Nr. 295/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 3. september 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 295/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20050040
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 26. maí 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Tyrklands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 6. desember 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 11. mars 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 6. maí 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 26. maí 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 18. júní 2020 ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótargögn þann 28. ágúst s.l.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera fæddur og uppalinn í þorpinu [...] héraði í Tyrklandi. Áður en hann hafi flúið til Íslands hafi kærandi verið búsettur í Kirgistan. Þá kvaðst kærandi vera múslimi og svonefndur gülanisti og ástæða flótta hans frá Tyrklandi hafi verið ofsóknir á hendur Gülen hreyfingunni síðan árið 2016. Þá kvaðst hann tilheyra minnihlutahópi í heimaríki sínu sem meðlimur Gülen hreyfingarinnar. Aðspurður um ástæður flótta síns hafi kærandi greint frá því að hafa starfað sem kennari í einkaskóla í [...] í Tyrklandi. Skólinn hafi verið rekinn af gülanistum. Kærandi hafi farið í heimsókn til Kirgistan þann 29. júní 2016 og hafi átt miða til baka þann 27. júlí sama sumar. Þann 15. júlí 2016 hafi hins vegar verið gerð valdaránstilraun í Tyrklandi og yfirvöld hafi í kjölfarið lokað skólum með tengsl við Gülen hreyfinguna þann 23. júlí sama ár. Ástæða þess hafi verið sú að tyrknesk yfirvöld hafi kennt hreyfingunni um valdaránstilraunina og dagana eftir hafi yfirvöld handtekið starfsbræður kæranda sem tilheyrðu hreyfingunni. Kærandi hafi því ákveðið að hann gæti ekki snúið aftur til Tyrklands frá Kirgistan þar sem hann yrði handtekinn við komuna til landsins. Kærandi hafi því verið áfram í Kirgistan næstu fjögur árin þar til hann hafi flúið til Íslands. Kærandi kvað alla vini sína hafa verið handtekna og beitta pyndingum í haldi í Tyrklandi.
Kærandi kvaðst hafa haft miklar áhyggjur í Kirgistan enda væru stjórnvöld þar í landi í góðum samskiptum við stjórnvöld í Tyrklandi. Kærandi kvaðst hafa gengið til liðs við Gülen hreyfinguna árið 1989. Þá líti yfirvöld svo á að allir sem starfað hafi við sama skóla og kærandi séu gülanistar. Eftir valdaránstilraunina hafi leigusali kæranda í Tyrklandi tilkynnt hann til tyrkneskra yfirvalda. Kærandi hafi farið í tyrkneska sendiráðið í Kirgistan til þess að sækja um tyrknesk vegabréf fyrir börn sín en fengið þær upplýsingar að ekki væri hægt að taka við umsókn hans þar sem hann væri á lista tyrkneskra yfirvalda yfir eftirlýsta gülanista í landinu. Hann hafi þó ekki getað fengið þann lista í hendur en hafi fengið að sjá á tölvuskjá starfsmanns að nafn hans væri á umræddum lista. Þá hafi skólanum sem hann hafi unnið hjá fyrir valdaránstilraunina verið lokað en skólinn hafi borið nafnið [...]. Kærandi hafi greint frá því að foreldrar hans og systkini hafi snúist gegn honum þar sem hann sé gülanisti, en þau séu þeirrar skoðunar að hreyfingin sé ábyrg fyrir valdaránstilrauninni líkt og meiri hluti fólks í landinu. Kærandi kvaðst einnig hafa starfað sem kennsluráðgjafi í skóla á vegum hreyfingarinnar í Kirgistan á árunum 1995 til 2008 en þá hafi hann snúið aftur til Tyrklands og hafið störf sem kennari í einkaskóla á vegum hreyfingarinnar í [...] og síðar í borginni [...]. Þá kvaðst kærandi geta lagt fram gögn sem sýni fram á vinnu hans hjá skólanum. Kærandi kvaðst óttast yfirvöld í Tyrklandi, hann verði handtekinn við komu til landsins og síðan fangelsaður þar sem hann sé sekur í augum yfirvalda. Hann óttist um líf sitt þar sem flestir sem fari af þessum sökum í fangelsi láti þar lífið. Þá kvað hann fjölskyldu sína, eiginkonu og börn einnig vera í hættu í Tyrklandi, þau verði einnig handtekin við komuna til landsins en þau séu nú með aðsetur í Kirgistan.
Í greinargerð er fjallað almennt um ástand mannréttindamála í Tyrklandi sem kærandi kveður að sé grafalvarlegt og fordæmalaust. Eins og ítarlega hafi verið fjallað um í fjölmiðlum hafi valdaránstilraun átt sér stað í Tyrklandi þann 15. júlí 2016. Tilraunin hafi verið óskipulögð og illilega misheppnuð. Til að bregðast við valdaránstilrauninni hafi ríkistjórn Recep Tayyip Erdogan forseta virkjað neyðarlög þann 20. júlí 2016, í fyrstu til þriggja mánaða sem hafi svo verið framlengt ítrekað. Í kjölfar aðgerða ríkistjórnarinnar hafi mannréttindavernd í Tyrklandi farið verulega hrakandi. Forseti landsins hafi gengið harkalega fram gegn hvers kyns mótmælum gegn tyrkneskum stjórnvöldum, m.a. með beitingu hryðjuverkalaga sem fari á svig við grundvallarréttindi stjórnarskrár landsins. Samkvæmt heimildum hafi neyðarlögin nú formlega verið felld úr gildi en þrátt fyrir það megi búast við að áhrifa þeirra muni gæta áfram að verulegu leyti. Ný löggjöf gegn hryðjuverkum hafi verið samþykkt af þinginu í ágúst 2018 en hún veiti stjórnvöldum að mörgu leyti samskonar óvenjuleg völd og á neyðarástandstímabilinu. Þá vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna þar sem fram komi að saksókn yfirvalda á grundvelli löggjafar gegn hryðjuverkum sé enn gróflega misnotuð og að réttarhöld yfir einstaklingum sem taldir séu hafa átt aðild að valdaráninu séu enn í gangi. Yfirvöld hafi sett fjölda fólks í varðhald í tengslum við tilraunina og margir bíði enn réttarhalda. Mikill meirihluti þeirra sem sitji í fangelsi fyrir glæpi tengda hryðjuverkum séu tengdir Gülen hreyfingunni. Kosningar árið 2017 hafi átt sér stað í skugga neyðarlaganna og hafi breytingarnar falið í sér skref aftur á bak hvað varðar mannréttindi og réttarríki í Tyrklandi. Þær hafi í för með sér skort aðhalds á misnotkun valds, minnki verulega völd þingsins og tryggi forsetanum stjórn yfir skipan dómsmála. Í nýrri alþjóðlegri skýrslu komi fram að innlend og alþjóðleg mannréttindasamtök hafi greint frá mannshvörfum á síðasta ári, mörgum hverjum pólitískum þvinguðum mannshvörfum. Umrædd mannshvörf hafi m.a. tengst einstaklingum með tengsl við Gülen hreyfinguna. Í júlí 2016 hafi tilskipun verið samþykkt sem hafi m.a. kveðið á um lokun einkarekinna heilbrigðisstofnana, kennslustofnana og heimavista sem teldust í eigu Gülen hreyfingarinnar eða hafa einhver tengsl við hana. Þá vísar kærandi til aðstæðna í fangelsum í Tyrklandi en þær hafi versnað mikið eftir valdaránstilraunina. Ásakanir um pyndingar og illa meðferð á föngum hafi aukist eftir valdaránstilraunina. Fanga skorti m.a greiðan aðgang að drykkjarvatni, mat og heilbrigðisþjónustu. Þá sé í heimildum sérstaklega fjallað um pólitískar hefndaraðgerðir gegn einstaklingum sem staddir séu utan Tyrklands og grunaðir séu um tengsl við Gülen hreyfinguna.
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga enda séu yfirgnæfandi líkur á að hann muni sæta ofsóknum vegna stjórnmálaskoðana sinna í Tyrklandi. Í því samhengi vísar kærandi til ákvarðana Útlendingastofnunar í málum nr. 2019-02014, dags. 9. desember 2019, nr. 2019-00740, dags. 20. nóvember 2019 og nr. 2017-05745, dags. 4. apríl 2018 en í málunum hafi einstaklingum með tengsl við Gülen hreyfinguna frá Tyrklandi verið veitt alþjóðleg vernd á Íslandi. Kærandi byggir á því að ofsóknir þurfi ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda. Þannig geti ofsóknir sem vinir hans, ættingjar og aðrir sem tilheyri sama kynþætti eða þjóðfélagshópi hafi orðið fyrir hæglega gefið til kynna að ótti umsækjanda við ofsóknir sé ástæðuríkur. Orðið ótti eigi ekki aðeins við um þá sem hafi í raun verið ofsóttir, heldur einnig um þá sem flýja aðstæður þar sem hætta er á ofsóknum. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi tilheyrt og verið virkur í Gülen hreyfingunni í Tyrklandi frá árinu 1989 og starfað sem kennari í einkaskólum á vegum hreyfingarinnar sem yfirvöld hafi nú lokað á grundvelli fyrrnefndrar tilskipunar. Þá hafi kæranda verið neitað um afgreiðslu vegabréfa fyrir börn sín í sendiráði Tyrklands í Kirgistan, þar sem honum hafi verið tjáð að hann væri á lista tyrkneskra yfirvalda yfir eftirlýsta meðlimi hreyfingarinnar. Kærandi teljist því hafa stjórnmálaskoðanir sem séu yfirvöldum kunnar og feli í sér gagnrýni á stefnu og aðferðir stjórnvalda og séu þeim því ekki þóknanlegar, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Enn fremur hafi skólum sem kærandi hafi starfað hjá verið lokað og samstarfsmenn hans verið handteknir og látnir sæta fangelsisvist og pyndingum vegna gruns um tengsl við Gülen hreyfinguna. Kærandi geti því ekki snúið aftur til heimaríkis því hann sé fullviss um að hann muni hljóta sömu örlög. Fullljóst sé að kærandi teljist hafa stjórnmálaskoðanir sem falli undir skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga. Ljóst sé að þeir aðilar sem ofsótt hafi kæranda og aðra einstaklinga í sömu stöðu séu yfirvöld og aðilar sem komi fram á þeirra vegum. Þá telur kærandi fullljóst að tyrknesk yfirvöld hafi ekki vilja til að veita kæranda aðstoð eða vernd.
Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í Tyrklandi. Með vísan til nýrra heimilda um aðstæður í fangelsum í Tyrklandi megi ætla að aðstæður séu það slæmar að vistun þar ein og sér feli í sér brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. t.d. mál Peers gegn Grikklandi. Með því að senda kæranda til Tyrklands yrði brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Til þrautavara gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að ástand mannréttindamála í Tyrklandi sé grafalvarlegt og fordæmalaust. Viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað að undirlagi stjórnvalda sem geri það að verkum að yfirvöld verði ekki talin hafa vilja til að veita þeim sem fyrir þeim verða vernd. Líkt og fjallað hafi verið um sé kærandi í hópi þeirra einstaklinga sem mannréttindabrot beinist helst gegn. Þá sé ljóst að kærandi muni ekki geta starfað á sambærilegum vettvangi í heimaríki sínu. Samfélagið allt, foreldrar hans og systkini hafi snúið við honum baki. Kærandi tilheyri jaðarhópi sem yfirvöld beiti þvingunum og ýti undir andúð samfélagsins í garð hópsins. Kærandi myndi því búa við afar erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki.
Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi gerir í fyrsta lagi athugasemd við umfjöllun stofnunarinnar um framlögð gögn hans í málinu og því mótmælt að hann hafi ekki lagt fram nein gögn eða aðrar upplýsingar sem sýni fram á aðild hans eða þátttöku í Gülen hreyfingunni eða að hann hafi verið starfandi kennari. Telur kærandi það hafa komið skýrt fram í þeim gögnum sem hann lagði fram og hafi sýnt stofnuninni. Þá vísar kærandi til þess að hann hafi ekki getað fengið umræddan lista í hendurnar sem stofnunin vísar til. Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við umfjöllun stofnunarinnar um að hann hafi ekki greint frá neins konar áreiti eða ofbeldi í sinn garð fyrir að vera meðlimur Gülen hreyfingarinnar.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað afriti af tyrknesku vegabréfi auk afrits upplýsingablaðs útgefnu af tyrkneskum yfirvöldum þar sem fram komi upplýsingar um hin ýmsu auðkenni kæranda þar í landi, þ.m.t. vegabréf, ökuskírteini og auðkenniskort. Að mati Útlendingastofnunar hafi framlögð gögn ekki verið til þess fallin að sanna á honum deili. Við meðferð málsins hjá kærunefnd kom hins vegar í ljós að frumrit vegabréfs kæranda hafi verið í vörslum íslenskra yfirvalda. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé tyrkneskur ríkisborgari og hafi sannað auðkenni sitt.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Tyrklandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- 2016 Country Reports on Human Rights Practices: Turkey (U.S. Department of State, 3. mars 2017);
- 2017 Country Reports on Human Rights Practices: Turkey (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
- 2018 Country Reports on Human Right Practices: Turkey (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
- 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Turkey (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
- Country policy and information note: background note: Turkey (UK Home Office, september 2019);
- Country policy and information note – Turkey: Gülenist movement (UK Home Office, febrúar 2018);
- Country policy and information note - Turkey: Gülenism (UK Home Office, apríl 2017);
- EASO Country of Origin Information Report. Turkey. Country Focus (EASO, nóvember 2016);
- Education at a Glance 2019 - Turkey (OECD, 10. september 2019);
- Education Policy outlook: Turkey (OECD, október 2013);
- Freedom in the World 2019 – Turkey (Freedom House, 4. mars 2020);
- The World Factbook (Central Intelligence Agency, 3. mars 2020);
- Tilskipun nr. KHK/677 (Ríkisstjórn Tyrklands, 22. nóvember 2016);
- Turkey: The Fethullah Gulen Movement, including structure, areas of operation and activities; procedures for becoming a member; roles and responsibilities of membership; treatment of supporters; the Gulen Movement in Canada, including connections with organisations in Turkey and ability to confirm an individual’s involvement with the Gulen Movement in Turkey (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 29. september 2016);
- Turkey: The Hizmet movement, also known as the Gülen movement, including situation and treatment of followers or perceived followers; how members of the Hizmet movement are identified, including how persons or organizations might be perceived as belonging to the movement (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 6. janúar 2020);
- Turkey’s Constitution of 1982 with Amendments through 2017 (www.constituteproject.org/constitution/Turkey_2017.pdf?lang=en, skoðað 10. ágúst 2020);
- World Report Turkey 2019 (Human Rights Watch, 17. janúar 2019) og
- World Report Turkey 2020 (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).
Tyrkland er lýðveldi með rúmlega 83 milljónir íbúa. Ríkið er aðili að Evrópuráðinu og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Ríkið er jafnframt aðili að m.a. flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis. Þá hefur ríkið fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi.
Samkvæmt stjórnarskrá Tyrklands skulu allir borgarar landsins vera jafnir fyrir lögunum óháð tungumáli, kynþætti, litarhafti, kyni, stjórnmálaskoðunum, trúarskoðunum eða öðrum sjónarmiðum. Þá kveði lög á um bann við mismunun, m.a. á grundvelli stjórnmálaskoðana, kyns og trúar.
Í skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2019 kemur fram að í alþingis- og forsetakosningum árið 2018 hafi Recep Tayyip Erdogan verið endurkjörinn forseti landsins og réttlætis- og framfaraflokkurinn (AKP) hafi haldið áfram að leiða ríkisstjórn landsins. Stjórnkerfi ríkisins sé með þeim hætti að valddreifing sé lítil, áhrif þingsins takmörkuð og forseti ríkisins fari aðallega með stjórn ríkisins. Kosningarnar í júní 2018 hafi farið fram á meðan neyðarástand og neyðarlög hafi verið í gildi í ríkinu í kjölfar valdaránstilraunar í júlí 2016. Í gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um tilraunina kemur fram að henni hafi verið hrundið af stað með litlum undirbúningi þar sem um hafi verið að ræða viðbrögð hóps sem hafi talið sig eiga von á fjöldahandtökum að undirlagi stjórnvalda. Tilraunin hafi verið óskipulögð og ríkisstjórnin hafi náð tökum á ástandinu á einum sólarhring. Margir hafi látið lífið og ennþá fleiri særst í átökunum. Til að bregðast við valdaránstilrauninni hafi neyðarástandi verið lýst yfir í landinu og neyðarlög tekið gildi. Yfirlýst neyðarástand hafi svo verið framlengt ítrekað þar til því hafi að lokum verið aflýst þann 18. júlí 2018. Í ágúst 2018 hafi hryðjuverkalöggjöf tekið gildi í ríkinu sem m.a. hafi víkkað út valdsvið yfirvalda til að takmarka fundafrelsi og segja upp opinberum starfsmönnum, þ.m.t. dómurum. Lögin veiti stjórnvöldum að mörgu leyti sömu heimildir og hafi verið til staðar í neyðarlögunum. Samkvæmt lögunum hafi forseti landsins nú forsæti í ráðherraráði sem gefi út tilskipanir án athugasemda af hálfu þingsins eða með möguleika á að afgreiðsla þeirra verði kærð til stjórnlagadómstóls. Lögregla geti samkvæmt framangreindri löggjöf hneppt einstaklinga í allt að 12 daga varðhald. Þá séu u.þ.b. einn fimmti hluti fanga í ríkinu í fangelsi vegna ákæru fyrir brot tengd hryðjuverkum á grundvelli framangreindra laga samkvæmt dómsmálaráðuneyti ríkisins. Á grundvelli tilskipunar tyrknesku ríkisstjórnarinnar, nr. KHK/677 frá 23. júlí 2016, hafi 130 þúsund opinberum starfsmönnum verið vikið fyrirvaralaust úr störfum sínum í kjölfar valdaránstilraunarinnar.
Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í febrúar 2018 kemur fram að Fethullah Gülen hafi fæðst árið 1941 í norðausturhluta Tyrklands. Hann hafi komið fram á áttunda áratug síðustu aldar m.a. sem múslímskur predikari og talsmaður nútíma menntunar. Gülen hreyfingin (einnig kölluð FETÖ og Hizmet) sé ekki sérstakur stjórnmálaflokkur heldur frekar skipulagt samfélag þeirra sem fylgi Gülen. Hreyfingin aðgreini sig frá öðrum íslömskum hreyfingum með því að leggja áherslu á mikilvægi siðfræði í menntun, fjölmiðlum, viðskiptum og opinberu lífi. Hreyfingin samanstandi af fjölda fólks sem sett hafi á fót hundruði skóla, kennslumiðstöðva, sjúkrahúsa og hjálparstofnana. Samkvæmt skýrslunni megi rekja samband Fethullah Gülen og Erdogan forseta Tyrklands langt aftur en þeir hafi deilt sameiginlegri andstöðu við hersveitir Kemalista í Tyrklandi í mörg ár og haft það að sameiginlegu markmiði að koma flokknum frá völdum. Það hafi svo tekist með sigri AKP flokksins í kosningum árið 2007. Samband Erdogan og Gülen hafi farið versnandi í kjölfar kosninganna og hafi að endingu lokið árið 2013 þegar meðlimir Gülen hreyfingarinnar hafi rannsakað spillingu innan flokks Erdogan forseta og hafi m.a. dómarar hliðhollir Gülen hreyfingunni tekið fyrir kærur á hendur forsetanum fyrir spillingu. Þá hafi Gülen sjálfur gagnrýnt Erdogan fyrir meðhöndlun sína á mótmælum í Gezi garðinum árið 2013. Síðar það sama ár hafi Erdogan sagt Gülen og stuðningsmenn hans reyna að koma ríkisstjórn sinni frá með spillingarrannsókn sem leitt hafi til afsagnar ráðherra AKP. Í kjölfarið hafi Erdogan forseti og flokkur hans skilgreint Gülen hreyfinguna sem hryðjuverkasamtök og pólitískar aðfarir gerðar að hinum ýmsu einstaklingum og stofnunum vegna gruns um tengsl við hreyfinguna, s.s. menntastofnunum, embættismönnum, dómurum og fjölmiðlum.
Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2017 hafi Erdogan forseti og ríkisstjórn Tyrklands haldið því fram að Gülen hreyfingin hafi staðið að baki valdaránstilrauninni þann 15. júlí 2016. Í World Report skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2020 kemur fram að pólitísk áhrif á dómskerfið í Tyrklandi hafi leitt til þess að dómstólar hafi kerfisbundið og án sönnunargagna sakfellt einstaklinga og hópa sem stjórn Erdogan telji pólitíska andstæðinga sína. Það séu m.a. blaðamenn, stjórnarandstæðingar og aðgerðar- og mannréttindasinnar og stærsti hópurinn séu einstaklingar sem sagðir séu hafa tengsl við Gülen hreyfinguna. Einnig kemur fram í skýrslunni að samkvæmt tölum frá dómsmálaráðuneyti ríkisins frá því í júlí 2019 séu um 70 þúsund manns til rannsóknar vegna meintra tengsla við hryðjuverk. Fram kemur að 150 þúsund manns sæti enn rannsókn vegna ákæru um hryðjuverk tengd Gülen hreyfingunni og af þeim hafi um 30 þúsund einstaklingar verið vistaðir í fangelsi við meðferð mála eða eftir sakfellingu. Þá hafi aukning orðið í fjölda tilkynninga um pyndingar og ómannúðlega og vanvirðandi meðferð þeirra sem séu í haldi lögreglu eða í fangelsum í Tyrklandi. Eigi það helst við um Kúrda, vinstrisinnaða og fylgjendur Gülen hreyfingarinnar. Slíkum tilkynningum sé ekki fylgt eftir og málin ekki rannsökuð. Tyrknesk yfirvöld hafi haldið áfram að óska eftir að meintir stuðningsmenn Gülen hreyfingarinnar séu framseldir til ríkisins frá löndum víðs vegar um heiminn, margir þeirra kennarar. Þeir sem framseldir hafi verið að beiðni tyrkneskra yfirvalda með ólögmætum hætti hafi farið beint í varðhald við komuna til Tyrklands.
Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 kemur fram að með setningu hryðjuverkalaganna hafi ríkisstjórn landsins takmarkað grundvallarfrelsi íbúa ríkisins. Frá valdaránstilrauninni árið 2016 hafi að beiðni yfirvalda í Tyrklandi meira en 45 þúsund starfsmönnum lögreglu og hers verið vikið úr störfum sínum, um 130 þúsund opinberum starfsmönnum og um þriðjungi dómara. Þá hafi fleiri en 80 þúsund einstaklingar verið handteknir eða vistaðir í fangelsi og meira en 1500 frjálsum félagasamtökum verið lokað vegna meintra tengsla við Gülen hreyfinguna. Fram kemur að þeir sem sagðir eru tengjast hreyfingunni séu líklegri til að verða fyrir illri meðferð í haldi lögreglu. Þá hafi lögmenn lýst því yfir að þeir væru tregir til að taka að sér mál þeirra sem tengist hreyfingunni vegna ótta við ákærur og þvingunaraðgerðir stjórnvalda.
Samkvæmt tyrkneskum lögum er spilling refsiverð en þó bera ofangreindar heimildir með sér að spilling sé útbreitt vandamál í Tyrklandi. Dæmi séu um að embættismenn hafi tekið þátt í spillingu án þess að hljóta viðeigandi refsingu. Þá komi fram að ekki sé fullnægjandi eftirlit með spillingu í Tyrklandi og mál tengd spillingu séu ekki rannsökuð nægjanlega vel eða gefnar út ákærur í þeim. Jafnframt hafi óhlutdrægni dómstóla verið dregin í efa í meðferð mála um spillingu.
Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í september 2019 kemur fram að grunnheilbrigðisþjónusta sé endurgjaldslaus í Tyrklandi þó greiða þurfi fyrir lyf og aðra sérfræðiþjónustu. Tyrknesk stjórnvöld hafi ráðist í miklar endurbætur á heilbrigðiskerfinu árið 2003 þar sem aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu hafi verið aukið til muna. Því sé öll bráðaþjónusta og krabbameinsmeðferð endurgjaldslaus fyrir ríkisborgara Tyrklands, bæði á opinberum og einkareknum sjúkrahúsum.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir umsókn sína á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna en hann tilheyri Gülen hreyfingunni í Tyrklandi.
Mat á trúverðugleika kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.
Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og kærunefnd greindi kærandi frá því að vera fæddur og uppalinn í [...] héraði Tyrklands. Hann sé múslimi og hafi verið fylgismaður Gülen hreyfingarinnar síðan árið 1989. Þá greindi kærandi frá því að hafa starfað sem kennsluráðgjafi í skóla á vegum Gülen hreyfingarinnar í Kirgistan á árunum 1995-2008. Hann hafi svo starfað sem kennari í einkaskóla á vegum hreyfingarinnar í [...] í Tyrklandi og síðar í borginni [...] í Tyrklandi. Kærandi hafi farið í heimsókn til Kirgistan þann 29. júní 2016 og átt miða til baka þann 27. júlí sama ár. Í kjölfar valdaránstilraunarinnar í Tyrklandi þann 15. júlí 2016 hafi stjórnvöld lokað skólum með tengsl við Gülen hreyfinguna. Daginn eftir lokanir skólanna hafi yfirvöld handtekið starfsbræður kæranda og vegna ástandsins hafi kærandi ákveðið að hann gæti ekki snúið aftur til Tyrklands frá Kirgistan enda talið að hann yrði handtekinn við komuna til landsins. Allir vinir kæranda hafi verið handteknir og beittir pyndingum í haldi í Tyrklandi. Kærandi hafi því verið áfram í Kirgistan næstu fjögur árin. Hann hafi starfað sem enskukennari í menntaskóla í [...] héraði í Kirgistan en skólinn starfi á vegum Gülen hreyfingarinnar. Kærandi hafi haft miklar áhyggjur þegar hann hafi verið staddur í Kirgistan þar sem hann kveður stjórnvöld Tyrklands og Kirgistan vera í góðum samskiptum. Hann hafi t.a.m. farið í tyrkneska sendiráðið í Kirgistan til að sækja um vegabréf fyrir börn sín en hafi fengið þær upplýsingar að það væri ekki hægt þar sem hann væri á lista tyrkneskra yfirvalda yfir eftirlýsta gülanista í landinu.
Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram það mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki lagt fram gögn eða aðrar upplýsingar sem hafi verið til þess fallnar að sýna fram á aðild hans eða þátttöku í Gülen hreyfingunni. Þá hafi hann ekki lagt fram nein gögn sem renni stoðum undir að hann hafi verið starfandi kennari.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 kemur fram að engin formleg aðild sé að Gülen hreyfingunni og engar aðgangs- eða útgöngureglur. Þá gefi hreyfingin ekki út aðildarkort eða hafi opinbera þátttökuathöfn. Ekki sé að finna miðlæga aðildarskrá, aðildarnúmer og upplýsingar um aðild séu mjög ógagnsæjar og því erfitt að ákvarða hvort einhver sé fylgismaður hreyfingarinnar. Þátttaka sé frjáls og fjölbreytt. Sumir þátttakendur séu virkir í öllum verkefnum auk þess að styðja við hugmyndir og meginreglur hreyfingarinnar á meðan aðrir styðji aðeins ákveðnar meginreglur og taki aðeins þátt í vissum athöfnum. Sjálfboðavinna hreyfingarinnar feli m.a. í sér fjárframlög, þátttöku í trúarlegum umræðuhópum, ráðgjöf og nefndarsetu og launaðar stöður hjá formlegum stofnunum. Tyrknesk yfirvöld hafi litið til ýmissa þátta sem þau álíti vera sönnun þess að einstaklingur hafi tengsl við Gülen hreyfinguna, s.s. eign bankareiknings í Bank Asya, en bankinn hafi verið stofnaður af gülenistum og hafi verið lokað í kjölfar valdaránstilraunarinnar, aðgangur og notkun á dulkóðaða samskiptaforritinu ByLock, áskrift að fréttablaði gülenista, skólaganga barna eða starf einstaklinga við stofnun sem hefur tengsl við Gülen hreyfinguna og fjárframlög og/eða aðild að félögum eða samtökum sem talin séu hafa tengsl við hreyfinguna.
Til stuðnings frásögn sinni hefur kærandi við meðferð málsins lagt fram ýmis gögn sem renna eiga stoðum undir að hann hafi tengsl við Gülen hreyfinguna. Þannig hefur kærandi lagt fram gögn frá Bank Asya sem sýna fram á kreditkort hjá bankanum á nafni kæranda, auk þess sem nafn skólans sem kærandi kveðst hafa starfað hjá í [...] kemur þar fram. Þá hefur kærandi lagt fram gögn af vefsíðu tyrkneskra stjórnvalda þar sem finna má upplýsingar um tryggingagreiðslur kæranda. Lagði kærandi einnig fram skjáskot af umræddri síðu sem sýna fram á að kærandi hafi starfað sem enskukennari í skóla í [...] í Tyrklandi. Bæði skólinn í [...] og í [...] koma fram á lista sem fylgdi tilskipun tyrkneskra yfirvalda nr. KHK/667 um stofnanir sem lokað var í kjölfar valdaránstilraunarinnar í júlí 2016 vegna tengsla við Gülen hreyfinguna. Þá lagði kærandi fram skjal frá skólanum [...] í Kirgistan þar sem fram kemur að kærandi hafi starfað þar sem enskukennari. Á skjalinu má sjá að skólinn tilheyrir svokölluðu Sapat International Institution kerfi sem talið er hafa tengsl við Gülen hreyfinguna. Kærunefnd fann einnig mynd sem virðist vera af syni kæranda fyrir framan þann skóla í [...] sem kærandi kvaðst hafa kennt við. Með vísan til framburðar kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun og framangreindra gagna sem hann hefur lagt fram við meðferð málsins er það mat kærunefndar að leggja megi til grundvallar að kærandi hafi starfað sem kennari í skóla á vegum Gülen hreyfingarinnar um árabil. Í þeim skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér, m.a. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá því í mars 2020, kemur fram að frá því að valdaránstilraunin í Tyrklandi hafi átt sér stað þann 15. júlí 2016 hafi yfirvöld sett í varðhald, handtekið og réttað yfir hundruð þúsunda einstaklinga vegna meintra tengsla við Gülen hreyfinguna, oft án nokkurra sönnunargagna og án þess að réttlát málsmeðferð hafi verið tryggð. Auk þess hafi dómstóla skort óhlutdrægni í málunum og sakborningum oft meinaður aðgangur að sönnunargögnum sem liggja að baki ákærum á hendur þeim. Þá kemur fram í skýrslunni að þeir sem tengsl hafi við Gülen hreyfinguna séu líklegri en aðrir til að verða fyrir harkalegri meðferð yfirvalda. Mikill meirihluti þeirra sem handteknir hafi verið séu lögreglumenn, hermenn, dómarar, saksóknarar, kennarar og fræðimenn. Í kjölfar valdaránstilraunarinnar hafi ríkisstjórn Tyrklands sagt tæplega 30 þúsund kennurum upp störfum auk þess sem kennsluréttindi u.þ.b. 20 þúsund kennara sem starfað hafi við skóla á vegum Gülen hreyfingarinnar hafi verið felld úr gildi. Samkvæmt skýrslu Útlendingastofnunar Kanada hafi meðlimir Gülen hreyfingarinnar staðið frammi fyrir ofsóknum af hálfu stjórnvalda síðan valdaránstilraunin átti sér stað árið 2016. Hafi forseti landsins og aðrir ráðamenn látið hafa eftir sér hin ýmsu ummæli m.a. hafi þeir lýst því yfir að meðlimir hreyfingarinnar njóti ekki réttarins til lífs. Þá hafi forseti landsins vísað til þess að markmiðið sé að hreinsa stofnanir landsins af meðlimum hreyfingarinnar og því muni ekki ljúka fyrr en markmiðinu sé náð.
Frásögn kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun og greinargerð til kærunefndar hefur verið stöðug og fær stoð í þeim gögnum sem hann hefur lagt fram. Þá er frásögn hans samrýmanleg þeim gögnum sem kærunefnd hefur farið yfir og varða aðstæður í heimaríki kæranda. Kærunefnd telur því að ástæða sé til að ætla að kærandi, sem meðlimur Gülen hreyfingarinnar, eigi á hættu að sæta meðferð í heimaríki sem nái því alvarleikastigi að teljast ofsóknir, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og b- og c-liða 2. mgr. 38. gr. laganna. Þar sem yfirvöld eru að baki ofsóknum í garð þeirra sem tilheyra Gülen hreyfingunni er ljóst að kærandi getur ekki leitað verndar hjá yfirvöldum í heimaríki sínu. Er því fallist á að kærandi hafi með nægilega rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur vegna stjórnmálaskoðana sinna, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi þess að ofsóknir á hendur kæranda í heimaríki felast m.a. í lagasetningu og aðgerðum yfirvalda og gilda á öllu landssvæði heimaríkis kæranda er það mat kærunefndar að ekki sé raunhæft eða sanngjarnt að ætlast til þess af kæranda að hann setjist að annars staðar í heimaríki sínu, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður og hafi því rétt til alþjóðlegrar verndar hér á landi, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga.
Samantekt
Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.
Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa og þrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Bjarnveig Eiríksdóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir