Ræddi EFTA, Brexit, öryggis- og varnarmál og þróunarsamvinnu í Ósló
Á fundi sínum með Torbjørn Isaksen, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs, tók Guðlaugur Þór upp fríverslunarmál, ekki síst málefni EFTA og samvinnu Íslands og Noregs. Þá ræddu ráðherrarnir áhrif Brexit á fríverslunarumhverfið og EFTA.
Utanríkisráðherra fundaði einnig með Nikolai Astrup, þróunarmálaráðherra Noregs, og gerði ráðherra meðal annars grein fyrir auknum framlögum Íslands til þróunarsamvinnu og mannúðarastoðar, auk þess að ræða samstarf við einkageirann.
Að endingu átti Guðlaugur Þór fund með Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, þar sem öryggismál á norðanverðu Atlantshafi og aukin samvinna Íslands og Noregs í öryggis- og varnarmálum voru meðal fundarefna. Einnig ræddu ráðherrarnir þróun mála í Evrópu, norrænt samstarf sem og samvinnu á norðurslóðum, en Ísland tekur við formennsku í Norðurlandasamstarfi og Norðurskautsráðinu á næsta ári. Þá tæptu ráðherrarnir á helstu málum á alþjóðavettvangi.
Í gær ræddi utanríkisráðherra við forsvarsmenn Atvinnurekendasambands Noregs (NHO) og utanríkismálastofnunarinnar (NUPI) þar sem þróun mála í Evrópu var í forgrunni.
„Ísland og Noregur eru mjög nánar vina- og frændþjóðir og við deilum hagsmunum og sýn í mörgum málaflokkum. Samvinna okkar í öryggis- og varnarmálum hefur vaxið ört á umliðnum árum og horfum sömu augum á þróun í norrænni samvinnu og á norðurslóðum. Málefni EFTA verða sömuleiðis sífellt þýðingarmeiri. Því er mikilvægt að treysta samstarfið við Noreg og nýja ríkisstjórn enn frekar sem var meginmarkmið ferðar minar til Oslóar að þessu sinni," segir Guðlaugur Þór Þórðarson.