Hoppa yfir valmynd
2. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnað fyrir stafrænar umsóknir um fæðingarorlof

Opnað hefur verið fyrir nýja stafræna umsókn um fæðingarorlof og geta verðandi foreldrar sem eru í launuðu starfi sótt um fæðingarorlof á einfaldan, stafrænan og notendavænan hátt.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir því að einfalda umsóknarferlið um fæðingarorlof, gera það sjálfvirkara og að veita þjónustu sem uppfyllir þarfir notenda.

Verkefnastofan Stafrænt Ísland og Vinnumálastofnun hafa í samstarfi unnið að þróun á tæknilegri útfærslu á stafrænni umsókn um fæðingarorlof.

Vinnumálastofnun hefur umsjón með umsýslu fæðingarorlofs og með stafrænni útfærslu á umsóknum er nú hægt að sækja um fæðingarorlof í gegnum vef Vinnumálastofnunar eða á Ísland.is eftir að hafa auðkennt sig með rafrænum skilríkjum. Þar geta verðandi foreldrar nú fyllt út umsókn um fæðingarorlof og allt sem henni viðkemur á stafrænu formi, eins og tilhögun fæðingarorlofs og skiptingu fæðingarorlofs. Þetta er mikil framþróun fyrir notendur þjónustunnar og á án efa eftir að nýtast öllum vel sem sækja sér þessa mikilvægu þjónustu.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar fagnar þessum áfanga og segir að með stafrænni umsókn um færðingarorlof sé nú stigið stórt skref í átt að stafrænni stjórnsýslu. „Umsóknarferlið er miklu einfaldara og til að mynda þá sækir ferlið sjálfkrafa þau gögn sem þurfa að fylgja umsókninni og sendir sjálfkrafa áfram til maka og atvinnurekanda til samþykktar. Þetta er til mikilla hagsbóta fyrir alla þá sem sækja þessa þjónustu. Stafræn umsókn um fæðingarorlof er einn liður í þeirri stafrænu vegferð sem við erum á.”

Stafræn umsókn um fæðingarorlof hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu umsóknarkerfis Ísland.is og rutt úr vegi hindrunum sem munu nýtast öllum stofnunum sem vilja nýta sér kerfið. Umsóknin fór hljóðlega í loftið á Ísland.is í byrjun árs og á vef Vinnumálastofnunar í framhaldinu. Ljóst er að eftirspurnin var mikil því í níliðnum mánuði var hlutfall stafrænna umsókna komið yfir 50% þrátt fyrir að þjónustan hafi ekki verið kynnt sérstaklega. Heildarfjöldi umsókna í maí var 576 og þar af 311 stafrænar. Stafræna umsóknin felur í sér gífurlegan tímasparnað fyrir einstaklinga sem þurfa nú ekki lengur að safna saman upplýsingum og senda fæðingarorlofssjóði, heldur sækir umsóknin sjálfkrafa upplýsingarnar sem þarf til og skilar í starfakerfi sjóðsins.

Um 14 þúsund manns sækja um fæðingarorlof árlega og ljóst að um mikinn tímasparnað að ræða fyrir einstaklinga, vinnuveitendur og starfsmenn Fæðingarorlofssjóðs að ógleymdum pappírssparnaði. Verðandi foreldrar sækja nú um stafrænt og geta fylgst með stöðu umsóknar í Ísland.is appinu.

Foreldrar á vinnumarkaði og sjálfstætt starfandi geta sótt um pappírslaust, sparað tíma í gagnaöflun og geta fylgst með stöðu umsóknar á einfaldan hátt. Stafræn umsókn um fæðingarorlof er í áframhaldandi þróun þannig að hún verði aðgengileg fyrir alla sem vilja nýta rétt sinn til fæðingarorlofs.

Stafræn umsókn um fæðingarorlof. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta