Hoppa yfir valmynd
7. mars 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir árið 2011

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir árið 2011 liggur nú fyrir.

Helstu niðurstöður er þær að handbært fé frá rekstri var neikvætt um 53,4 ma.kr. en var neikvætt um 73,7 ma.kr. á árinu 2010. Tekjur jukust um 6,3 ma.kr. og á sama tíma drógust gjöldin saman um 5,5 ma.kr. Þetta er betri niðurstaða en í gert var ráð fyrir í áætlunum þar sem gert var ráð fyrir að handbært fé frá rekstri yrði neikvætt um 73,2 ma.kr.

Innheimtar tekjur

Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 468,1 ma.kr. árið 2011 sem er 1,4% aukning frá árinu 2010.

Tekjuskattur einstaklinga skilaði tekjum að fjárhæð 92,6 ma.kr. sem er 4,0% aukning miðað árið áður og 1,1 ma.kr. yfir áætlun. Innheimta eignarskatta jókst um 14,7% á milli ára og nam 10,6 ma.kr. sem er 0,4 ma.kr. undir áætlun. Aukninguna má að mestu rekja til meiri tekna af auðlegðarskatti sem skilaði 6,0 ma.kr. árið 2011 samanborið við 3,5 ma.kr. árið áður, fyrst og fremst vegna tekna af viðbótarálagningu á hlutabréfaeign/eigið fé einstaklinga í fyrirtækjum.

Þess ber að geta að áhrif kjarasamninga á vinnumarkaði sem tóku gildi um mitt ár höfðu meiri áhrif en gert var ráð fyrir en þeir höfðu í för með sér meiri launahækkanir en búist hafði verið við.

Tekjur af virðisaukaskatti, sem er stærsti einstaki liður veltuskatta, jukust um 1,5% á milli ára og námu 123,6 ma.kr. sem er 4,2 ma.kr. undir áætlun. Frávikið má rekja til minni innheimtu í nóvember og desember en áætlanir gerðu ráð fyrir þar sem tekjur af virðisaukaskatti höfðu verið á áætlun mestan hluta ársins.

Af þessum liðum jukust vörugjöld af ökutækjum mest á milli ára eða um 69,8% enda jókst innflutningur bifreiða verulega árið 2011. Vörugjöld af bensíni og olíu jukust lítillega á milli ára og námu samanlagt 18,3 ma.kr. sem er um 0,3 ma.kr. undir áætlun. Þar af nema tekjur af olíugjaldi 6,5 ma.kr. og af bensíngjöldum 11,8 ma.kr. Með hliðsjón af innheimtu þessara gjalda má áætla að á árinu 2011 hafi skattstofn bensíngjalds lækkað um 6,9% og olíugjalds um rúm 2% frá fyrra ári.

Sala eigna skilaði tekjum að fjárhæð 3,8 ma.kr. sem er 2,8 ma.kr. yfir áætlun. Það frávik skýrist einkum af lokauppgjöri í tengslum við Avens-samkomulagið frá árinu 2010 en í desember 2011 féllu til 3 ma.kr. tekjur vegna þess sem ekki hafði verið áætlað fyrir.

Greidd gjöld

Greidd gjöld ríkissjóðs námu 525,5 ma.kr. og drógust saman um 5,5 ma.kr. milli ára, eða um 1%. Helstu útgjaldaliðirnir eru raktir hér;

Vaxtagjöld ríkissjóðs drógust saman um 9,1 ma.kr. milli ára og voru jafnframt 1,8 ma.kr. innan heimilda. Útgjöld til almennrar opinberrar þjónustu jukust um 1,6 ma.kr. milli ára. Útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála voru 7 ma.kr. hærri en á sama tímabili 2010. Útgjöld vegna Lífeyristrygginga jukust um 11,3 ma.kr. milli ára sem var nálægt því sem gert var ráð fyrir í áætlunum. Þá jukust bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð um 1,7 ma.kr. milli ára. Greiddar vaxtabætur voru 7,2 ma.kr. hærri en á fyrra ári sem skýrist að stórum hluta með sérstakri vaxtaniðurgreiðslu að upphæð 6,5 ma.kr.

Á móti drógust útgjöld saman um 11,2 ma.kr. milli ára vegna flutnings á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Greiddar barnabætur voru 1,9 ma.kr. lægri en á sama tímabili í fyrra, útgjöld Fæðingaorlofssjóðs 704 m.kr. lægri og útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs 675 m.kr. lægri.

Útgjöld til heilbrigðismála jukust um 3,7 ma.kr. milli ára. Þá jukust útgjöld vegna Sjúkratrygginga um 591 m.kr. milli ára og voru 360 m.kr. umfram heimildir tímabilsins. Þá jukust útgjöld til hjúkrunarheimila um 709 m.kr. milli ára.

Útgjöld til efnahags- og atvinnumála drógust saman milli ára um 4,4 ma.kr. og voru jafnframt 4,6 ma.kr. innan heimilda tímabilsins. Þar vegur þyngst að ýmsar framkvæmdir hafa farið hægar af stað en gert var ráð fyrir. Útgjöld Háskóla Íslands jukust um 340 m.kr. á milli ára en útgjöld til menningar-, íþrótta- og trúmála voru svipuð og á sama tímabili í fyrra. Útgjöld Ofanflóðasjóðs jukust um 522 m.kr á milli ára. Útgjöld sérstaks saksóknara jukust um 351 m.kr. þrátt fyrir að vera 416 m.kr. innan fjárheimilda. Útgjöld til umhverfisverndar jukust lítillega milli ára eða um 340 m.kr. Útgjöld til Varnarmála drógust saman um 258 m.kr. milli ára og voru 61 m.kr. innan heimilda.

Útgjöld vegna lífeyrisskuldbindinga voru 934 m.kr. umfram fjárheimildir og greiddur fjármagnstekjuskattur ríkissjóðs 1,3 ma.kr. hærri en heimildir gerðu ráð fyrir.

Hreinn lánsfjársöfnuður

Hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 57,4 ma.kr. sem er 59,6 ma.kr. betri staða en á sama tíma í fyrra. Handbært fé frá rekstri batnar um 20,3 ma.kr. og fjármögnunarhreyfingar um 39,3 ma.kr. Aðallega er um að ræða hækkun afborgana veittra lána frá fyrra ári. Afborganir af lánum ríkissjóðs á árinu 2011 námu 224,2 ma.kr. Afborganir innlendra skulda námu 88,8 ma.kr. Afborganir erlendra skulda námu 135,4 ma.kr. Aðallega er þar um að ræða uppkaup ríkissjóðs í maí sl. fyrir 65,6 ma.kr., uppgreiðslu á gjaldeyrisforðaláni í september sl. sem tekið var 2008 að fjárhæð 12 ma.kr. og uppgreiðslu láns sem tekið var 2006 að fjárhæð 45 ma.kr.

Greiðsluafkomu Ríkissjóðs má lesa í heild sinni hér

Frekari upplýsingar má nálgast hjá upplýsingafulltrúa fjármálaráðuneytisins, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta