Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 210/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 210/2018

Miðvikudaginn 7. nóvember 2018

A

v/B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 15. júní 2018, kærði C lögmaður, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. mars 2018, þar sem kæranda var synjað um umönnunarmat með syni hennar, B.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið umönnunargreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með syni sínum frá árinu X til X. Tryggingastofnun ríkisins synjaði kæranda um endurmat með bréfi, dags. 1. júlí 2016, með þeim rökum að ekki væri unnt að gera umönnunarmat í ljósi þess að sveitarfélag kæranda gæti ekki útbúið tillögu að mati þar sem að drengurinn hafi ekki dvalist á landinu frá árinu X. Kærandi sótti um að nýju með umsókn, dags. 15. desember 2017, og með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. mars 2018, var henni synjað um umönnunarmat með syni hennar með þeim rökum að umönnunargreiðslur samkvæmt lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð greiðist eingöngu þeim sem séu með lögheimili hér á landi og að kærandi og sonur hennar uppfylli ekki það skilyrði. Í ákvörðuninni var einnig vísað til þess að ekki lægi fyrir tillaga félagsmálastofnunar sveitarfélagsins um mat samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 504/1997.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. júní 2018. Með bréfi, dags. 28. júní 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 14. ágúst 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 3. september 2018, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 4. september 2018. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 18. september 2018, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kærenda

Í kæru er gerð krafa um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins verði felld úr gildi og að samþykktar verði umönnunargreiðslur með syni kæranda tvö ár aftur í tímann.

Í kæru er greint frá því að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um umönnunargreiðslur. Stofnunin hafi byggt ákvörðun sína á því að drengurinn sé búsettur erlendis. Kærandi hafni því að hann sé búsettur erlendis, enda sé hann með lögheimili á Íslandi en sé einungis staðsettur erlendis vegna læknisþjónustu þar í landi.

Í athugasemdum lögmanns kæranda kemur fram að krafist sé að ákvörðun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi og að kærandi fái greiddar umönnunargreiðslur tvö ár aftur í tímann. Krafan sé byggð á því að drengurinn sé með lögheimili á Íslandi en sé einungis með aðsetur í D vegna veikinda þar sem ekki hafi fengist viðeigandi aðstoð og þjónusta fyrir hann á Íslandi. Krafa um greiðslu tvö ár aftur í tímann sé byggð á 5. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, enda sé ljóst að veikindi drengsins hafi varað síðustu tvö ár og hafi haft í för með sér útgjöld og að hann þarfnist sérstakrar umönnunar af hálfu kæranda.

Í læknisvottorði E, dags. 28. apríl 2015, sem hafi annast drenginn, komi fram að drengurinn sé haldinn einhverfu og að hann eigi sögu um ADHD einkenni og mótþróaþrjóskuröskun. Í vottorðinu komi jafnframt fram að íslensk velferðarþjónusta hafi ekki ráðið við að klára greiningarferli drengsins til að meta þroska hans þar sem ekki hafi verið hægt að leggja fyrir hann próf á móðurmáli hans ([...]) heldur einungis á íslensku. Drengurinn tali [...], enda hafi hann búið í D þar til að hann fluttist til Íslands í X. Faðir drengsins hafi þá verið búsettur á Íslandi. Í framangreindu vottorði komi jafnframt fram að hvorki sveitarfélagið né skóli drengsins hafi getað veitt honum sérhæfða þjónustu. Þá hafi F verið lögð niður þannig að ekki hafi verið hægt að leita þangað og ofan á allt þá hafi drengurinn verið lagður í alvarlegt einelti í skólanum. Þá kemur einnig fram í vottorðinu mat E að eðlilegt sé að næstu skref séu að leita til D til þess að ljúka greiningarferlinu og til að leita eftir viðeigandi meðferð á móðurmáli drengsins.

Kærandi hafi tekið til þess ráðs að fara með drenginn aftur til D til að fá nauðsynlega læknisaðstoð og þjónustu fyrir drenginn. Sú aðstoð og þjónusta sem drengurinn hafi fengið í sínu sveitarfélagi hafi ekki verið viðunandi eins og komi fram í framangreindu vottorði. Þá hafi drengurinn orðið fyrir miklu og grófu einelti í grunnskólanum sem hafi orðið til þess að honum hafi liðið mjög illa. Kærandi hafi litið svo á að hagsmunum drengsins væri ekki best borgið á Íslandi og hafi flust með hann til D.

Í læknisvottorði E, dags. 15. janúar 2018, komi fram að drengurinn sé með einhverfu, blandna röskun á námshæfni, væga þroskaskerðingu og hegðunarröskun. Áráttuhegðun og alvarlegir hegðunarerfiðleikar drengsins lýsi sér meðal annars í [...]. Veikindi drengsins falli undir skilyrði umönnunargreiðslna Tryggingastofnunar en stofnunin hafi frá því í júlí 2016 hafnað umsókn kæranda um umönnunargreiðslur þar sem litið sé svo á að lögheimili kæranda sé í D. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili sé lögheimili manns sá staður þar sem hann hafi fasta búsetu. Maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hafi bækistöð sína, dveljist að jafnaði í tómstundum sínum, hafi heimilismuni sína og svefnstaður hans sé þegar hann sé ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Í 9. gr. laganna segi jafnframt að sá sem dveljist erlendis við nám eða vegna veikinda geti áfram átt lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann hafi átt lögheimili er hann fór af landi brott, enda sé hann ekki skráður með fasta búsetu erlendis.

Lögheimil kæranda sé skráð á G. Ástæða þess að kærandi og drengurinn dvelji nú í D sé vegna veikinda drengsins og að ekki sé unnt að veita honum viðeigandi læknisþjónustu hér á landi. Í úrskurði Ríkisskattstjóra, X, hafi verið fallist á kröfu kæranda um greiðslur barnabóta, en henni hafi verið synjað um þær þar sem hún hafi ekki verið talin vera búsett hér á landi þrátt fyrir að vera með skráð lögheimili á Íslandi. Í úrskurðinum komi fram að þar sem kærandi og sonur hennar séu búsett erlendis vegna veikinda drengsins og að hann fái ekki viðeigandi læknisþjónustu á Íslandi uppfylli kærandi skilyrði til að halda hér á landi ótakmarkaðri skattskyldu og öllum þeim réttindum sem því fylgi. Það sama sé að segja í ákvörðun Þjóðskrár Íslands um lögheimilisskráningu, dags. X, en Þjóðskrá hafi gert athugasemd við veru kæranda og drengsins í D. Á grundvelli læknisvottorða og annarra gagna málsins hafi Þjóðskrá Íslands ákveðið að aðhafast ekkert frekar í málinu í samræmi við 9. gr. laga um lögheimili. Að hafna kröfu kæranda um umönnunargreiðslur sé því á skjön við úrskurði og niðurstöður annarra stofnanna.

Í greinargerð Tryggingastofnunar sé meðal annars vísað til rannsóknarheimildar hennar til að meta hvort lögheimili sé rétt skráð og vísi stofnunin í úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 225/2016. Í þeim úrskurði komi fram að leiki vafi á því hvort opinber skráning í Þjóðskrá sé rétt, beri stjórnvaldi að gæta að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og kanna hvort lögheimili sé rétt skráð. Í þessum úrskurði virðist engin af þeim undanþágum fyrir lögheimilisskráningu hér á landi eiga við eins og í þessu máli þar sem veikindi hafi valdið því að drengurinn hafi aðsetur í öðru landi og sé það staðfest með læknisvottorði. Í greinargerðinni sé því jafnframt haldið fram að búið sé að klára greiningarferli drengsins í D og því sé ekki sérstök ástæða til að hann fái undanþágu á lögheimilisskráningu hér á landi. Kærandi fallist ekki á þessi rök, enda komi fram í læknisvottorði E, dags. X, að drengurinn geti ekki fengið viðeigandi læknismeðferð og þjónustu hér á landi því að sveitarfélagið sem drengurinn búi í bjóði ekki upp á þjónustu sem hann þarfnist. Þá hafi F verið lokað. Tungumálaörðugleikar og líðan drengsins í skólanum hamli því jafnframt að hann taki einhverjum framförum hér landi. Kærandi byggi á því að hagsmunum drengsins sé best borgið í D.

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi sig hafa sýnt fram á að mæðginin hafi aðsetur í D vegna nauðsynja drengsins á að fá þjónustu við hæfi og að þau uppfylli skilyrði til að fá undanþágu á lögheimilisskráningu hér á landi. Lögheimilisskráning þeirra í Þjóðskrá Íslands sé því rétt þar sem aðsetur þeirra sé annað vegna veikinda drengsins. Eins og komið hafi fram séu veikindi drengsins slík að hvorki sveitarfélag né skóli hafi getað aðstoðað hann sem skyldi og því nauðsynlegt að fara með drenginn til D svo að hann fái viðeigandi aðstoð og læknisþjónustu. Ástæða þess að mæðginin hafi flutt til Íslands árið X hafi verið til að eiga hér framtíðarheimili. Það hafi ekki breyst en á meðan drengurinn geti ekki fengið þá þjónustu sem hann þurfi í sínu sveitarfélagi og skóla á Íslandi verði þau með aðsetur úti. Á meðan foreldrar og drengurinn hafi verið á Íslandi hafi þau reynt hvað þau gátu til að útvega honum læknishjálp og aðstoð, án árangurs. Þeim hafi því verið nauðugur einn kostur að fara með drenginn til D en kærandi telji að slíkt eigi ekki að hafa áhrif á umönnunargreiðslur til hennar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um umönnunargreiðslur vegna B.

Málavextir séu þeir að 15. mars 2018 hafi umsókn um umönnunarmat verið synjað á grundvelli þess að drengurinn væri ekki með búsetu á Íslandi, auk þess sem ekki hafi legið fyrir þau grundvallargögn sem kallað hafi verið eftir og nauðsynleg séu til að hægt sé að gera umönnunarmat vegna barna með fötlun.

Kveðið sé á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Nánar sé fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997, með síðari breytingum.

Í lagaákvæðinu og í 1. gr. reglugerðarinnar sé það gert að skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá Tryggingastofnun að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 5. gr. reglugerðarinnar sé skilgreining á fötlunar- og sjúkdómsstigum. Þar sé tilgreint að fara skuli fram flokkun á erfiðleikum barna út frá umönnun, gæslu og útgjöldum, annars vegar vegna barna með fötlun og þroska- og atferlisraskanir, tafla I, og hins vegar vegna barna með langvinn veikindi, tafla II.

Í greininni komi fram að aðstoð vegna barna, sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfi aðstoð og nær stöðuga gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna alvarlegrar eða miðlungs þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefjist notkunar hjólastóls, verulegrar tengslaskerðingar, einhverfu, heyrnarskerðingar, sem krefjist notkunar táknmáls/varalesturs, og blindu miðist við 2. flokk í töflu I.

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 504/1997 eigi félagsmálastofnanir sveitarfélaga að gera tillögu um mat vegna fatlaðra barna sem njóti þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Í 6. gr. komi fram að umsóknir framfærenda skuli sendar Tryggingastofnun á þar til gerðum eyðublöðum með tillögum svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra eða sveitarfélaga um flokkun og greiðsluviðmið ef um fatlað barn sé að ræða

Í 1. gr. laga um félagslega aðstoð segi að bætur laganna greiðist eingöngu þeim sem lögheimili eigi hér á landi, sbr. 1. gr. laga um lögheimili.

Í 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili segi að lögheimili manns teljist sá staður vera þar sem maður hafi fasta búsetu. Maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hafi bækistöð sína, dveljist að jafnaði í tómstundum sínum, hafi heimilismuni sína og svefnstaður hans sé þegar hann sé ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Gerð hafi verið fjögur umönnunarmöt vegna drengsins. Fyrsta mat, dags. X, hafi verið mat samkvæmt 2. flokki, 43% greiðslur, fyrir tímabilið frá X til X. Annað mat, dags. X, hafi verið mat samkvæmt 2. flokki, 43% greiðslur fyrir tímabilið frá X til X. Þriðja mat, dags. X, hafi verið frávísun þar sem fullnægjandi upplýsingar höfðu ekki borist. Fjórða mat, dags. X 2018, sem nú hafi verið kært, hafi umsókn um umönnunarmat verið synjað.

