Hoppa yfir valmynd
21. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stopp – hingað og ekki lengra

Hingað og ekki lengra, hættum að kenna hvert öðru um heldur sameinumst í því að endurreisa samfélagið á traustum grunni, sagði Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, þegar hann ávarpaði ársfund Alþýðusambands Íslands sem hófst í dag. 

Guðbjartur Hannesson á ársfundi ASÍ 2010Nauðsynlegt að ná jafnvægi í ríkisfjármálum sem fyrst

Ráðherra sagði að sjaldan hefði þjóðin staðið frammi fyrir jafn mörgum, stórum og erfiðum verkefnum og þessi misseri. Því þyrftu stjórnvöld að taka erfiðar ákvarðanir sem ekki yrði vikist undan. Hann minnti á að fyrir aðeins tveimur árum lækkuðu tekjur ríkissjóðs verulega á sama tíma og vaxtagreiðslur jukust stórlega en þessi staðreynd vildi gleymast. Ráðstöfunarfé ríkissjóðs hefði minnkað um 40%. Hann benti á að áætlaður halli fjárlaga á þessu ári væri um 75 milljarðar króna og því yrði að ræða samtímis um aðlögun tekna og útgjalda með niðurskurði ríkisútgjalda, aukningu tekna og eflingu atvinnulífsins.

Ráðherra sagði skiljanlegt að aðhalds- og sparnaðaraðgerðir stjórnvalda væru af mörgum illa séðar þar sem þær leiddu til skertra lífsgæða og minni þjónustu en áður. Lífsbarátta margra væri hörð, ekki síst þeirra sem glímdu við verulega tekjuskerðingu vegna atvinnuleysis eða launalækkana og bæru þungar skuldabyrðar. Aðhaldsaðgerðir stjórnvalda væru hins vegar nauðsynlegar:

„Okkur er lífsnauðsynlegt að ná jafnvægi í ríkisfjármálum sem fyrst, þ.e. að aðlaga tekjur og útgjöld, ná jöfnuði. Það er sú leið sem við verðum að fara svo við getum sem fyrst farið að verja fjármunum til að byggja upp varanlega velferð í stað þess að horfa á eftir þeim í vaxtagjaldahítina. Þannig má ef til vill segja að verkefnið sé að breyta vöxtum í velferð.“

Tekið verði á víxlverkunum almannatrygginga og lífeyrissjóða

Ráðherra gerði erfitt atvinnuástand á Suðurnesjum að sérstöku umfjöllunarefni í ræðu sinni, fjallaði um baráttu gegn langtímaatvinnuleysi, áherslu á vinnumarkaðsúrræði og að þau væru aðgengileg öllum og ræddi jafnframt um stöðu og afkomu lífeyrisþega. Meðal annars sagði hann frá því að hann myndi á næstunni óska eftir viðræðum við lífeyrissjóði og fjármálaráðuneytið vegna skerðinga lífeyrissjóða á greiðslum til öryrkja vegna greiðslna sem þeir fá frá almannatryggingum. Markmið þeirra væri að skerðingunum yrði hætt tímabundið svo andrými gæfist til að leysa það vandamál sem hlýst af víxlverkunum almannatrygginga og lífeyrissjóða til frambúðar.

Atvinnuleysisbótatímabil verði lengt um eitt ár

Ráðherra sagði frá endurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar sem nú stendur yfir og sagði nokkuð ljóst að réttur til atvinnuleysisbóta verði lengdur tímabundið úr þremur árum í fjögur. Áætlaður kostnaðarauki atvinnuleysistryggingakerfisins vegna þessa er um einn milljarður króna á næsta ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta