Úrskurður nr. 243 Endurhæfingarlífeyrir
Grein
Þriðjudaginn 30. október 2007
243/2007
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú r s k u r ð u r.
Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.
Með kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 13. september 2007 kærir A, Danmörku synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. júní 2007 á umsókn um endurhæfingarlífeyri.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru þeir að kærandi sótti þann 31. maí 2007 um endurhæfingarlífeyri til Tryggingastofnunar ríkisins. Í vottorði B, læknis dags. 31. maí 2007 er sjúkdómsgreining, aðalmein: „Lumbago mgr seq tognun í col lumbalis bílslys 2002.” Aukamein: ,,obs. MS”. Þá er sjúkrasaga skv. vottorðinu:
„Langvinnur bakverkur eftir bílslys 2002. Getur engin störf unnið sem reyna á bak og hefur mjög takmarkaða getu til að sitja yfir verkefnum ss. eins og námi. Hefur margt reynt og sótt marga sérfræðilækna vegna síns vanda. Var um tíma vistuð á Reykjalundi- þar í 2 mánuði. Einnig á St. Jósefs í Stykkishólmi. Hefur einnig fengið sprautur í bak sem lítið hafa hjálpað. Stirð og aum í mjóbaki og hreyfingar allar skertar.”
Umsókn var synjað 15. júní 2007.
Í rökstuðningi með kæru segir:
„Í samráði við heimilislækni minn, B, hef ég ákveðið að láta endurskoða mál mitt. Ég hef verið í endurhæfingu í sumar vegna mikilla veikinda og er nú farin til Danmerkur og held áfram meðferð þar og get sent staðfestingu þar um. Eins og fram kemur er námið hugsað sem mikilvægur hluti af endurhæfingunni, þar sem ég get ekki unnið hvaða vinnu sem er. Ég er þegar í mjög nánu sambandi við námsráðgjafa á meðan náminu stendur og get sent staðfestingu þar um sé þess óskað. Ég tek færri einingar í náminu en aðrir vegna þess ég á svo erfitt með að sitja lengi og einnig vegna truflana sem raktar eru til MS sjúkdómsins og auk alls þessa er fyrirhugað kraftmikið æfingarprógram þar sem ég geri sjálf æfingar í sundlaug og sal samkvæmt áætlun sjúkraþjálfara.”
Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 18. september 2007 eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Greinargerðin er dags. 3. október 2007. Þar segir m.a.:
„Samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, er heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri þegar ekki verður séð hver örorka einstaklings verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys, í allt að tólf mánuði eftir að greiðslu sjúkra- eða slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar lýkur eða þar til unnt er að meta varanlega örorku, þó aldrei lengur en í 18 mánuði. Skilyrði er að viðkomandi gangist undir greiningu eða meðferð á sjúkrastofnun eða utan slíkrar stofnunar.
Við mat vegna endurhæfingarlífeyris þann 15.06. 2007 lágu fyrir læknisvottorð B, dagsett 31.05. 2007 og umsókn A dagsett þann sama dag ásamt fylgigögnum. Fram kom að hún hefði langvinna bakverki og sömuleiðis einkenni frá taugakerfi. Í læknisvottorði var sett fram meðferðartillaga með sjúkraþjálfun og æfingum auk rannsókna og lyfjameðferðar. Fram kom að A væri við nám í Danmörku. Endurhæfingaráætlun þótti ekki nægilega markviss til að tilefni væri að veita endurhæfiugarlífeyri og var umsókn A því synjað. Í framhaldinu barst Tryggingastofnun bréf A, dagsett 15.08. 2007 þar sem hún óskaði endurskoðunar á framangreindri ákvörðun. Henni var svarað með bréfi, dagsett 21.08. 2007 þar sem bent var á að sjúkraþjálfun og önnur einkennamiðuð meðferð gefi að jafnaði ekki tilefni til að veita endurhæfingarlífeyri og ekki sé hægt að líta á framhaldsnám erlendis sem endurhæfingu. Synjunin stóð því óbreytt.”
Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 5. október 2007 og henni veitt tækifæri til að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum. Slíkt hefur ekki borist.
Álit úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri. Kærandi glímir við mikla bakverki í kjölfar bílslyss og einnig er grunur um MS sjúkdóm. Margt hefur verið reynt til að ráða bót á sjúkdómseinkennum kæranda án mikils árangurs. Kærandi stundar nám í Danmörku og hyggst halda þar endurhæfingu áfram.
Rökstuðningur kæranda er að hún hafi verið í endurhæfingu sl. sumar. Þeirri endurhæfingu hyggist hún halda áfram í Danmörku. Námið sé hugsað sem mikilvægur hluti endurhæfingarinnar. Þá verði hún áfram í lyfjameðferð auk æfinga í sundlaug og sal samkvæmt áætlun sjúkraþjálfara.
Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að endurhæfingaráætlun sé ekki nægilega markviss og að ekki sé hægt að líta á framhaldsnám erlendis sem endurhæfingu.
Ákvæði um endurhæfingarlífeyri er í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 1. gr. laganna eru taldir upp þeir bótaflokkar sem teljast til félagslegrar aðstoðar. Þar á meðal er endurhæfingarlífeyrir. Í 2. mgr. 1. gr. sömu laga segir:
,,Bætur félagslegrar aðstoðar greiðast eingöngu þeim sem lögheimili eiga hér á landi, sbr. 1. gr. laga um lögheimili, og að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna ??..”
Greiðsla endurhæfingarlífeyris er samkvæmt framansögðu bundin því lagaskilyrði að bótaþegi eigi lögheimili á Íslandi. Samkvæmt skráningu Þjóðskrár flutti kærandi lögheimili sitt frá Íslandi til Danmerkur 15. september 2006. Frá þeim tíma á hún því ekki rétt til endurhæfingarlífeyris hér á landi. Synjun Tryggingastofnunar um greiðslu endurhæfingarlífeyris er staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu endurhæfingarlífeyris til A er staðfest.
F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
_______________________________________
Friðjón Örn Friðjónsson,
formaður