Þegar umönnunarmat sé gert sé byggt á 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna og taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Nánar sé tilgreint um heimildir til aðstoðar í reglugerð nr. 504/1997, með síðari breytingum. Í 5. gr. reglugerðarinnar sé ákveðin flokkun vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna barna með fötlun, veikindi og þroskaraskanir. Þessi flokkun reglugerðarinnar, ásamt fyrirliggjandi gögnum, séu notuð þegar umönnunarmat sé ákvarðað hjá Tryggingastofnun.

Til grundvallar mati hafi legið fyrir umsókn, dags. 15. desember 2017, læknisvottorð E, dags. X og X, auk göngudeildarnótu frá sama lækni, dags. X, athugasemdir við umsögn Félagssviðs G X, mótteknar X, greinargerð frá þroskaþjálfa á Félags- og fræðslusviði G dags. 20. febrúar 2018.

Réttur til umönnunargreiðslna sé bundinn við það að rétthafi greiðslna sé skráður með lögheimili hér á landi. Einstaklingi beri að hafa lögheimili þar sem hann sé skráður með fasta búsetu, sbr. lög nr. 21/1990 um lögheimili. Tryggingastofnun hafi þó heimild til að rannsaka og meta hvort lögheimili sé rétt skráð leiki vafi á því að opinber skráning sé rétt, sbr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð og 5. tölul. 2. gr. og 4. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. og úrskurð nr. 225/2016.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 225/2016 segi að við mat á búsetu beri að líta til skilgreiningar á lögheimili samkvæmt 1. gr. laga um lögheimili en ekki einungis hvernig opinber skráning í Þjóðskrá sé.

Tryggingastofnun telji að ljóst sé af fyrirliggjandi gögnum að mæðginin séu með fasta búsetu erlendis og hafi haft frá árinu X. Helsta ástæða þess að læknir hafi gefið út vottorð þar sem hann hafi mælt með að drengurinn myndi halda lögheimili sínu á Íslandi hafi verið til þess að hægt væri að klára greiningarferlið, þ.e.a.s. að meta þroska hans. Í göngudeildarnótu, dags. X, komi fram að búið sé að greina drenginn með þroskaskerðingu (F70.9) og hegðunarröskun (F91.9) samkvæmt gögnum frá D sem faðir hafði sýnt lækninum. Því megi vera ljóst að búið sé að klára greiningarferlið í D og því sé ekki sérstök ástæða til að drengurinn fái undanþágu á lögheimilisskráningu hér á landi af þeim sökum.

Tryggingastofnun líti svo á að öll gögn beri með sér að fjölskyldan sé búin að vera búsett í D síðan X og þar sem svo langur tími sé liðinn þá sé augljóst að um fasta búsetu þar í landi sé að ræða. Ekki sé lengur til staðar sú nauðsyn að hafa lögheimili hér á landi eins og læknir hafi mælti fyrir í ofangreindu læknisvottorði. Tryggingastofnun líti því svo á að lögheimili drengsins og móður hans sé ranglega skráð á Íslandi. Þau hafi haft fasta búsetu í D síðastliðin ár og því hafi lögheimili þeirra átt að vera skráð þar en ekki á Íslandi. Hafi því verið rétt að synja kæranda um umönnunarmat á þeim grundvelli.

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 504/1997 eigi félagsmálastofnanir sveitarfélaga að gera tillögu um mat vegna fatlaðra barna sem njóti þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Í 6. gr. komi fram að umsóknir framfærenda skuli sendar Tryggingastofnun á þar til gerðum eyðublöðum með tillögum svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra eða sveitarfélaga um flokkun og greiðsluviðmið ef um fatlað barn sé að ræða. Í 7. gr. reglugerðarinnar segi enn fremur að framfærendur, sem njóti fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglugerð þessari, sé skylt að tilkynna Tryggingastofnun eða svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra/sveitarfélögum um breytingar á högum sem kunni að hafa í för með sér breyttar forsendur fyrir greiðslum. Tryggingastofnun hafi aldrei borist tilkynning um breytta búsetu drengsins og móður hans eins og skylt sé að tilkynna, sbr. ofangreinda 7. gr. reglugerðarinnar.

Í framhaldi af umsókn um umönnunarmat fyrir drenginn hafi Tryggingastofnun enn fremur óskað eftir tillögu frá sveitarfélagi með bréfi, dags. 22. janúar 2018. Bréf, dags. 20. febrúar 2018, hafi borist frá þroskaþjálfa á félags- og fræðslusviði G sem sinni þjónustu við fötluð börn hjá sveitarfélaginu. Þar komi fram að drengurinn hafi ekki verið í þjónustu hjá þeim frá X eða frá þeim tíma sem hann og móðir hans fluttu frá Íslandi til D. Þá komi fram að þar sem drengurinn væri ekki á landinu og hefði ekki verið í þjónustu hjá sveitarfélaginu þá væri ekki mögulegt að leggja mat á umönnunarþörf eða gera tillögu að umönnunarmati.

Tillaga liggi því ekki fyrir. Grundvöllur umönnunarmats vegna fatlaðra barna sé tillaga sveitarfélags en hún hafi ekki borist vegna drengsins og því sé ekki hægt að gera umönnunarmat. Synjun hafi því verið byggð bæði á grundvelli þess að ekki væru nægjanlegar upplýsingar fyrirliggjandi og eins á grundvelli búsetu erlendis.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að lögfræðingur kæranda hafi vísað til læknisvottorðs E, dags. X, þ.e. X árum eftir að drengurinn hafi flust til D. Í vottorðinu segi að „næsta skref hafi verið að leita á heimaslóðir, þ.e.a.s. til heimalandsins D til þess að ljúka við greiningarvinnuna og til að leita eftir viðeigandi meðferð á móðurmáli B“. Lögfræðingurinn telji að á grundvelli þessa vottorðs, sem orðið sé meira en X ára gamalt, sé nauðsynlegt fyrir drenginn að dvelja í D til að fá viðeigandi aðstoð og læknisþjónustu. Tiltekið sé í viðbótargögnunum að drengurinn geti hvorki fengið þá þjónustu sem hann þurfi frá sínu sveitarfélagi né í skóla á Íslandi og því verði hann og kærandi með aðsetur úti.

Ákvörðun Þjóðskrár um að veita kæranda og drengnum undanþágu á því að halda lögheimili hér á landi þrátt fyrir búsetu erlendis sé orðin þriggja ára gömul og sé byggð á þessu gamla vottorði.

Í læknisvottorði E, dags. X, komi fram að aðkoma læknis að málefnum drengsins hafi ekki verið nein að ráði frá því að drengurinn hafi flust með móður sinni til D. Læknirinn hafi því ekki hitt drenginn síðan X. Samkvæmt göngudeildarnótu frá sama lækni, dags. X, komi fram að faðir hafi komið í viðtal og lagt fram greiningarniðurstöður vegna drengsins frá athugunaraðilum í D og séu sjúkdómsgreiningarnar þroskaskerðing F70.9 og hegðunarröskun F91.9. Vísað hafi verið til þroskamats sem lagt hafi verið fyrir drenginn. Einnig komi fram að faðir hafi dvalið í D síðastliðið X ár, hann hafi […] en sé á leið út aftur. Auk þess komi fram að fjölskyldan búi og starfi erlendis.

Í greinargerð frá þroskaþjálfa sveitarfélags, dags. 20. febrúar 2018, komi fram að drengnum hafi verið veitt víðtæk þjónusta af fagfólki í heimahéraði. Þroskaþjálfi segi fullyrðingar í vottorði læknis alrangar og að þekking hafi verið fyrir hendi hjá fagfólki til að sinna málefnum drengsins. Meðal annars þá hafi þrír þroskaþjálfar, einn iðjuþjálfi, tveir sérkennarar og einn stuðningsfulltrúi komið að þjónustu við drenginn, auk þess sem reglulega hafi verið fengin ráðgjöf frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og öðrum sérfræðingum. Samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks þá standi þessi þjónusta honum til boða enn í dag. Í greinargerðinni hafi einnig verið farið yfir upplýsingar sem hafi komið fram í viðtali þroskaþjálfa við föður sem fram fór þann 25. janúar 2018. Faðir hafi upplýst að drengurinn sé ekki að fá neina sértæka þjónustu frá sveitarfélagi í D en sæki […]skóla á kostnað foreldranna, auk frístundanámskeiða. Enn fremur hafi faðir upplýst að drengurinn væri ekki heldur með sérstuðning í skólanum.

Almennt sé hægt að upplýsa að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, sem komið hafi að málefnum drengsins, veiti langtímaeftirfylgd og ráðgjöf til fjölskyldna og starfsmanna sveitarfélaga. Auk þess nái þjónusta Barna- og unglingageðdeildar til barna um allt land. Ef foreldrar á landsbyggðinni þurfi að sækja þjónustu til höfuðborgarsvæðisins sé hægt að óska eftir niðurgreiðslu ferðakostnaðar hjá Sjúkratryggingum Íslands, að uppfylltum skilyrðum.

Tryggingastofnun telji að myndi drengurinn flytja með fjölskyldu sinni aftur til Íslands þá stæði honum og fjölskyldu hans til boða víðtæk þjónusta frá sveitarfélagi sem bundin sé í lög, þar með talið stuðningur í skóla, stuðningsfjölskylda og liðveisla til drengsins. Ef þörf væri á þjónustu frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Barna- og unglingageðdeildar ætti drengurinn einnig rétt á henni.

Lögfræðingur fjölskyldunnar segi að drengurinn þurfi að dveljast í D til að fá viðeigandi læknismeðferð og þjónustu við hæfi en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé drengurinn ekki með neina sérstaka þjónustu eða stuðning í D. Drengurinn ætti rétt á mun meiri þjónustu ef hann dveldi hér á landi.

Af gögnum málsins sé ljóst að drengurinn hafi verið langdvölum erlendis ásamt fjölskyldu sinni. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sé greiningarvinnu í D lokið, auk þess sem ljóst sé að drengurinn sé ekki að fá neina sértæka þjónustu frá sveitarfélagi eða í skóla. Skilyrði undanþáguákvæðis 9. gr. lögheimilislaga um að fá að halda lögheimili hér á landi vegna veikinda sé að einstaklingur sé ekki skráður með fasta búsetu erlendis. Í 2. mgr. 1. gr. laga um lögheimili segi að maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hafi bækistöð sína, dveljist að jafnaði í tómstundum sínum, hafi heimilismuni sína og svefnstaður hans sé þegar hann sé ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Ákvörðun Þjóðskrár um beitingu undanþáguákvæðis 9. gr. lögheimilislaga sé orðin X ára gömul og byggi á upplýsingum úr X ára gömlu vottorði sem eigi ekki lengur við. Þá hafi drengurinn alla möguleika á að fá þá þjónustu sem hann þurfi á að halda í dag ef hann væri búsettur hér á landi. Tryggingastofnun telji því með vísan til alls framanritaðs að beiting undanþáguákvæðis 9. gr. eigi ekki rétt á sér lengur þar sem um fasta búsetu kæranda og fjölskyldu hans í D sé orðið að ræða. Lögheimili þeirra hafi átt að vera skráð þar en ekki á Íslandi og því hafi verið rétt að synja kæranda um umönnunarmat á þeim grundvelli. 

Þá sé grundvöllur umönnunarmats vegna fatlaðra barna tillaga sveitarfélags en hún hafi ekki borist vegna drengsins og því sé ekki hægt að gera umönnunarmat.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. mars 2018 á umsókn um umönnunargreiðslur fyrir son kæranda.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Segir í 1. mgr. nefndrar 4. gr. að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik sem jafna megi við fötlun og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma.

Í 4. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Gildandi reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna er nr. 504/1997, ásamt síðari breytingum.

Í 1. mgr. 1. gr. framangreindra laga kemur fram að umönnunarbætur séu bætur félagslegrar aðstoðar og í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að slíkar bætur séu eingöngu greiddar þeim sem lögheimili eiga hér á landi, sbr. 1. gr. laga um lögheimili, og að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna og reglugerða sem settar séu með stoð í þeim. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 99/2007 gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Í 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að búseta sé skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili nema sérstakar ástæður leiði til annars. Þá segir í 3. mgr. 4. gr. sömu laga að Tryggingastofnun ákvarði hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt almannatryggingalögum.

Í 1. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili er lögheimili skilgreint sem sá staður þar sem maður hefur fasta búsetu. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Í 9. gr. sömu laga er kveðið á um undantekningu frá framangreindu ákvæði en þar segir:

„Sá sem dvelst erlendis við nám eða vegna veikinda getur áfram átt lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann átti lögheimili er hann fór af landi brott enda sé hann ekki skráður með fasta búsetu erlendis. 

[…]

Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda einnig um skyldulið þeirra manna sem þar um ræðir og dvelst með þeim erlendis.“

Í 3. gr. reglugerðar nr. 504/1997 segir að Tryggingastofnun ríkisins ákvarði og veiti aðstoð samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar og meti læknisfræðilegar forsendur umsækjenda og fötlunar- og sjúkdómsstig, sbr. 5. gr. Svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra og/eða félagsmálastofnanir sveitarfélaga gera tillögur um mat vegna fatlaðra barna sem njóta þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra [nú lög um málefni fatlaðs fólks]. 

Tryggingastofnun byggir synjun á umsókn kæranda um umönnunarmat í fyrsta lagi á þeim grundvelli að mæðginin uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð um að bætur séu einungis greiddar þeim sem eiga lögheimili hér landi. Í öðru lagi byggir stofnunin synjunina á því að ekki liggi fyrir tillaga sveitarfélags um mat á umönnun, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 504/1997, sem sé forsenda umönnunarmats fatlaðra barna.

Óumdeilt er að kærandi og sonur hennar eru búsett í D og hafa verið það frá X. Af gögnum málsins má ráða að Þjóðskrá féllst þann X á að hafa lögheimili þeirra mæðgina áfram skráð á Íslandi í kjölfar skoðunar á fastri búsetu og skráðu lögheimili vegna veikinda sonar kæranda, sbr. 9. gr. laga um lögheimili. Vísar þar Þjóðskrá meðal annars í læknabréfi E, dags. X, þar sem segir meðal annars:

„B er haldinn einhverfu.

Íslensk velferðarþjónusta hefur ekki ráðið við að klára greiningarferlið allt, þ.e.a.s. að meta þroska hans þar sem ekki var möguleiki á að leggja fyrir hann viðeigandi próf á hans móðurmáli ([…]).

Skóli B virðist ekki hafa geta varið hann fyrir fjandsamlegri hegðun annara barna

Sveitarfélag B gat ekki veitt sérhæfða aðstoð m.t.t. einhverfu og annarra mögulegra þroskaraskana vegna þess að kunnátta var ekki til staðar í sveitarfélaginu. […]

F var lögð niður þannig […]

Í ljósi alls ofangreinds þá var það eðlilegt næsta skref að leita á heimaslóðir þ.e.a.s. til heimalandsins D til þess að ljúka við greiningarvinnuna og til að leita eftir viðeigandi meðferð á móðurmáli B.“

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um lögheimili getur sá sem dvelst erlendis vegna veikinda áfram átt lögheimili á Íslandi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Það sama á við um skyldulið viðkomandi, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Að mati úrskurðarnefndar verður ráðið af gögnum málsins að kærandi og sonur hennar hafi dvalið í D vegna veikinda sonar kæranda. Hvorki í 9. gr. laganna né í lögskýringargögnum með ákvæðinu er gerð krafa um að dvölin erlendis verði að vera nauðsynleg vegna veikinda til þess að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Þrátt fyrir að Tryggingastofnun ríkisins ákvarði samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um almannatryggingar hvort einstaklingur sé tryggður hér á landi samkvæmt lögunum þá er stofnunin bundin af lögum um lögheimili við mat á búsetu, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar og 2. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af orðalagi 9. gr. laga um lögheimili og afgreiðslu Þjóðskrár í máli þessu fellst úrskurðarnefnd velferðarmála ekki á þá túlkun Tryggingastofnunar ríkisins, sem ráða má af málatilbúnaði stofnunarinnar, að undanþága 9. gr. laganna eigi einungis við ef dvöl erlendis vegna veikinda sé nauðsynleg. Þá liggja ekki fyrir gögn um að kærandi sé með skráða fasta búsetu erlendis.

Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði 9. gr. laga um lögheimili sé uppfyllt í tilviki kæranda. Þar sem lögheimili kæranda og sonar hennar hefur síðustu ár verið á Íslandi telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki sé heimilt að synja kæranda um umönnunarmat á þeim grundvelli að kærandi og sonur hennar séu ekki með lögheimili hér á landi.

Tryggingastofnun ríkisins synjaði einnig umsókn kæranda um umönnunarmat með þeim rökum að stofnunin hafi ekki getað framkvæmt umönnunarmat þar sem að ekki lægi fyrir tillaga um mat vegna drengsins frá félagsmálastofnun sveitarfélags hans. Eins og áður hefur komið fram segir í 3. gr. reglugerðar nr. 504/1997 að svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra og/eða félagsmálastofnanir sveitarfélaga geri tillögur um mat vegna fatlaðra sem njóti þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks. Tryggingastofnun óskaði eftir tillögu félagsmálasviðs G vegna umönnunarmats vegna B með bréfi, dags. 22. janúar 2018. Í svari félags- og fræðslusviðs G, dags. 20. febrúar 2018, segir meðal annars:

„Ég undirrituð get ekki lagt mat á eða tillögu um umönnunarmat fyrir B þar sem drengurinn er ekki á landinu þó svo að lögheimili hans sé hér í G en hann hefur ekki verið í þjónustu hjá okkur frá því X. Erfitt er að meta stöðu hans og gera tillögur þegar upplýsingar sem við höfum eru ekki meiri en raun ber vitni […] Einu upplýsingarnar sem við höfum eru frá föður og nokkur myndskeið sem tekin eru á góðri stundu hjá B. Hins vegar er ólíklegt að staða hans hafi mikið breyst frá því að síðast var gert umönnunarmat fyrir hann hér heima (er hann bjó á staðnum) þar sem hann hefur elst og stækkað, hegðunarerfiðleikar ekki minnkað og samkvæmt upplýsingum er [...].“

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu bréfi frá G að sonur kæranda nýtur ekki þjónustu samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur einungis fram að félagsmálastofnanir sveitarfélaga geri tillögu um mat vegna fatlaðra sem njóti þjónustu samkvæmt fyrrgreindum lögum. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að í tilviki kæranda sé ekki heimilt að synja um umönnunarmat þegar af þeirri ástæðu að tillaga um mat liggur ekki fyrir frá sveitarfélagi með vísan til 3. gr. reglugerðar nr. 504/1997.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af gögnum málsins að Tryggingastofnun sé ómögulegt að framkvæma umönnunarmat sökum þess að ekki liggur fyrir tillaga að mati frá sveitarfélagi. Bent er á að telji Tryggingastofnun að mál sé ekki nægjanlega upplýst ber stofnuninni að rannsaka það nánar, sbr. 38. gr. laga um almannatryggingar og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tryggingastofnun hefur ekki gert tilraun til að afla frekari upplýsinga eða gagna, til að mynda frá kæranda. Þá telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að í fyrrgreindu bréfi frá G kemur fram að ólíklegt sé að staða sonar kæranda hafi breyst mikið frá því að síðasta umönnunarmat fyrir hann var gert. Einnig segir í læknisvottorði E, dags. X, að af þeim greiningum sem um ræði sé ljóst að sonur kæranda muni ekki þroskast að neinu verulegu leyti frá sínum þroskabrestum.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um umönnunarmat vegna sonar hennar felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A um að synja um umönnunarmat vegna sonar hennar B, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta