Hoppa yfir valmynd
8. maí 2007 Innviðaráðuneytið

Grasrótin hefur verið undirstaða atvinnuflugs

Flugmálafélag Íslands og Félag íslenskra einkaflugmanna efndu í morgun til opins fundar um almannaflug. Þar fluttu fulltrúar hagsmunaaðila stutt erindi og fulltrúar stjórnmálaflokkanna reifuðu sjónarmið sín um þýðingu almannaflugs.

Frá fundi Flugmálafélags Íslands um almannaflug.
Arngrímur Jóhannsson, forseti Flugmálafélagins, setti fund um almannaflug sem haldinn var í samvinnu við Félag íslenskra einkaflugmanna.

Yfirskrift fundarins var: Staða almannaflugs og horfur – hver er staðan í dag, hvernig hefur hún breyst síðustu árin og hvernig sjáum við framtíðina? Með almannaflugi er átt við flug að undanskildu áætlunarflugi, þar með talið einkaflug, sviffflug, fisflug, módelflug, sjúkraflug flugvéla og þyrlna, viðskiptaflug einkaþotna og útsýnisflug, svo eitthvað sé talið.

Fundarboðendur telja brýnt að fjalla um þær breytingar sem orðið hafa í flugi á liðnum árum, þýðingu grasrótarinnar í flugi, uppbyggingu almannaflugs, skattlagningu og um litla flugvelli og lendingarstaði víðs vegar um landið.

Eldhugar lögðu grunninn

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneyti, flutti ávarp í upphafi fundar og bar fundarmönnum kveðju Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Hún sagði í upphafi að frumkvöðlar og eldhugar í Flugmálafélaginu hefði lagt grunn að íslenska flugheiminum og byggt upp grasrótina. Ráðuneytisstjórinn sagði það hlutverk samgönguyfirvalda að setja almennar leikreglur og skapa skilyrði og aðstæður til þess að flugið geti dafnað og þrifist. Eðlilegt væri á þessum fundi að staldra við flugvallamál og sagði alla flugvelli sem verið hefðu í rekstri um síðustu áramót verða áfram opna í umsjón Flugstoða ohf. Þá sagði hún samgönguráðuneytið fagna þeirri umræðu sem í hönd færi milli fulltrúa Flugmálafélagsins og Flugstoða um þarfir einkaflugs og litla flugvelli og lendingarstaði víðs vegar um landið en nokkrum þeirra hefur verið lokað síðustu árin. Sagði hún að þannig mætti tryggja að sjónarmið einkaflugs kæmist á framfæri við stjórnvöld og sameiginlega gætu þessir aðilar lagt fram tillögur um hvaða lendingarstaði æskilegt væri að opna á ný.

Lokaorð Ragnhildar voru þessi: ,,Viðfangsefni þessa fundar er brýnt – framtíð almannaflugs á Íslandi. Tökum höndum saman, samgönguyfirvöld og grasrótin, og ræðum allt sem verða má fluginu til framdráttar. Áhugi okkar stefnir í sömu átt, að íslenskir flugnemar, flugáhugamenn, atvinnuflugmenn og aðrir sem sinna flugrekstri geti starfað í heilbrigðu umhverfi og sýnt það í verki að flugið er öruggasti ferðamátinn."

Baldvin Birgisson, skólastjóri Flugskóla Íslands sem nú tilheyrir Fjöltækniskólanum, fór yfir sögu flugkennslu á Íslandi og sagði aðild Íslands að JAA, Flugöryggissamtökum Evrópu, hafa verið stórt framfaraskref. Hann sagði uppgang í fluginu og að erlendir aðilar hefðu leitað til Flugskólans eftir kennslu og aukin umsvif væru hjá skólanum bæði við flugkennslu og þjálfun og kennslu fyrir innlendu flugfélögin. Sagði hann um 140 ný störf hafa orðið til síðustu þrjú árin og þörf væri fyrir 40 til 60 nýja flugmenn á Íslandi árlega næstu árin.

Baldvin gerði að umtalsefni ýmsar takmarkanir sem væru í gildi um æfinga- og kennsluflug á Reykjavíkurflugvelli, Selfossflugvelli og Keflavíkurflugvelli. Sagði hann það snúið að uppfylla kröfur og reglur um tilteknar æfingar og þjálfun ef ekki væri hægt að stunda þær á þessum flugvöllum nema með miklum takmörkunum. Kvaðst hann óttast að ef þrengt yrði um of að kennsluflugi myndi það flytjast úr landi og einkaflug leggjast af. Menn myndu þá snúa sér að öðru tómstundagamni.

Flugið forsenda byggðar í landinu

Hörður Sverrisson, formaður Félags ísl. einkaflugmanna, sagði grasrótina þurfa að vera öfluga áfram, hún væri undirstaða atvinnflugsins. Óskaði hann eftir að sveitastjórnir víða um land íhuguðu að styðja við rekstur lítilla flugvalla og lendingarstaða í sínum byggðum og sagði brýnt að opna aftur suma þeirra 38 valla sem lokað hefði verið á síðustu áratugum. Hann gerði einnig að umtalsefni kröfur um blindflugsskírteini einkaflugmanna. Sagði hann sömu kröfur vera gerðar til endurnýjunar slíkra skírteina eins og hjá atvinnuflugmönnum. Það þýddi að mjög fáir einkaflugmenn leggðu í kostnað við að afla sér blindflugsréttinda sem væri miður því oft væri brýnt að geta nýtt sér blindflug í öryggisskyni. Taldi hann brýnt að endurskoða tilhögun þessara mála.

Undir það tók Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, einkaflugmaður og forstjóri Saga Capital á Akureyri, og kvaðst hann hafa aflað sér bandarískra blindflugsréttinda fyrir einkaflugmenn. Sagði hann það oft hafa komið sér vel á ferðum sínum milli Reykjavíkur og Akureyrar. Hann sagði flugið vera forsendu byggðar í landinu og að flugvélin væri í raun þarfasti þjónninn í dag. Hann sagði þýðingu Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni mjög mikla, hún væri brú í þeirri ört vaxandi gjá sem ríkti milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.

Í lokin tjáðu fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til Alþingis sig um gildi almannaflugs og nauðsyn þess að grasrótin fengi að vaxa og dafna áfram.


Frá fundi Flugmálafélags Íslands og Félags ísl. einkaflugmanna um almannaflug.
Fundurinn var haldinn í flugskýli Flugklúbbsins Geirfugls í Fluggörðum.

Frá fundi um almannaflug
Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri flutti ávarp í upphafi fundar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta