Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Feðradagur á Íslandi í fyrsta sinn

Sunnudaginn 12. nóvember 2006 verður sérstakur dagur tileinkaður feðrum á Íslandi í fyrsta skipti. Íslendingar fylgja þar með fordæmi landa víða um heim. Fjallað verður um feður í samfélagi nútímans og mikla þátttöku feðra á Íslandi í fæðingarorlofi á ráðstefnu sem haldin verður á Nordica Hótel í tilefni dagsins.

Mæðradagur hefur frá árinu 1934 verið haldinn hátíðlegur á Íslandi og í fjölmörgum öðrum löndum annan sunnudag í maí. Fjölmiðlakonurnar Margrét Blöndal og Inger Anna Aikman óskuðu eftir því að félagsmálaráðherra beitti sér fyrir því að sérstakur dagur yrði með sama hætti helgaður feðrum hér á landi. Að tillögu félagsmálaráðherra samþykkti ríkisstjórnin að annar sunnudagur í nóvember ár hvert skyldi helgaður feðrum á Íslandi. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var tilkynnt Almanaki Háskólans sem hefur staðfest að nýtt dagsheiti, feðradagur, verði formlega skráð í almanakið fyrir árið 2008.

Með þessu fylgja Íslendingar fordæmi landa víða um heim sem hafa haldið daginn hátíðlegan frá upphafi síðustu aldar. Í hinum enskumælandi heimi er þriðji sunnudagur í júní feðradagur en í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi er feðradagurinn annar sunnudagur í nóvember. Svo var einnig í Danmörku um skeið en feðradagur þar er nú haldinn hátíðlegur 5. júní ár hvert.  

Í tilefni dagsins efnir Félag ábyrgra feðra í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofu til ráðstefnu á Nordica Hotel undir yfirskriftinni „Feður í samfélagi nútímans“. Innlendir og erlendir fyrirlesarar fjalla um stöðu foreldra og barna í dag, þau gæði og tækifæri sem felast í foreldrahlutverkinu og mikilvægi fæðingarorlofs feðra hér á landi. Heiðursgestur er frú Vigdís Finnbogadóttir.

 

Skjal fyrir Acrobat ReaderDagskrá feðraráðstefnunnar (123 KB)

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta