Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2019 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 1/2019

Hinn 1. júlí 2019 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 1/2019:

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. S-48/2013

Ákæruvaldið

gegn

Jóni Þór Sigurðssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

  1. Með bréfi, dags. 8. janúar 2019, hefur Jón Þór Sigurðsson (hér eftir endurupptökubeiðandi), farið þess á leit að héraðsdómsmálið nr. S-48/2013, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykja­víkur 10. maí 2013, verði endurupptekið.
  2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um beiðnina. Nefndina skipa Gizur Bergsteinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Haukur Örn Birgisson.

II. Málsatvik

  1. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-48/2013, uppkveðnum 10. maí 2013, var endurupptökubeiðandi fundinn sekur um að hafa vantalið tekjur sínar í skattframtölum áranna 2007 og 2008. Brot endurupptökubeiðanda voru talin stórfelld og varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940. Þá var endurupptökubeiðandi fundinn sekur um að hafa sem stjórnar­maður og framkvæmdastjóri J-einátta ehf. staðið skil á röngum skattframtölum fyrir félagið sömu ár og með því brotið gegn 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Með dóminum var endurupptökubeiðanda gert að sæta skilorðs­bundnu fangelsi í fjóra mánuði. Þá var honum gert að greiða 29.000.000 kr. sekt í ríkissjóð og skyldi 270 daga fangelsi koma í hennar stað yrði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
  2. Áður en dómurinn var kveðinn upp hafði ríkisskattstjóri með úrskurði 28. júní 2010 endur­ákvarðað opinber gjöld endurupptökubeiðanda gjaldárin 2007 og 2008 og við það tilefni lagt 25% álag á vantalda skattstofna hans. Með kæru 23. september 2010 skaut endur­upptöku­beiðandi úrskurðinum til yfirskatta­nefndar. Með úrskurði yfirskattanefndar 22. febrúar 2012 voru opinber gjöld endurupptökubeiðanda endurákvörðuð til lækkunar en kröfum hans um að fallið yrði frá því að bæta 25% álagi við vantalda skattstofna hafnað.

III. Grundvöllur beiðni

  1. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína um endurupptöku málsins á því að við meðferð á máli hans hafi verið brotið gegn banni 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu við endurtekinni málsmeðferð. Máli sínu til stuðnings vísar endurupptökubeiðandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 18. maí 2017 í máli nr. 22007/11 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. hafi brotið gegn ákvæðinu. Dómstólar hafi í kjölfarið túlkað og yfirfært niður­stöðuna yfir á íslenskan rétt. Er það mat endurupptökubeiðanda að það megi ráða af fyrirliggjandi dómum Hæsta­réttar og Landsréttar að í máli hans hafi verið brotið gegn áðurnefndu banni við endur­tekinni máls­meðferð. Í þessu sambandi vísar endurupptökubeiðandi til dóms Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016, Ákæruvaldið gegn X, þar sem áðurnefndur dómur mannréttinda­dómstólsins hafi verið reifaður og málsmeðferð í máli X síðan borin saman við málsmeðferð meðal annars í málum skattyfirvalda og ákæruvalds gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni o.fl.
  2. Í beiðni endurupptökubeiðanda er síðan gerð ítarlegri grein fyrir þeim sjónarmiðum sem Hæstiréttur lagði til grundvallar áðurnefndum dómi í máli nr. 283/2016 og afstöðu endurupptökubeiðanda til þess hvernig þeim yrði beitt í tilviki hans. Í beiðninni er jafnframt vísað til dóms Hæstaréttar 20. september 2018 í máli nr. 11/2018 og dóma Lands­réttar 4. maí 2018 í máli nr. 4/2018 og 16. nóvember sama ár í máli nr. 82/2018. Þá er vísað til úrskurðar Landsréttar 27. september 2018 í máli nr. 455/2018. Með vísan til þessa byggir endurupptökubeiðandi á því að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls hans þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins, sbr. d. lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í beiðninni er einnig byggt á því að áðurnefndar dómsúrlausnir feli í sér ný gögn í skilningi a. liðar 1. mgr. 228. gr. laganna. Samkvæmt því séu uppfyllt skilyrði laganna til að endur­upptaka mál hans.
  3. Í beiðni sinni kveðst endurpptökubeiðandi ekki hafa áfrýjað dómi í málinu og gerir hann kröfu um að endurupptökunefnd fresti réttaráhrifum dómsins meðan á meðferð beiðni hans stendur fyrir nefndinni, sbr. 2. mgr. 230. gr. laganna.

IV. Viðhorf gagnaðila 

  1. Í umsögn ríkissaksóknara, dags. 28. febrúar 2019, kemur fram að ónákvæmni gæti í beiðninni um að héraðsdómi í máli endurupptökubeiðanda hafi ekki verið áfrýjað. Í umsögninni segir svo:
  2. „Þannig horfir við að dómfelldi áfrýjaði ofangreindum héraðsdómi með tilkynningu um áfrýjun til ríkissaksóknara dags. 8. júlí 2013. Í tilkynningunni var aðallega krafist frávísunar en til var sýknu og þrautavara mildunar refsingar. Ríkissaksóknari gaf út áfrýjunarstefnu 23. júlí 2013. Þann 12. febrúar 2014 skilaði dómfelldi greinargerð til Hæsta­réttar Íslands. Í greinargerð dómfellda til Hæstaréttar var í aðalkröfu byggt á sjónar­miðum um ne bis in idem. 19. s.m. skilaði ákæruvaldið greinargerð til Hæstaréttar þar sem sjónarmið þess voru rakin. Þá barst ríkissaksóknara 3. apríl 2014 bréf frá skipuðum verjanda dómfellda þar sem tilkynnt var um afturköllun áfrýjunar í Hæstaréttarmálinu nr. 508/2013 og þess óskað að Hæstarétti yrði send yfirlýsing af hálfu ríkissaksóknara um niðurfellingu málsins. Samdægurs sendi ríkissaksóknari Hæstarétti erindi þar sem réttinum var kunngert um tilkynningu dómfellda um afturköllun á áfrýjun málsins. Í erindinu var þess einnig getið að ákæruvaldið hafi ákveðið að fallast á ósk ákærða um afturköllun áfrýjunar málsins. Svo virðist sem ástæða afturköllunarinnar megi rekja til þess (svo) áfrýjunar­yfirlýsing dómfellda hafi borist að liðnum áfrýjunarfresti.“
  3. Í umsögninni segir að ekki verði annað ráðið af beiðni endurupptökubeiðanda en að hann fari fram á endurupptöku málsins í heild. Telur ríkissaksóknari að hafna beri beiðninni að því snertir þann hluta málsins sem snýr að skattskilum J-einátta ehf. þar sem hvorki hafi verið um tvíþætta málsmeðferð né tvöfalda refsingu að ræða.
  4. Í umsögninni er síðan farið yfir grundvöll þess að endurupptökubeiðandi telur að brotið hafi verið gegn 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu og er það niðurstaða ríkis­saksóknari að tilefni kunni að vera til að heimila endurupptöku þess hluta málsins sem fjallar um skattskil endur­­upptöku­beiðanda sjálfs.

V. Frekari athugasemdir endurupptökubeiðanda

  1. Með bréfi endurupptökunefndar, dags. 7. mars 2019, var endurupptökubeiðanda boðið að tjá sig um umsögn ríkissaksóknara. Í athugasemdum endurupptökubeiðanda kveðst hann ekki vera sammála ályktunum ríkissaksóknara um að ekki séu efni til að endurupptaka málið í heild sinni. Í þessu sambandi vísar endurupptökubeiðandi í fyrsta lagi til þess að hann hafi ekki verið dæmdur sjálfstætt til viðurlaga fyrir hvorn lið ákærunnar um sig heldur hafi hann verið dæmdur „óskipt fyrir brot samkvæmt báðum ákæruliðum“ og er það rökstutt nánar. Endurupptökubeiðandi vísar í öðru lagi til þess að málarekstur skatt­yfirvalda gegn sér og einkahlutafélaginu hafi farið fram samhliða og hafi málin fylgst að í hvívetna. Það álag sem skattyfirvöld hafi gert einkahlutafélagi hans að sæta verði ekki svo auðveldlega skilið frá persónu hans sjálfs við mat á því hvort honum hafi verið gerð tvisvar refsing vegna þess hluta sem varði skattskil félagsins. Vísar endurupptöku­beiðandi til dómaframkvæmdar um óskipta ábyrgð lögaðila og fyrirsvarsmanna á fésektum sem ákvarðaðar séu af dómstólum vegna brota á skattalögum í starfsemi lögaðila, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 482/1990.

VI. Niðurstaða

  1. Mál þetta er tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIV. kafla laga nr. 88/2008. Í 1. mgr. 228. gr. laganna segir að nú hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur sé liðinn og geti þá endurupptökunefnd orðið við beiðni manns, sem telji sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, um að málið verði endurupptekið í héraði ef einhverju þeirra skilyrða sem talin eru í a-d liðum ákvæðisins er fullnægt.
  2. Ákvæði a-d liða 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 eru svohljóðandi:
    a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
    b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
    c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
    d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
  3. Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.
  4. Eins og áður er lýst er krafa endurupptökubeiðanda um endurupptöku málsins reist á því að við meðferð á máli hans hafi verið brotið gegn banni 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttinda­sáttmála Evrópu við endurtekinni málsmeðferð. Telur endurupptökubeiðandi að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls hans þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d. lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Þá telur hann að líta megi á áðurnefnda dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og dóma og úrskurði íslenskra dómstóla sem hafi verið kveðnir upp eftir að dómur hafi verið kveðinn upp í máli hans sem ný gögn í skilningi a. liðar 1. mgr. 228. gr. laganna.
  5. Í dómi Hæstaréttar 21. maí 2019 í máli nr. 12/2018 var leyst úr því hvort skilyrði hafi verið til að endurupptaka hæstaréttarmálið nr. 74/2012, að kröfu tveggja dómfelldu í því máli, en Mannréttindadómstóll Evrópu hafði sem áður segir komist að þeirri niðurstöðu í dómi sínum 18. maí 2017 í máli nr. 22007/11, að við meðferð hæstaréttarmáls nr. 74/2012 hafi verið brotið gegn rétti dómfelldu samkvæmt 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmálans.
  6. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 12/2018 segir að hvorki í lögum nr. 88/2008 né öðrum íslenskum lögum sé mælt berum orðum fyrir um heimild til að endurupptaka mál að gengnum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Þegar af þeirri ástæðu verði endurupptaka hæstaréttarmálsins nr. 74/2012 ekki reist á slíkri beinni lagaheimild. Í dóminum segir síðan meðal annars svo:
    „Að fenginni þeirri niðurstöðu sem greinir hér að framan kemur næst til úrlausnar hvort það geti eigi að síður í skilningi d. liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 talist verulegur galli á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu að maður hafi, andstætt ákvæðum 4. gr. 7. viðauka mann­réttindasáttmála Evrópu, tvívegis verið saksóttur og refsað fyrir sama brot þar sem nauðsyn­lega tengingu í málsmeðferð hafi skort.
    Í 1. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis fyrir ákærða, ákæruvaldið og aðra um þau atriði sem þar eru dæmd að efni til. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar verður krafa sem dæmd hefur verið að efni til ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en í lögunum segir. Nýju máli um slíka kröfu skal vísa frá dómi. Í 3. mgr. greinarinnar segir meðal annars að dómur sé bindandi fyrir dómara þegar hann hefur verið kveðinn upp og samkvæmt 4. mgr. hefur dómur fullt sönnunargildi um þau máls­atvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða sannast. Í þessum ákvæðum felast reglur um réttaráhrif dóma byggðar á þeirri grunnreglu að dómur skuli vera endir þrætu og sama sakar­efnið því ekki dæmt að nýju. Af þessu leiðir eðli máls samkvæmt að við skýringu lagareglna um endurupptöku dæmdra mála verður orðum þeirra ekki léð rýmri merking en felst í bók­staflegum skilningi þeirra, sbr. dóma Hæstaréttar 4. júní 2015 í máli nr. 475/2014 og 5. nóvember 2015 í máli nr. 229/2015.

    Efnisákvæði  d. liðar 1. mgr. 228. gr. laga  nr. 88/2008 voru nýmæli við gildistöku laganna og þá skipað í 211. gr. þeirra. Í lögskýringargögnum kom fram að efnislega væru skilyrði endurupptöku samkvæmt lagagreininni í nær öllum atriðum hin sömu og áður voru í lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 184. gr. og 185. gr. þeirra laga. Þótt gerðar hafi verið breytingar á orðalagi væri ekki ætlast til að merking ákvæðanna yrði önnur en áður. Að einu leyti væru þó ráðgerð nýmæli „með því að í d-lið 1. mgr. er ákvæði um heimild dómfellds manns til að leita endurupptöku ef sýnt er fram á að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls og þeir haft áhrif á niðurstöðu þess. Um þessa aðstöðu eru engin fyrir­mæli í gildandi lögum, en undir þetta gæti meðal annars átt tilvik, þar sem leiddir væru í ljós annmarkar á hæfi dómarans, sem með málið fór, og ekki hafi áður verið um þá kunnugt. Þykir eðlilegt að taka upp reglu af þessum toga til að tryggja rétta meðferð máls.“

    Samkvæmt framansögðu er ljóst að þau tilvik sem fallið geta undir d. lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 eru ekki tæmandi talin í lögskýringargögnum. Á hinn bóginn verður ekki séð að tilgangur löggjafans með setningu þess stafliðar hafi verið að veita úrlausnum Mannréttindadómstóls Evrópu meira vægi en þær höfðu áður í kjölfar niðurstöðu þess dómstóls um að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmála Evrópu við meðferð máls fyrir íslenskum dómstólum. Slík grundvallar breyting á íslenskri löggjöf hefði þurft að koma fram með ótvíræðum hætti við lagasetninguna. Af því leiðir að d. liður 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 verður ekki með rýmkandi lögskýringu talinn veita heimild til endurupptöku máls þótt fyrir liggi samkvæmt dómi Mannréttindadómstóls Evrópu að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmálanum við meðferð máls fyrir íslenskum dómstólum. Þá verður því tilviki sem hér er til úrlausnar hvorki jafnað til þess ef í ljós koma eftir uppkvaðningu dóms annmarkar á hæfi dómarans sem með mál fór né tilvikinu í ákvörðun Hæstaréttar 13. júní 2012 um endurupptöku máls nr. 390/1997. Þar var endurupptaka heimiluð sökum þess að verulegir ágallar höfðu verið á meðferð málsins þar sem meginreglna sakamálaréttarfars var ekki gætt heldur sakfelling manns reist á framburði vitna sem ekki höfðu gefið skýrslu fyrir réttinum andstætt fyrirmælum þágildandi laga nr. 19/1991 og ákvæðum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Verður endurupptaka máls nr. 74/2012 því hvorki talin heimil á grundvelli rýmkandi lögskýringar né lögjöfnunar.“
  7. Í dómi Hæstaréttar er síðan tekið fram að þegar úr því sé skorið hvort d. liður 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 geti í tilviki eins og því sem hér er til úrlausnar veitt heimild til endurupptöku máls sé til viðbótar því sem áður hafi verið rakið einnig til þess að líta að rétturinn til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli sé meðal þeirra hornsteina sem lýðfrjáls ríki byggja réttarskipan sína á, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þá segir orðrétt:
    Fyrir liggur að óhlutdrægur og óháður dómstóll komst að niðurstöðu í máli dómfelldu í samræmi við ákvæði 61. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2013 í máli nr. 74/2012. Í honum var sérstaklega fjallað um 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu og komist að þeirri niðurstöðu að meðferð málsins væri ekki í andstöðu við ákvæðið þannig að frávísun varðaði. Var málið tekið til meðferðar um sekt eða sýknu dómfelldu af háttsemi samkvæmt ákæru og að lögum komist að þeirri niðurstöðu að dómfelldu væru sekir um stórfelld brot gegn skattalögum og þar með almennum hegningarlögum. Voru þeim því ákveðnar refsingar eftir settum lögum að gættri 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og að virtum meginreglum sakamálaréttarfars, meðal annars um tafir á málsmeðferð, allt í samræmi við áratuga dómvenju í málum af þessu tagi.
