Hoppa yfir valmynd
30. september 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fleiri kerfisbreytingar í farvatninu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hyggst mæla fyrir ellefu málum á yfirstandandi þingi. Þar af eru átta lagafrumvörp sem fela meðal annars í sér heildarskoðun á Menntasjóði námsmanna, heimild opinberra háskóla til að innheimta skólagjöld af nemendum utan EES-svæðisins og fækkun samkeppnissjóða ráðuneytisins úr átta í þrjá. Þar að auki stendur til að efla viðbrögð við netöryggisógnum, auka aðgang að gögnum hins opinbera og kynna aðgerðaráætlun í gervigreind.

„Við ætlum að fylgja eftir þremur árangursríkum árum í ráðuneytinu og stuðla að sterkara þekkingarsamfélagi á Íslandi, efla veg hugvitsins og leiða til aukinnar skilvirkni í kerfunum okkar. Við í HVIN höfum hugsað til framtíðar frá fyrsta degi og ekki veigrað okkur við að ráðast í kerfisbreytingar til að ná árangri. Við ætlum okkur að halda því ótrautt áfram núna á síðasta ári kjörtímabilsins,“ segir Áslaug Arna.

Betri og skilvirkari Menntasjóður

Mikil vinna hefur átt sér stað í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu að undanförnu við að kortleggja stöðu Menntasjóðs námsmanna með það fyrir augum að gera sjóðinn að fýsilegri valkosti fyrir námsmenn. Þannig lagði Áslaug Arna fram skýrslu á Alþingi í desember síðastliðnum þar sem fyrirliggjandi gögn og tölulegar staðreyndir voru nýttar til að skýra hvernig til hefur tekist við breytingar á sjóðnum á undanförnum árum. Í framhaldinu lagði ráðherrann fram frumvarp þar sem ábyrgðarmenn á námslánum voru felldir á brott að fullu og breytingar voru gerðar til að auðvelda námsmönnum að njóta námsstyrks. 

Í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu er nú unnið að heildarendurskoðun á Menntasjóðnum og til stendur að bera afrakstur þeirrar vinnu undir Alþingi í upphafi næsta árs. Við vinnuna er meðal annars horft til þess að bæta lánakjör námsmanna og stuðla að því að fleiri njóti námsstyrks. Þá er jafnframt til skoðunar hvernig megi sjálfvirknivæða meira í starfsemi sjóðsins og þannig stuðla að betri nýtingu fjármuna og betri þjónustu við lántaka. 

Gervigreind og sameining sjóða

Þá hefur Áslaug Arna einnig í hyggju að kynna skýrslu um hvernig gervigreind getur nýst til að stuðla að framförum í íslensku samfélagi. Í ráðuneytinu er unnið að aðgerðaáætlun um gervigreind til þess meðal annars að efla atvinnulíf, auka framleiðni og bæta þjónustu. Í skýrslunni, sem til stendur að kynna í desember, verða niðurstöður greiningar á tækifærum til að auka hagvöxt, bæta framleiðni í helstu atvinnugreinum og skapa ný störf með innleiðingu gervigreindartækni kynntar. 

Ráðuneytið hefur að sama skapi unnið að ítarlegri greiningu á umhverfi sjóða á vegum ráðuneytisins síðustu misseri. Hægt væri að auka árangur og skilvirkni opinberra samkeppnissjóða á Íslandi með því, til að mynda, að fækka og sameina samkeppnissjóði hins opinbera. Átta samkeppnissjóðir eru starfræktir á vegum ráðuneytisins og er stefnt að því að með frumvarpi, sem til stendur að leggja fram í haust, verði þeir sameinaðir í þrjá meginsjóði; rannsóknar- og innviðasjóð, nýsköpunarsjóð og áherslusjóð. Jafnframt er gert ráð fyrir möguleikanum á að sjóðir á vegum annarra ráðuneyta geti sameinast þessum þremur sjóðum. Þá er stefnt að því að skerpa á hlutverki Rannís sem víðtæk umsýslu- og þjónustustofnun opinberra samkeppnissjóða.

Sem fyrr segir eru 11 mál á þingmálaskrá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á yfirstandandi þingi. Nánari útlistun á þeim má nálgast með því að smella hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta