Uppgjör á framlagi til sveitarfélaga vegna endurgreiðslu á hækkun tryggingagjalds
Innanríkisráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 4. mars síðastliðnum um uppgjör á framlagi vegna endurgreiðslu á hækkun tryggingagjalds á árinu 2010.
Við lokaumræðu fjárlaga fyrir árið 2010 var ákveðið að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fengi sérstakt viðbótarframlag að fjárhæð 1.200 milljónir króna til greiðslu á framlagi til sveitarfélaga vegna hækkunar á launakostnaði þeirra í kjölfar hækkunar á tryggingagjaldi um 1,65 prósentustig eða úr 7,0% í 8,65%.
Sérstakar vinnureglur voru settar um úthlutun og greiðslur framlagsins. Á grundvelli þeirra var við áætlanagerð um úthlutun framlagsins stuðst við upplýsingar frá embætti ríkisskattstjóra um staðgreiðsluskil sveitarfélaga á tryggingagjaldi vegna launa sem greidd voru á tímabilinu janúar - desember 2009.
Framlagið vegna mánaðanna janúar til nóvember var greitt til sveitarfélaganna með jöfnum greiðslum, 100 milljónir í hvert sinn. Við hverja greiðslu var haldið eftir 5% geymslufé.
Á grundvelli upplýsinga frá embætti ríkisskattstjóra um staðgreiðsluskil sveitarfélaga á tryggingagjaldi vegna launa sem greidd voru á tímabilinu janúar - desember 2010 og að teknu tilliti til endanlegs fjármagns til ráðstöfunar, samtals að fjárhæð 1.411 milljónir króna, hefur úthlutun framlagsins til sveitarfélaga verið tekin til endurskoðunar og uppgjör farið fram.
- Endanlegt framlag til sveitarfélaga á árinu 2010 samtals að fjárhæð 1.411 m.kr. vegna endurgreiðslu á hækkun tryggingagjalds. (Pdf)
- Vinnureglur - Sérstakt framlag til sveitarfélaga til að mæta hækkun á greiðslu tryggingagjalds á árinu 2010. (Pdf)