    Mannréttindasáttmálanum hefur eins og áður er fram komið verið veitt lagagildi hér á landi, þar með töldum 7. viðauka hans og hefur stöðu almennrar löggjafar. Í 2. gr. laga nr. 62/1994 er tekið fram að úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, Mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti. Leggja verður til grundvallar að með þessu hafi íslenski löggjafinn áréttað að þrátt fyrir lögfestingu mannréttindasáttmálans sé hér á landi byggt á grunnreglunni um tvíeðli landsréttar og þjóðaréttar. Þótt íslenskir dómstólar líti til dóma mannréttindadómstólsins við skýringu mannréttindasáttmálans, þegar reynir á ákvæði hans sem hluta af landsrétti, leiðir af framan­greindri skipan að það er hlutverk Alþingis, innan valdmarka sinna samkvæmt 2. gr. stjórnar­skrárinnar, að gera þær breytingar á lögum sem þarf til að virða þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt mannréttindasáttmálanum. Fælist í niðurstöðu dómstóla að þeir hefðu með lögskýringu í reynd mælt fyrir um lagabreytingar í þeim tilgangi færu þeir út fyrir þau mörk sem stjórnlög setja valdheimildum þeirra, sbr. 2. gr. og 1. málslið 61. gr. stjórnarskrárinnar.“
  8. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 12/2018 veitir d. liður 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 ekki heimild til endurupptöku máls þótt fyrir liggi dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um að við meðferð máls fyrir íslenskum dómstólum hafi verið brotið gegn rétti manns samkvæmt 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmálans. Með dómi Hæstaréttar var jafnframt hafnað að endurupptaka málið á grundvelli rýmkandi lögskýringar eða lögjöfnunar. Samkvæmt því féllst Hæstiréttur ekki á að gallar hafi verið á meðferð máls dómfelldu í skilningi d. liðar 1. mgr. 228. gr. laganna.
  9. Ólíkt tilviki dómfelldu í hæstaréttarmálinu nr. 12/2018 liggur ekki fyrir dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um að brotið hafi verið gegn rétti endurupptökubeiðanda samkvæmt 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu við meðferð máls endurupptökubeiðanda fyrir héraðsdómi. Er beiðni endur­upptöku­beiðanda eingöngu reist á staðhæfingu hans um að brotið hafi verið gegn rétti hans samkvæmt mannréttindasáttmálanum. Af dómi héraðsdóms verður ekki ráðið að endurupptökubeiðandi hafi byggt vörn sína á slíkum sjónarmiðum en í umsögn ríkis­saksóknara kemur hins vegar fram að það hafi endurupptökubeiðandi gert við áfrýjun málsins til Hæstaréttar en hann síðan fallið frá áfrýjuninni. Án tillits til þess hvort meðferð á máli endurupptökubeiðanda samræmist þeim sjónarmiðum sem dómstólar líta til í því sambandi getur hún samkvæmt framansögðu ekki falið í sér verulegan galla á meðferð máls í skilningi d. liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.
  10. Í beiðni endurupptökubeiðanda er jafnframt byggt á því að þeir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu og íslenskra dómstóla, sem hafi verið kveðnir upp eftir að dómur var kveðinn upp í máli hans, teljist til nýrra gagna í skilningi a. liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Á það verður ekki fallist. Í þessu sambandi er athygli vakin á því að fyrir Alþingi liggur nú frumvarp dómsmálaráðherra þar sem gert er ráð fyrir breytingum á lagareglum um endurupptöku dómsmála. Í b. lið 10. gr. frumvarpsins er lagt til að gerðar verði breytingar á a. lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 þannig að endurupptaka verði heimil á grundvelli nýrra gagna eða upplýsinga sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk. Í frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að líta megi á úrlausnir alþjóðlegra dómstóla sem nýjar upplýsingar í þessu sambandi. Með vísan til þessa og því sem kemur fram í áðurnefndum dómi Hæsta­réttar um að við skýringu lagareglna um endurupptöku dæmdra mála verði orðum þeirra ekki léð rýmri merking en felst í bók­staflegum skilningi þeirra er það niðurstaða nefndarinnar að þeir dómar sem endurupptökubeiðandi vísar til séu ekki ný gögn í skilningi a. liðar 1. mgr. 228. gr. laganna.
  11. Samkvæmt því verður að hafna beiðni endur­upptöku­beiðanda um endurupptöku málsins.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Jóns Þórs Sigurðssonar um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. S-48/2013, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. maí 2013, er hafnað.

Haukur Örn Birgisson formaður

Gizur Bergsteinsson

Ingibjörg Benediktsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta