Hoppa yfir valmynd
29. júlí 2011 Innviðaráðuneytið

Hvítbók Evrópusambandsins um samgöngur til skoðunar í EFTA-ríkjunum

EFTA-ríkin vinna nú sameiginlega að umsögn um Hvítbók Evrópusambandsins um samgöngur og flutninga innan sambandsins. Hægt er að koma á framfæri athugasemdum við drög að umsögn EFTA með því að senda þær á netfangið [email protected] fyrir 20. ágúst. nk.

Hvítbók Evrópusambandsins um samgöngur til skoðunar í EFTA-ríkjunum.
Hvítbók Evrópusambandsins um samgöngur til skoðunar í EFTA-ríkjunum.

Í mars síðast liðnum gaf DG-MOVE (Mobility and Transport), sú deild framkvæmdastjórnar ESB sem fjallar um samgöngur, út Hvítbók um framtíð samgangna og flutninga innan sambandsins, „Roadmap to a Single European Transport Area – Towards a competitive and resource efficient transport system”. Hvítbók er stefnuyfirlýsing, sem þó er ekki orðin bindandi. Hægt er að gera athugasemdir við hana, en í framhaldi af umsagnarferlinu verður stefnan tekin með setningu reglugerða á þessu sviði.

Á fundi vinnuhóps EFTA um samgöngur (WG-Transport) í júní sl. var ákveðið að EFTA-löndin myndu senda sameiginlega umsögn um Hvítbókina til framkvæmdastjórnarinnar. Í viðhengi eru drög EFTA að sameiginlegri umsögn, en jafnframt hefur EFTA farið þess á leit að sendar verði tillögur um breytt og bætt orðalag, ef þurfa þykir.

Í Hvítbókinni er áhersla lögð á að undirbúa Evrópu fyrir framtíðina með samkeppnishæfu og sjálfbæru flutningakerfi. Gert er ráð fyrir vaxandi flutningum og hreyfanleika um leið og minnka á útblástur gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum um allt að 60% til ársins 2050 (miðað við árið 1990). Stefnt er að hreinni borgarumferð, án hefðbundins eldsneytis. Nýttir verði mismunandi flutningamátar til að gera flutninga á millivegalengdum skilvirka og lögð áhersla á jafnræði á lengri vegalengdum.

Á bls. 9-10 í Hvítbókinni er fjallað um 10 leiðir sem unnið verður að til að ná markmiðinu um samkeppnishæft samgöngukerfi sem gengur fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum (resource efficient) og hefur möguleika á að ná takmarkinu um 60% minnkun útblásturs, en þær eru þessar:

Þróun og nýting nýs og sjálfbærs eldsneytis og knúningskerfa (propulsion systems)

  • Helmingsfækkun ökutækja sem nota hefðbundna orkugjafa til ársins 2030; útrýma þeim úr borgarsamfélögum fyrir árið 2050; ökutæki sem gefa frá sér koltvísýring verði útrýmt í farmflutningum innan stærri borgarkjarna fyrir árið 2030.
  • Notkun endurnýjanlegs flugvélaeldsneytis nemi allt að 40% fyrir 2050; ennfremur að  CO2 útblástur frá skipum minnki um allt að 40% á sama tímabili (mögulega 50%).

Hámarksnýting samtengdra flutningakerfa, nýting orkusparandi flutningakerfa

  • Stefnt skal að því að 30% af flutningum á farmi sem vegur yfir 300 kg verði fluttur með járnbrautum eða sjóleiðis fyrir árið 2030 og meira en 50% af slíkum flutningum fyrir árið 2050. Þetta verði gert auðveldara með því að koma á „grænum” flutningastofnleiðum og með eflingu á innviðum flutninga til að ná þessu marki.
  • Fullgera evrópska háhraðajárnbrautarkerfið fyrir árið 2050. Þrefalda lengd núverandi kerfis fyrir árið 2030. Stefnt er að því að fyrir 2050 fari meginhluti farþegaflutninga á meðallöngum leiðum fram með járnbrautum.
  • Komið verði á fjölþættu flutningakerfi (multimodal) á svæðinu á grundvelli grunnnetsins (core network) fyrir árið 2030. Hágæða og afkastamiklu flutningskerfi verði síðan komið á fyrir árið 2050 og nauðsynleg upplýsingakerfi verði til staðar fyrir sama tíma.
  • Fyrir árið 2050 verði allir grunnnets („core network”) flugvellir tengdir við háhraðajárnbrautarkerfið, tryggt verði að hafnir innan grunnnetsins verði tengdar við járnbrautaflutningakerfið og þar sem mögulegt reynist, við kerfi skipgengra vatnaleiða.

Auka afköst flutningakerfisins og efling innviða þess með notkun upplýsingakerfa og með beitingu markaðstengdra lausna.

  • Nýju flugleiðsögukerfi (SESAR) verði komið á innan Evrópu fyrir 2020 og einnig sameiginlegu evrópsku flugsvæði. Jafnframt verði samsvarandi leiðsögukerfi komið á fyrir samgöngur á landi og sjó og jafnframt verði unnið að frekari þróun á evrópska gervihnattaleiðsögukerfinu, Galileó.
  • Komið verði á fót upplýsingakerfi fyrir fjölþætta flutninga, stjórnun þeirra og greiðslukerfi.
  • Stefnt verði að því að nálgast það mark fyrir árið 2050 að engin banaslys verði í umferð á vegum innan sambandsins. Í samræmi við þetta markmið stefnir ESB að helmingsfækkun umferðarslysa fyrir árið 2020. Aðildarlönd ESB verði í forystu á heimsvísu í auknu öryggi og vernd á öllum sviðum samgangna.
  • Stefnt er að því að markmiðin um að sá sem notar samgöngukerfið greiði fyrir það (“user pays”) og að sá sem veldur mengun í kerfinu greiði einnig fyrir það (“polluter pays) komi að fullu til framkvæmda, ennfremur að leitað verði eftir samstarfi við einkageirann um að ryðja úr vegi misvægi í samgöngumálum, svo sem með skaðlegum niðurgreiðslum og með því að tryggja hagstæð rekstrarskilyrði og fjármögnun til fjárfestinga á sviði samgangna til framtíðar.

Í viðauka með Hvítbókinni eru síðan tilgreindar aðgerðir til að ná framangreindum markmiðum.

Í drögum EFTA að sameiginlegri umsögn er almennt tekið vel í stefnuna. Þar á meðal að stefnt sé að því að fjarlægja hindranir fyrir sameiginlegum flutningamarkaði, samþætta eigi nýtingu mismunandi flutningamáta og að leggja eigi áherslu á öryggi og vernd. Þá er einnig lýst stuðningi við stefnu um svo kallað TEN-T flutningakerfi, rannsóknir og þróun, umferðarstjórnunarkerfi og aðgengi að flutningakerfinu. Þá er vakin sérstök athygli á að stefnan þurfi að taka tillit til sérstöðu jaðar- og fámennari svæða og að mikilvægt sé að innan ramma hinnar sameiginlegu stefnu verði hægt að aðlaga stefnuna að sérstöðu þjóða og svæða.

Meðal annarra athugasemda má nefna:

  • Í 11. tl., þar sem fjallað er um að notendagjöld eigi að dekka allan kostnað kerfisins, segir að þar sem nýting samgöngumannvirkja sé lág sé óraunhæft að notendur greiði fyrir allan kostnað vegna þeirra, sambland af notendagjöldum og framlagi frá ríkinu þurfi að koma til.
  • Í 12. tl., þar sem fjallað er um einkaframkvæmdir, segir að reglur á þessu sviði þurfi að vera sveigjanlegar og ekki stuðla sérstaklega að einkaframkvæmd.
  • Í 39. tl., þar sem fjallað er um áætlun um að koma flutningakerfinu aftur í gang eftir hryðjuverkaárás, er lagt til að tekið verði tillit til allra ógna s.s. náttúruhamfarar.

Stefnt er að því að senda athugasemdir Íslands um Hvítbókina til EFTA í síðasta lagi þann 5. september nk. Því er þess farið á leit að þeir sem vilja senda inn athugasemdir geri það í síðasta lagi 20. ágúst nk. Hægt er að senda inn almennar athugasemdir eða gera tillögur að breytingu á drögum EFTA að umsögn með „track changes”. Drög að umsögn EFTA eru á ensku en tekið er við athugasemdum hvort sem er á íslensku eða ensku. Athugasemdir berist til innanríkisráðuneytisins, t-póstfang: [email protected].

Frekari upplýsingar um Hvítbókina er að finna hér:

Hvítbókin:

http://ec.europa.eu/transport/strategies/2011_white_paper_en.htm

Almennar upplýsingar:

http://ec.europa.eu/transport/strategies/2009_future_of_transport_en.htm

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta