kæru, dags. 26. júní 2012, kemur fram að þegar kærandi skráði sig hjá Vinnumálastofnun 7. maí 2012 hafi hann ekki skráð sig af launagreiðendaskrá þar sem hann hafi haldið, eftir sinni bestu vitund, að ársmaður væri í gildi og með því þyrfti hann ekki að skrá sig af launagreiðendaskrá og hafi honum ekki verið kunnugt um að það hafi verið fellt niður um síðustu áramót. Kærandi fái því ekkert greitt frá Greiðslustofu, þar sem hann sé kominn í tímabundna vinnu og hafi afskráð sig hjá Vinnumálastofnun.

Kærandi óskar því eftir að skráning af launagreiðendaskrá verði dagsett sama dag og hann skráði sig hjá Vinnumálastofnun.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. júlí 2012, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 30. júlí 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

2.

Niðurstaða

Umsókn um atvinnuleysisbætur er fyrsti áfanginn í stjórnsýslumáli sem ljúka á með ákvörðun Vinnumálastofnunar um samþykkt eða synjun umsóknarinnar. Þegar umsókn um atvinnuleysisbætur ber með sér að umsækjandi sé ekki atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, er eðlilegt að Vinnumálastofnun óski eftir frekari upplýsingum og gögnum frá umsækjanda. Hafi meðferð stjórnsýslumáls lokið með stjórnvaldsákvörðun hefur umsækjandi rétt á að bera mál undir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 7. maí 2012. Þar sem fyrirliggjandi gögn málsins gáfu til kynna að kærandi væri ekki atvinnulaus, var óskað eftir því, sbr. bréf Vinnumálastofnunar, dags. 13. júní 2012, að kærandi legði fram staðfest afrit af eyðublaðinu 5.04 (tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá). Þrátt fyrir þessi tilmæli Vinnumálastofnunar lagði kærandi ekki þessi gögn fram. Kærandi taldi hins vegar að afskráningin af launagreiðendaskrá hefði tekið gildi um leið og hann sótti um atvinnuleysisbætur. Kærandi skráði sig af atvinnuleysisskrá 13. júní 2012 en þá var hann kominn með vinnu.

Með vísan til framangreindra atvika máls verður á það fallist með Vinnumálastofnun að engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda sem var kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Óhjákvæmilegt er því að vísa þessu máli frá, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.


 

Úr­skurðar­orð

 

Máli A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta