Hoppa yfir valmynd
8. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur á mánudegi, 8. mars 2021

Heil og sæl. 

Við heilsum ykkur frá Rauðarárstíg í þetta sinn á mánudeginum 8. mars sem jafnframt er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og færum ykkur það helsta sem gerðist í utanríkisþjónustunni í síðustu viku.

Dagskrá Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lauk með fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna (N5) á föstudag en það var jafnframt fyrsti norræni utanríkisráðherrafundur ársins. Á fundinum voru alþjóðamál, öryggis- og varnarmál og COVID-19 efst á baugi á fundi  og segir Guðlaugur Þór samband ríkjanna standa sterkar eftir kórónuveirufaraldurinn.

„Norðurlandasamstarfið er bæði fjölbreytt og þróttmikið og líklega hefur það aldrei staðið sterkar en einmitt nú. Í fyrra tók ég þátt í 31 ráðherrafundi með Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum sem segir sína sögu um mikilvægi samstarfsins á þeim óvissutímum sem nú eru uppi. Þar gildir einn fyrir alla og allir fyrir einn,“ sagði Guðlaugur Þór.

Á þriðjudag fór fram alþjóðleg ráðstefna um plastmengun á norðurslóðum. Ísland fer með formennsku í Norðurskautsráðinu og stendur að ráðstefnunni ásamt Norrænu ráðherranefndinni. Guðlaugur Þór flutti ávarp og lagði þar áherslu á mikilvægi þess að útrýma plastmengun úr norðurhöfum og sagði einnig frá því að Ísland væri nú komið í stóran hóp ríkja sem berjast gegn svokölluðum drauganetum (e. Global Ghost Gear Initiative). 

Á miðvikudag var Heimstorg Íslandsstofu formlega opnað en það er ný upplýsinga- og samskiptagátt fyrirtækja sem leita viðskiptatækifæra í þróunarlöndum og víðar. Verkefnið var kynnt í beinni útsendingu frá Hörpu. Ráðherra ræddi einnig um Heimstorg í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn síðasta og sagði frá því í stuttu máli hér:

Þá fundaði utanríkisráðherra með Andrew Lewis, yfirmanni herstjórnar Atlantshafsbandalagsins í Norfolk í Bandaríkjunum, í síðustu viku. Þar voru öryggis- og varnarmál aðalrumræðuefnið. „Undanfarin ár hafa einkennst af vaxandi óvissu í öryggismálum á Norður-Atlantshafi, ekki síst vegna aukinna hernaðarumsvifa Rússa. Atlantshafsbandalagið hefur því beint sjónum sínum í auknum mæli að svæðinu og m.a. sett á fót herstjórnarmiðstöð í Norfolk, sem stefnt er að því að fari með stjórn herflota bandalagsins á Norður-Atlantshafi. Heimsókn aðmírálsins hingað til lands er liður í undirbúningi þess og því mikilvægt að geta rætt við hann um aðstæður hér og kynnt um leið hvað Ísland leggur af mörkum til sameiginlegra varna bandalagsins,“ sagði Guðlaugur Þór.

Þessu til viðbótar bauð Guðlaugur Þór upp á óundirbúinn fyrirspurnatíma í vikunni sem í þetta skiptið fór fram á Instagram. Þá hélt ráðherra áfram að rifja upp ráðherratíð sína í tilefni af fjögurra ára starfsamæli fyrir skemmstu með grein í Morgunblaðið um mannréttindamál.

Jafnframt fram árlegt samráð við Bandaríkin um öryggis- og varnarmál í síðustu viku. Tvíhliða samstarf ríkjanna, samvinna á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, öryggispólitísk málefni, norðurslóðir, loftslags-, mannréttinda- og lýðræðismál voru til umræðu á fjarfundinum en það var Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sem leiddi viðræðurnar fyrir Íslands hönd.

Þessu næst ætlum við að snúa okkur að starfsemi sendiskrifstofa okkar í síðustu viku.

Í Berlín hefur María Erla Marelsdóttir sendiherra fundað undanfarnar vikur með fulltrúum þýskra stjórnmálaflokka og hugveita á sviði stjórnmála til að efla tengsl og öðlast betri innsýn í þýsk innan- og utanríkismál í aðdraganda kosninga á árinu. Gengið verður til kosninga í sex sambandslöndum sem og til sambandsþingsins í Berlín, Bundestag á árinu. Fyrirhugaðir eru fleiri fundir á þessum vettvangi. Staðgengill sendiherra hefur jafnframt tekið þátt í fundum á vegum Uppbyggingarsjóðs EES um verkefni tveimur umdæmisríkjum sendiráðsins, Póllandi og Króatíu. Þar er m.a. lögð áhersla á orkumál, jarðhita, menntun og jafnréttismál. 

Í Washingon hefur verið mikið um að vera upp á síðkastið. Síðasta vika var fimmta og síðasta vika kvikmyndahátíðarinnar Nordic Women in Film sem var jafnframt Íslandsvika. Kvikmyndahátíðin Nordic Women in Film er samstarfsverkefni sendiráða Norðurlandanna í Washington og samtakanna Women in Film and Television International. Kvikmyndin Andið eðlilega var sýnd daganna 2. til 4. mars og var uppselt á sýningu myndarinnar. Fjölmargir viðburðir hafa farið fram í tengslum við hátíðina en á miðvikudag fór fram svokallað „kaffispjall“ sem Bergdís Ellertsdóttir sendiherra opnaði áður en samtal við leikstjóra myndarinnar Ísold Uggadóttur og leikkonuna Kristínu Þóru Haraldsdóttur fór fram. Hægt er að horfa á kaffispjallið hér.

Þá fór einnig fram fjarráðstefna með ræðismönnum Íslands í Bandaríkjunum og er þetta í annað skiptið sem slík ráðstefna fer fram eftir að COVID-19 heimsfaraldurinn skall á heimsbyggðina.

Á föstudag fór svo fram ráðstefnan WomenInNovation sem sendiráðið í Washington ásamt aðalræðisskrifstofunni skipulagði í samstarfi við Nordic Innovation House í New York og viðskiptafulltrúa Norðurlandanna. Með ráðstefnunni var lagt upp með að öðlast betri skilning á þeim áskorunum sem kvenfrumkvöðlar mæta í störfum sínum. Öflugur hópur frá Íslandi tók þátt, þær Eliza Reid, forsetafrú, sem flutti ávarp, Iðunn Jónsdóttir frá IESE Business School og Halla Tómasdóttir framkvæmdastjóri The B Team. 

Í Genf er marslota mannréttindaráðsins í fullum gangi þess dagana og mörg mikilvæg mál til umræðu. Fulltrúi Íslands ræddi stöðu mannréttinda og mannúðar í Tigray í Eþíópíu í ræðu sinni í vikunni en tók einnig undir mikilvæga sameiginlega ræðu Þýskalands um Tigray.  Nánar um málið hér. Í Genf stýrði Harald Aspelund fastafulltrúi svo einnig viðskiptarýni Sádi-Arabíu. Katrín Einarsdóttir, varafastafulltrúi, tók til máls á fundinum og hvatti stjórnvöld í Sádi-Arabíu til að auka þátttöku kvenna í viðskiptum og vinna að jafnrétti kynjanna í góðu samstarfi við þá sem berjast fyrir jafnrétti.

Þá opnaði Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands í Brussel, viðburð Íslandsstofu þar sem áfangastaðurinn Ísland var kynntur á opinni vefráðstefnu sem fór fram í síðustu viku. Nánar um málið hér.

Við segjum skilið við þessa yfirferð í bili og mætum með ferskan póst næstkomandi föstudag.

Kveðja frá upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta