Ung-sendiherra hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.
Ég heiti Bjarki Þórsson og er 22 ára laganemi við Háskólann í Reykjavík með mikinn áhuga á alþjóða- og utanríkismálum. Á þessu ári hef ég verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að vera fulltrúi Íslands hjá Módel ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu). Hlutverk módelsins er að ungt fólk í aðildarríkjum ÖSE móti og skapi aðgerðaáætlun um málefni ungs fólks, sem síðan verður lögð fyrir ráðherraráð ÖSE til ráðgjafar í málaflokknum. Verkefninu er einnig ætlað að vekja athygli ungs fólks á starfsemi ÖSE.
En hvernig kom það til að ég varð fulltrúi Íslands?
Í október á liðnu ári sá ég tilkynningu á Facebooksíðu utanríkisráðuneytisins þar sem auglýst var eftir ung-sendiherra til að taka þátt í módelinu fyrir Íslands hönd. Ég hef alltaf stefnt á alþjóða- og utanríkismálin sem starfsvettvang og taldi þarna vera komið hið fullkomna tækifæri. Ég sótti því um þrátt fyrir að vita lítið sem ekkert um ÖSE, annað en að stofnunin stæði fyrir kosningaeftirliti. Hluti af umsókninni var ritgerð þar sem umsækjendur áttu að segja frá sinni sýn á málefni ungs fólks út frá starfsemi ÖSE. Ég komst að því að hún snýst st um margt fleira, t.d gegnir ÖSE mikilvægu hlutverki við eflingu öryggis, mannréttinda, lýðræðis og átakavarna í aðildarríkjunum. Innan stofnunarinnar sem staðsett er í Vín fer fram reglubundið samráð á sviði mannréttindamála, lýðræðis, réttinda minnihlutahópa, auk öryggis- og afvopnunarmála.
Rétt fyrir jól barst svo svarið frá svissnesku skipuleggjendunum; ég hafði verið valinn til þess að vera fulltrúi Íslands og var sérstaklega hrósað fyrir ritgerðina. Ég brosti allan hringinn þessi jól. Fyrsti fundur okkar ung-sendiherranna var svo strax í janúar.
Verkefnið sem beið mín og hinna 56 ung-sendiherranna var að semja aðgerðaáætlun ungs fólks í tveimur lotum. Svissnesku skipuleggjendurnir óskuðu eftir fyrstu tillögum frá okkur en þær yrðu síðan grunnurinn að aðgerðaáætluninni. Ég sendi mínar hugmyndir og tveimur vikum seinnavar ég á leiðinni á minn fyrsta fund í Vínarborg.
Þar nýtti ég tímann m.a. til að heimsækja sendiráð Íslands, þar sem Auðunn Atlason fastafulltrúi og Ingibjörg Davíðsdóttir, þáverandi varafastafulltrúi, fræddu mig um ÖSE og meginverkefni og áherslur Íslands hjá stofnuninni..
Í Vín ræddum við aðgerðaáætlunina í þaula út frá hugmyndum okkar, sem voru ýmist betrumbættar, þeim hafnað eða nýjum liðum bætt við. Eftir þrjár umferðir var fyrsta útgáfa áætlunarinnar samþykkt af öllum ung-sendiherrunum á „fastaráðsfundi“ en þar var farið eftir hinu hefðbundna formi fastaráðsfunda ÖSE. Var þetta heilmikið afrek þar sem ákvarðanir ÖSE byggja á samþykki allra 57 ríkjanna. Oft drógust fundahöld á langinn, m.a. þegar tekist var á um orðaröðun eða kommuskipan. Að lokum samþykktum við þó skjal í 143. Liðum, um vernd ungmenna, þátttöku og framgöngu í samfélaginu. Í Vín voru ekki einungis stíf fundarhöld heldur kynntumst við einnig starfsemi ÖSE, m.a. hjá framkvæmdastjóra ÖSE, Ítalanum Lamberto Zannier og Didier Burkhalter,utanríkisráðherra Sviss, sem fer með formennsku ÖSE í ár. Þá gafst okkur gafst kostur á að hitta alla fastafulltrúa aðildarríkja ÖSE, ásamt austurrískum stjórnmálamönnum. Það var mjög lærdómsríkt að fá innsýn í verkefni stofnunarinnar; taka þátt í alþjóðlegum samningaviðræðum á sama grunni og þær fara fram í raun og veru. Þá skemmdi ekki fyrir að fá að ræða við og læra af alvöru diplómötum, en ánægjulegast var þó að kynnast hinum 56 fulltrúunum.
Hálfu ári seinna hittumst við svo aftur í Belgrad í Serbíu, í borg sem á sér merka sögu og þar sem enn má sjá ummerki um stríð liðinna ára. Þar héldu fundarhöld áfram í sjálfri Serbíuhöll. Sú feiknarmikla bygging hýsti áður framkvæmdavald gömlu Júgóslavíu og er þar sagan allt í kring um mann. Í Belgrad voru háðar miklar rimmur um hina ýmsu liði áætlunarinnar. Til að mynda vildi stór hluti hópsins, þar á meðal undirritaður, standa fast á tillögu um að samræma kosningaaldur í aðildarríkjum og lækka í 16 ár, en aðrir lögðust harðlega gegn þessu og töldu jafnvel að það ætti að hækka hann í 25 ár. Niðurstaðan var að hann yrði óbreyttur, 18 ár. Við komumst að endingu í gegnum skjalið allt, sem var í alls 140 liðum og var það samþykkt samhljóða.
Aðgerðaáætlunin verður lögð fyrir ráðherrafund ÖSE í lok árs og verður vonandi ráðgefandi í málefnum ungs fólks á vettvangi aðildaríkjanna og stofnunarinnar sjálfrar. Eftir þessar tvær lotur hef ég lært ótrúlega mikið, ekki bara í samningatækni, diplómatíu og alþjóðasamskiptum heldur einnig það að 57 manneskjur með mismunandi bakgrunn og reynslu geta sammælst um eina niðurstöðu með málamiðlun að vopni. Ég lærði að maður getur ekki fengið allt sem maður ætlast til í samningaviðræðum, heldur þarf að finna hin gullna veg milli andstæðra póla og miðla málum svo að allir geti verið nokkuð sáttir við niðurstöðuna. Ég er mikið stoltur af þessu verkefni og mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í því. Ég þakka utanríkisráðuneytinu fyrir að hafa auglýst þetta frábæra framtak og hvet allt ungt fólk sem hefur áhuga á að komast í alþjóða- og utanríkismál að leita sér að sambærilegum tækifærum; það er engu að tapa. Góð byrjun er til dæmis að „líka við“ utanríkisráðuneytið á Facebook!
Eftir að hafa kynnst 56 frábærum fulltrúum hinna aðildarríkjanna veit ég að framtíðin er björt og er einstaklega þakklátur fyrir þessa 56 nýju vini sem ég eignaðist.