Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 208/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 208/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23020014, KNU23020015 og KNU23020016

 

Beiðni [...], [...] og

barna þeirra um endurupptöku

I.       Málsatvik og málsmeðferð

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 276/2021, uppkveðnum 8. júlí 2021, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 19. mars 2021, um að synja einstaklingum er kveðast heita [...] og vera fædd [...], (hér eftir K) og [...] og vera fæddur [...], (hér eftir M) og börnum þeirra er þau kveða heita, [...], f.d. [...], (hér eftir A), [...], f.d. [...], (hér eftir B), [...], f.d. [...], (hér eftir C), [...], f.d. [...], (hér eftir D), og [...], f.d. [...] (hér eftir E), öll ríkisborgarar Íraks, um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Hinn 3. febrúar 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku máls þeirra ásamt fylgigögnum. Hinn 29. mars 2023 bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda.

Beiðni kærenda um endurupptöku á málum þeirra og barna þeirra er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni um endurupptöku er þess krafist að kærunefnd endurupptaki mál kærenda og barna þeirra, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, og þeim og börnum þeirra verði veitt staða flóttamanna á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kærendum og börnum þeirra verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kærendum og börnum þeirra verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Jafnframt er byggt á 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Kærendur vísa til þess að fram hafi komið í úrskurði kærunefndar í kærumáli þeirra að þau hafi ekki lagt fram gögn sem styddu við frásögn þeirra um starf M fyrir írakska herinn í valdatíð Saddam Hussein og því hafi ekki verið hægt að leggja til grundvallar í málinu að þau ættu á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda í Írak á grundvelli tengsla M eða bræðra hans við [...] flokkinn. Kærendur telja að þar sem þau hafi nú lagt fram starfsmannaskírteini M í írakska hernum, gefið út 1. október 2005 (Department of Facilities Protection Sec) og afrit af ákvörðun ráðherra stjórnarinnar í hernum um að setja M á launalista menningarmálaráðuneytisins þá hafi þau lagt grunn að frásögn þeirra að þau eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda í Írak. Í tilfelli M þá búi hann yfir viðkvæmum upplýsingum um þær stofnanir og þá einstaklinga sem hann hafi unnið fyrir á þeim tíma.

Þá er í beiðni vísað til þess að í framangreindum úrskurði kærunefndar hafi það verið mat nefndarinnar að kærendur hefðu ekki lagt fram gögn sem til þess væru fallin að sanna á þeim deili og því yrði ekki séð af framlögðum skýrslum, ljósmyndum og frétt að þau ættu við um kærendur eða fjölskyldumeðlimi M. Er vísað til þess að kærendur hafi nú lagt fram  íröksk vegabréf í eigu M, K og A til Útlendingastofnunar í tengslum við umsókn M um atvinnuleyfi.

Þá vilja kærendur koma á framfæri að börn þeirra hafi nú aðlagast íslensku lífi að öllu leyti. Börnin tali nú íslensku betur en arabísku og hafa engin tengsl lengur við Írak. Þá stundi A nám við íslenskan skóla og eigi marga ástkæra vini hér á landi, þar á meðal kærustu sem hann muni eiga erfitt með að skilja við. A glími við ótta við brottvísun og þjáist af kvíða. Samkvæmt lækni A þá séu líkur á því að hann hafi þróað með sér psoriasis húðsjúkdóminn vegna streitu.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í úrskurði kærunefndar nr. 276/2021 var lagt mat á aðstæður kærenda og barna þeirra í heimaríki og byggt á gögnum sem þá lágu fyrir. Komist var að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður þeirra í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærendur byggja beiðni um endurupptöku á gögnum sem þau hafi nú lagt fram og þau telja renna stoðum unir frásögn M um að hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki. Kærendur kveða að M hafi sinnt starfi sem öryggisvörður fyrir írakska herinn árið 2005 og hafi yfir að búa viðkvæmum upplýsingum um þær stofnanir og þá einstaklinga sem hann hafi unnið fyrir á þeim tíma. Umboðsmaður kærenda lagði fram frumrit ýmissa skírteina er gefin hafi verið út í nafni M, svo sem starfsmannaskírteini úr hernum útgefið 1. október 2005, herþjónustubók og skírteini er M hafi fengið útgefin vegna náms síns í heimaríki ásamt staðfestingu írakskra yfirvalda að einstaklingur með nafni kæranda hafi verið ráðinn til að gegna öryggisvörslu fyrir herinn. Afrit af framangreindum námsskírteinum lágu fyrir í gögnum málsins þegar úrskurður kærunefndar nr. 267/2021 var kveðinn upp.

Hinn 4. apríl 2023 kom fyrir kærunefnd arabískur túlkur og fór yfir með fulltrúa kærunefndar hvað kemur fram á framangreindum skírteinum og gögnum einkum herþjónustubók. Túlkun á umræddri herþjónustubók leiddi í ljós að M hafi átt að mæta í herskyldu 25. júní 1997 en herskyldu hans hafi verið frestað þar sem hann hafi verið í námi í hjúkrunarfræði, hann hefði átt að mæta ári síðar en herskyldu hans hafi verið frestað aftur árið 1998. Ekki kom fram í bókinni að M hefði gegnt herþjónustu í Írak. Þá mátti af framlögðum námskírteinum ráða að M hefði verið við nám allt til ársins 2003. Af framangreindu má fremur ráða að M hafi ekki sinnt herskyldu á meðan hann stundaði nám í heimaríki og M hafi því ekki sinnt herþjónustu í valdatíð Saddam Hussein. Kærunefnd bar framangreindar upplýsingar undir kærendur 4. apríl 2023. Hinn 10. apríl 2023 bárust athugasemdir frá kærendum. Í þeim andmæla kærendur því að í framlögðum gögnum komi fram að herskyldu M hafi verið frestað en hið rétta sé að nám hans hafi verið hluti af herskyldu hans. Kærendur telja ljóst af framlögðum skjölum hafi M sinnt herskyldu með námi sínu í hjúkrunarfræði og hafi síðan orðið verktaki í herþjónustu árið 2005. Kærendur telja ljóst að ofsóknir á hendur þeim sem hafi sinnt störfum fyrir herinn hafi ekki linnt í kjölfar þess að Saddam Hussein hafi verið steypt af stóli og séu þær enn til staðar í dag vegna átaka um völd milli vopnaðra hópa í Írak.

Í framangreindum úrskurði kærunefndar var það mat kærunefndar að ekki væri ástæða til að draga í efa að M væri hjúkrunarfræðingur að mennt og hefði starfað sem slíkur í heimaríki. Í gögnum málsins hefði þó ekkert komið fram sem styddi við frásögn kærenda um störf M fyrir herinn þegar Saddam Hussein fór með völd í landinu, tengsl hans eða bræðra hans við [...]-flokkinn eða fangelsisvistar hans í heimaríki. Kærunefnd taldi þó ekki ástæðu til að draga í efa, í ljósi sögu Íraks, að einhverjir fjölskyldumeðlimir M hefðu látið lífið eða verið rænt og að kærendur hefðu orðið fyrir hótunum og ofbeldi af hálfu ótilgreindra aðila á árunum 2003 til 2012 en gögnin renndu hins vegar ekki stoðum undir það að það hefði verið á grundvelli tengsla M eða bræðra hans við [...]-flokkinn. Þá var ekki dregið í ef að M hefði gegnt störfum fyrir íröksk yfirvöld árið 2005 og væri það til merkis um að M hefði ekki átt í vandræðum með að fá störf hjá írökskum stjórnvöldum eftir fráfall Saddam Hussein. Eins og fram hefur komið ber framlögð herþjónustubók með sér að M hafi ekki sinnt herskyldu í tíð Saddam Hussein þar sem hann hafi verið í námi á þeim tíma en ekki er dregið í efa að M hafi sinnt störfum fyrir íröksk stjórnvöld á árinu 2005. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að útiloka að hluti af námi M hafi falist í því að annast hermenn í herliði Saddam Hussein er það enn mat kærunefndar að þau störf eða tengsl hans við […]-flokkinn af þeim sökum hafi ekki verið slík að M eigi á hættu áreiti af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila í heimaríki. Þá séu störf M fyrir íröksk stjórnvöld á árinu 2005 til merkis um það að M sé ekki eftirlýstur eða að öðru leyti sérstakt skotmark írakskra stjórnvalda. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að framangreint starfsmannaskírteini M fyrir írakska herinn, herþjónustubók og önnur framlögð gögn renni ekki frekari stoðum undir þá málsástæðu kærenda að þau eigi á hættu ofsóknir af hálfu írakskra stjórnvalda.

Í beiðni um endurupptöku er jafnframt byggt á því að kærendur hafi nýverið lagt fram íröksk vegabréf M, K og A til Útlendingastofnunar sem sanni á þeim deili.

Vegna staðhæfingar í beiðni kærenda um að þau hefðu lagt fram vegabréf M, K og A til Útlendingastofnunar bar kærunefnd það undir stofnunina 17. mars 2023. Í svari frá Útlendingastofnun 29. mars 2023 kemur fram að ekki væri að sjá í dagbókarfærslum hjá stofnuninni að þau hefðu lagt fram vegabréf. Kærunefnd sendi umboðsmanni kærenda fyrirspurn samdægurs og greindi frá svörum Útlendingastofnunar. Óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá kærendum um það hvort þau hefðu örugglega lagt fram vegabréf sín og hvenær það hefði þá átt sér stað. Svar frá lögmanni kærenda barst samdægurs og greindi hann frá því að þau hefðu lagt fram ungversk ferðaskilríki og skönnuð afrit af útrunnum írökskum vegabréfum M, K og A. Með svarinu bárust skönnuð afrit af umræddum vegabréfum og ferðaskilríkjum. Í kærumáli kærenda lágu fyrir í gögnum málsins umrædd skönnuð afrit af vegabréfum og ferðaskilríkjum M, K og A og er því ekki um að ræða ný gögn í máli þeirra sem haft geti áhrif á efnislega niðurstöðu málsins.

Að framangreindu virtu er það því mat kærunefndar að atvik í máli kærenda og barna þeirra hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál þeirra upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Með vísan til alls framangreinds er beiðni kærenda um endurupptöku málsins hafnað.


 

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellants to re-examine their case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta